Fjárlög 1990
Föstudaginn 22. desember 1989


     Pálmi Jónsson:
    Hæstv. forseti. Með þessari tillögu er gert ráð fyrir að veitt verði heimild til þess að kaupa dagblöð fyrir skóla, sjúkrahús og aðrar þjónustustofnanir ríkisins, allt að 500 eintökum af hverju blaði umfram aðrar heimildir sem í fjárlögunum eru. Aðrar heimildir eru til þess að kaupa 250 eintök fyrir stofnanir ríkisins. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir því á 4. gr. að styrkur til dagblaðanna sé samtals 61 millj. 830 þús. kr. Hér sýnist mér of í lagt og ástæðulaust að stefna að þessum útgjöldum ríkissjóðs en með tillögunni er mér sagt að um útgjöld muni verða að ræða sem nemi 54 millj. kr. Ég hef ekki sjálfur sannprófað hvort það er rétt. Ég tel að þessi mikli styrkur til blaðanna og til blaðakaupa í þeirri stöðu sem ríkissjóður er nú sé ekki þess efnis að mögulegt sé að verða við því. Ég er þessu líka gersamlega andvígur. Ég segi nei.