Flugmálaáætlun 1990--1993
Mánudaginn 22. janúar 1990


     Karvel Pálmason:
    Virðulegur forseti. Það eru aðeins nokkur orð út af ræðu hæstv. samgrh. Sú draumsýn sem menn eru nú með uppi varðandi bættar samgöngur á þessu svæði knýr kannski frekar á um það að flugvöllurinn á Ísafirði verði lagfærður. Það eru líka rök og ekki minnstu rökin. Verði farið í þetta, sem ég vona, sem nú er rætt innan ríkisstjórnar í jarðgangagerð og þeim flýtt á þessu svæði knýr það auðvitað frekar á um að flugvöllurinn verði lagfærður. Ég er nokkuð viss um það að flugvöllurinn á Ísafirði er einna ískyggilegasti flugvöllur til aðkomu á öllu landinu. Það er enn ein ástæðan fyrir því að þarna þarf betur að gera.
    Hæstv. ráðherra vísaði hér til öryggismálanefndar flugmanna. Ég man eftir því fyrir allmörgum árum að þá var sú nefnd algjörlega andvíg því að lagt yrði bundið slitlag á Ísafjarðarflugvöll. Þá var það talið hættulegt. Og ég hef engin rök til þess að færa gegn slíku þar sem sérfræðingar eiga í hlut. En þá var því líka borið við að til þess að það mætti gerast þyrfti að koma sandburður. Honum þyrfti að koma í lag. Nú er hann kominn fyrir löngu síðan þannig að engin rök af þessu tagi gagna núna til þess að komið verði í veg fyrir að slitlag verði lagt á Ísafjarðarflugvöll.
    Ég sagði áðan að skipta þyrfti um jarðveg. Hversu mikið það kostar veit ég ekki. Það verður að gerast á þessu ári, og það hefði auðvitað þurft að sjást, a.m.k. í lok þessa áætlunartímabils, að þá væri komið bundið slitlag á þennan flugvöll. Auðvitað eru mörg önnur verkefni og þau brýn og kannski lítur hver sjálfum sér næst. En ég held þó að almennt séu menn nokkuð sammála um það að Ísafjarðarvellinum verði að gera betur til góða en gert hefur verið og ég vænti þess að með afgreiðslu þessarar áætlunar á þessu áætlunartímabili verði hægt að ráða fram úr því að á þessu tímabili verði flugvöllurinn malbikaður.