Minning Odds Ólafssonar
Mánudaginn 22. janúar 1990


     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Oddur Ólafsson læknir og fyrrum alþingismaður andaðist á Reykjalundi að morgni fimmtudagsins 18. janúar. Hann var á átttugasta og fyrsta aldursári.
    Oddur Ólafsson var fæddur 26. apríl 1909 á Kalmanstjörn í Höfnum, Gullbringusýslu. Foreldrar hans voru hjónin Ólafur bóndi og hreppstjóri þar, síðar á Óslandi, Ketilsson bónda í Kotvogi Ketilssonar og Steinunn Oddsdóttir prests í Grindavík, er fluttist síðar til Ameríku, Gíslasonar. Oddur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1929 og læknisfræðiprófi í Háskóla Íslands 1936. Hann var við framhaldsnám í sjúkrahúsum í Reykjavík 1936--1937 og í Bandaríkjunum 1942--1943. Almennt lækningaleyfi hlaut hann árið 1940 og var viðurkenndur sérfræðingur í berklalækningum 1943. Hann var aðstoðarlæknir á Vífilsstöðum mánaðartíma 1936 og síðan árin 1937--1942 og 1943--1945. Yfirlæknir Vinnuheimilisins á Reykjalundi var hann 1945--1970,
síðan starfaði hann sem ráðgefandi sérfræðingur um ýmis málefni Reykjalundar til júníloka 1972, og oft var hann jafnframt staðgengill héraðslæknisins í Álafosshéraði í forföllum hans. Hann var læknir öryrkjastöðvar Sambands íslenskra berklasjúklinga í Múlalundi í Reykjavík frá stofnun hennar 1959 til 1972. Hann var kosinn þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjaneskjördæmi 1971 og sat á Alþingi til 1979, á 10 þingum alls. Var forseti sameinaðs Alþingis á haustþinginu 1979. Á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sat hann 1971 og 1973.
    Oddur Ólafsson var einn af stofnendum Sambands íslenskra berklasjúklinga haustið 1938, sat í stjórn frá 1940 og var kjörinn formaður þess 1988. Hann átti sæti í stjórnskipaðri nefnd til að vinna að stofnun vinnuheimilis berklasjúklinga frá 1942 þar til það tók til starfa undir forustu hans, og hann var síðar stjórnarformaður þess 1982--1988. Í stjórn Rauða kross Íslands var hann 1952--1958, formaður framkvæmdaráðs hans 1952--1955. Hann var í stjórn Öryrkjabandalags Íslands frá stofnun þess 1961, formaður stjórnarinnar fyrstu árin. Árið 1986 baðst hann undan setu í stjórninni áfram og var þá kjörinn heiðursformaður bandalagsins. Stjórnarformaður Hússjóðs Öryrkjabandalagsins var hann frá stofnun sjóðsins 1966. Hann átti lengi sæti í stjórn Berklavarnasambands Norðurlanda, fyrst 1949, var í stjórn Alþjóðasambands brjóstholssjúklinga 1960--1965 og í stjórn Öryrkjasambands Norðurlanda 1962--1982. Árið 1957 var hann skipaður í úthlutunarnefnd bifreiða fyrir fatlað fólk, var formaður nefndarinnar 1963--1971. Árið 1959 var hann kosinn í nefnd til að athuga starfsskilyrði aldraðs fólks og í milliþinganefnd um málefni öryrkja. Árið 1970 var hann skipaður formaður endurhæfingarráðs, var skipaður 1971 í endurskoðunarnefnd tryggingakerfisins og aftur í nýja nefnd um almannatryggingar árið 1975. Árið 1971 var hann einnig skipaður í nefnd til að auðvelda fötluðum umferð.

    Oddur Ólafsson hlaut þau örlög að veikjast af berklum á námsárum sínum í Háskóla Íslands og tefjast nokkuð í námi af þeim sökum. Hin sára reynsla hans af hælisvist berklasjúklinga virðist hafa mótað ævistarf hans að nokkru. Hann gerðist berklalæknir, og hann skipaði sér í lið hugsjónamanna, sjúkra og heilbrigðra, sem unnu að því í sameiningu að veita sjúklingum á batavegi aðstöðu til að njóta starfskrafta sinna í umsjá læknis. Með stofnun þessara samtaka, Sambands íslenskra berklasjúklinga, var grunnurinn lagður að gifturíku starfi Odds Ólafssonar á Reykjalundi. Hin miklu nefnda- og félagsstörf hans, sem getið hefur verið hér, sýna hve mikilvirkur hann var og jafnframt hve mikils trausts hann naut. Flest störf hans tengdust aðstoð við sjúka og fatlaða, bættri aðstöðu þeirra til að njóta sín. Vinnuheimilið á Reykjalundi hefur jafnan verið talið frábær stofnun og oft verið sýnt sem slík erlendum gestum, meðal annars mörgum gestum Alþingis. En Oddur Ólafsson lét ekki staðar numið við framkvæmdir þar. Hann var hvatamaður að Múlalundi, vinnustofnun öryrkja, og Múlabæ, dagstofnun aldraðra í Reykjavík, í samstarfi við aðra aðila. Undir forustu hans í Öryrkjabandalagi Íslands voru reist á höfuðborgarsvæðinu stórhýsi með íbúðum handa öryrkjum, og öryrkjaíbúðum var komið upp víða um land. Við allar þessar framkvæmdir lögðu að vísu margir hug og hönd að verki og styrkir komu víða að þegar ríkulegur árangur af frumkvæði hugsjónamannanna í forustusveitinni kom í ljós.
    Oddur Ólafsson var kominn á sjötugsaldur þegar hann hóf störf á Alþingi. Af störfum hans hér ber hæst forgöngu í velferðarmálum sjúkra og fatlaðra og öðrum heilbrigðismálum. Með hógværð, sanngirni og festu vann hann málum sínum framgang hér sem annars staðar. Við lok þingferils síns var hann orðinn aldursforseti Alþingis.
    Ég vil biðja háttvirta alþingismenn að minnast Odds Ólafssonar með því að rísa úr sætum. --- [Þingmenn risu úr sætum.]