Flugmálaáætlun 1990--1993
Mánudaginn 22. janúar 1990


     Alexander Stefánsson:
    Virðulegi forseti. Ég lýsi að sjálfsögðu stuðningi við þessa þáltill. um flugmálaáætlun fyrir 1990--1993 um leið og ég undirstrika þá ákvörðun sem var tekin 1987, að taka flugmálin á þennan veg eins og hefur verið síðan, ætla þeim ákveðna tekjustofna og síðan að byggja upp áætlun sem á að fylgja eftir í öllum atriðum. Þetta er vissulega til bóta þó að alltaf megi segja að það vanti meira fjármagn, en miðað við það tímabil sem liðið er af þessari áætlun hefur það sýnt sig að hún sannar að hér er rétt að verki staðið og það er fullkomin ástæða fyrir Alþingi að standa við þá ákvörðun sem þá var tekin, að þarna verði ekki á slakað. Svo mikilvægir eru flugvellir hér á landi. Við verðum náttúrlega að viðurkenna það að meiri hluti þeirra er í óviðunandi ástandi en flugið hefur sannað og sannar með hverju ári sem líður mikilvægi þess fyrir samgöngur hér á landi.
    Ég kom nú hér fyrst og fremst upp til þess að lýsa þessu yfir og einnig því að ég tel að það sé mjög slæmt og raunar geti það verið hættulegt spor aftur á bak hjá Flugmálastjórn, sem á undanförnum árum hefur sannað að þar hefur verið mjög vel á haldið, bæði að því er varðar rekstur og framkvæmdastjórn, ef þar verður afturkippur þegar kemur í ljós að þar vantar tugi milljóna á hverju ári gæti það orðið mjög hættulegt. Í höndum Flugmálastjórnar er ekki aðeins dagleg umsjón og áætlunargerð um innlent flug heldur eru aðalumsvifin jafnvel enn þá meiri í sambandi við alþjóðaflug. Og það væri mjög illa farið ef þetta form, rekstur Flugmálastjórnar, fer að ganga það illa vegna fjárskorts að ekki sé hægt að sinna eðlilegum flugrekstri.
    Það kom í ljós, eins og hér hefur raunar komið fram við fjárlagagerðina fyrir yfirstandandi ár, að Flugmálastjórn eða rekstrarstjórnin taldi að það vantaði allmiklar fjárhæðir í reksturinn. Þetta hafði hins vegar þann ókost að ekki hafði verið gerð grein fyrir þessu í fjárlagagerðinni sjálfri og samgrn.
kom þess vegna ekki inn í málið á eðlilegan máta miðað við fjárlagagerðina. Að sjálfsögðu voru um þessa niðurstöðu skiptar skoðanir en ákveðið var að fallast á að gerð yrði tafarlaus endurskoðun á þessari rekstraruppsetningu, hvort um væri að ræða eitthvað sem mætti lagfæra á annan veg og að sjálfsögðu bíða menn eftir því að slíkri endurskoðun verði lokið þannig að tryggt sé að þessi mikilvæga starfsemi fyrir Ísland bíði ekki hnekki af innri ástæðum. Ég vil enn undirstrika það að menn trúa því, miðað við það sem reynslan hefur sýnt, að þeir sem halda um stjórnvöl þessarar mikilvægu starfsemi séu menn sem kunna til verka. Þess vegna vil ég taka undir það sem hér hefur raunar komið fram, að fljótlega verði upplýst hvað kemur út úr þessari endurskoðun.
    Ég ætla ekki að fara meira út í þetta. Þetta mál kemur að sjálfsögðu til fjvn. og þá verður hægt að fara ítarlega ofan í alla þætti flugmálaáætlunarinnar. Og það má vel vera að víða þurfi að athuga það vel eða fá meiri upplýsingar um það þegar um er að ræða

fjögurra ára áætlun. Það er alltaf eitthvað sem kemur þar upp og ég tek undir það með síðasta ræðumanni, hv. 3. þm. Vestf., að þegar maður horfir á Ísafjörð og þá aðstöðu sem íbúar þar búa við í samgöngumálum --- ég hef komið oftar en einu sinni á þennan flugvöll á Ísafirði --- tel ég alveg augljóst mál að þarna þarf úrbóta við til þess að tryggja betur það mikilvæga flug sem er frá þessum stað. Og ég held að hvað varðar þessa áætlun þurfi líka að athuga fleiri staði þar sem aðstaðan er það langt komin að hægt verði að nýta flugvellina til meiri útflutnings gegnum flugið en áður hefur verið, það þurfi einnig að skoða. Allt þetta verður að sjálfsögðu farið yfir í fjvn.