Flugmálaáætlun 1990--1993
Mánudaginn 22. janúar 1990


     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Ég óska eftir því að hæstv. utanrrh. verði viðstaddur þessa umræðu þar sem óhjákvæmilegt er að beina til hans fyrirspurnum varðandi varaflugvöll sem lagður yrði með fé úr Mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins. Hæstv. utanrrh. hefur lýst yfir hér í þinginu að hann mundi gefa heimild til þess fyrir árslok 1989 að gerð yrði könnun á því hvar hagkvæmast væri að leggja varaflugvöll sem fjármagnaður yrði úr Mannvirkjasjóðnum. Ég óska eftir því að þessari umræðu verði frestað þannig að kostur gefist á því að ræða málið við hæstv. utanrrh. ( Forseti: Forseti vill fara þess á leit við hv. 2. þm. Norðurl. e. að honum gefist kostur á að bera fram fsp. hér í þinginu til hæstv. utanrrh. Eins og hv. þm. hlýtur að skilja er afar erfitt fyrir forseta þingsins að halda dagskrá ef mál frestast á þennan hátt þar sem ótal aðrir möguleikar eru til að fá svör við því sem hv. þm. er að spyrja um. Það er verið að athuga hvort hæstv. utanrrh. er viðlátinn en miðað við dagskrá dagsins í dag er afar erfitt að verða við óskum hv. þm. Ég vildi biðja hv. þm. að leyfa málinu að fara til nefndar en skal jafnframt tryggja hv. þm. tíma í fyrirspurnatíma.)
    Ég hlýt að vekja athygli á því, hæstv. forseti, að hæstv. forseti er samherji hæstv. samgrh. í þessu máli sem varðar fsp. mína. Ég álít að það sé rétt og nauðsynlegt að forseti þingsins reyni að horfa fram yfir flokkshagsmuni í úrskurðum sínum þó svo hann hafi lýst því yfir í forsetastóli að hann líti ekki á sig sem forseta sjálfstæðismanna eða þingflokks Sjálfstfl. ( Forseti: Ég vil taka það skýrt fram að forseti talaði ekki sem stuðningsmaður eins eða neins af þeim þingflokkum sem hér eru við störf, þó vitanlega sé forseti hluti af einum þeirra, heldur var mál mitt einungis til þess að halda þeirri dagskrá sem lögð hefur verið fyrir. Ég held að allur hv. þingheimur
telji mikilvægt að flugmálaáætlun verði afgreidd. Vil ég þess vegna enn ítreka ósk mína um að hv. þm. eigi orðastað við hæstv. utanrrh. í næsta fyrirspurnatíma og ég skal reyna að tryggja að svo geti orðið.) Hæstv. forseti virðist ekki skilja að það mál sem ég er hér að tala um varðar flugsamgöngur hér á landi. Hæstv. utanrrh. er meira og minna fjarverandi og hefur enginn ráðherra verið fjarverandi jafnmikið og hann. En mér skilst á hinn bóginn að hann ætli að nota tímann núna til þess að ferðast um landið á kostnað ríkisins með því að efna til áróðursfunda fyrir Alþfl. og kallar það fundahöld um Evrópubandalagið. Ber auðvitað að virða það að hæstv. utanrrh. skuli stundum vilja ferðast um sitt eigið land. En það breytir ekki hinu að honum ber þingleg skylda að vera hér í húsinu. Ég gæti sætt mig við að hæstv. forsrh. yrði þá fyrir svörum hér, en það er algjörlega óviðunandi að hæstv. ráðherrar virði ekki þann lágmarksrétt þingmanna að vera viðstaddir umræður.
    Ég vil jafnframt vekja athygli á því að þess eru dæmi að hæstv. ráðherrar svari út úr beinum

fyrirspurnum sem til þeirra er beint, eins og hæstv. fjmrh. gerði fyrir jólin, og ég hygg þess vegna að óhjákvæmilegt sé, og vil enn ítreka við hæstv. forseta að hann geri ráðstafanir til þess, að ná í ráðherrana. Ég sé ekki annað en hægt eigi að vera að slá þessari umræðu á frest, þingflokksfundir byrja ekki fyrr en kl. 5 og það hlýtur að vera þá svigrúm til þess að ræða þetta mál kl. 4. Ég held það hljóti að vera. Ég vil endilega biðja hæstv. forseta að virða rétt þingmanna til þess að varpa fsp. til ráðherra. Og ég vil beina því til hæstv. forseta að hann sjái til þess í sambandi við fundarstjórn að ekki sé gert upp á milli þingmanna eftir því hvar þeir eru í pólitík. --- Er hæstv. forsrh. í húsinu? ( Forseti: Forseti vill spyrja: Hefur hv. þm. lokið máli sínu?) Ég er að spyrja hæstv. forseta hvort forsrh. sé í húsinu og óska eftir því að náð sé í hann til þess að hægt sé að halda umræðunni áfram. ( Forseti: Nú hefur forseti látið sér nægja að gera tilraun til að ná í hæstv. utanrrh.) Ég hef óskað eftir því að öðrum kosti að náð verði í hæstv. forsrh. ( Forseti: Forseti skal verða við því að athuga hvort slíkt sé mögulegt. En forseti vill taka skýrt fram að hún vísar á bug þeim dylgjum sem hér hafa verið hafðar í frammi um að forseti geri mun á réttindum þingmanna hér eftir því til hvaða þingflokka þeir heyra, það er ekki rétt.) Það var ekki fullyrðing þess þingmanns sem stendur nú í ræðustól að forseti liti ekki á sig sem forseta þingmanna Sjálfstfl., það var fullyrðing forsetans sjálfs. ( Forseti: Forseti mun gefa hv. þm. útdrátt úr umræddum ummælum svo það liggi ljóst fyrir að þetta er rangt. --- Hefur hv. þm. lokið ræðu sinni?) Liggur það fyrir, hæstv. forseti, hvort hæstv. forsrh. er í húsinu? Þá er best að vera rólegur þangað til. ( Forseti: Ég hefði viljað fara þess á leit við hv. þm. að næsti hv. þm. á mælendaskrá fengi þá að ljúka ræðu sinni á meðan þar sem hv. 2. þm. Norðurl. e. á síðan tækifæri til að koma aftur í ræðustól, svo við nýtum tímann betur en að sitja hér og bíða.)
    Það er fróðlegt að sjá hvernig þinghaldið gengur. Núna á jólaföstu var það þannig að hér var ekki hægt að halda uppi eðlilegum þingstörfum vegna þess að hæstv. ríkisstjórn var svo seint tilbúin með sín mál að ekki vannst tími, hvorki til að ræða málin né vinna að þeim í nefndum. Nú erum við hér að ræða
um flugmálaáætlun og það er ekki hægt að fá svarað einföldustu fsp. um mál er varða flugmál og hæstv. forseti er svo órólegur að hann ber í bjölluna meðan verið er að ... ( Forseti: Hv. þm. hefur einfaldlega lokið ræðutíma sínum.) Ég ætla að biðja hæstv. forseta að vera ekki að grípa fram í meðan verið er að ræða þau mál sem beint varða þá þáltill. sem hér liggur fyrir. En þetta lýsir náttúrlega mætavel vinnubrögðum hér á þinginu, þetta lýsir mætavel þeirri sanngirni sem menn eiga von á hér þegar ekki er séð til þess að ráðherrar séu við umræður. Hæstv. forseti synjar um það að gera hlé á umræðunni meðan verið er að ná í þá og hafnar góðri samvinnu við þingmenn um vinnubrögð á Alþingi. Þetta er náttúrlega mjög alvarlegur hlutur. En á hinn bóginn komast einstakir

ráðherrar upp með það að fara blaðskellandi í fjölmiðla af og til, svara einu í dag og öðru á morgun. En ef þingmenn fara hins vegar fram á það með fullri einurð og kurteisi að þeir standi fyrir svörum hér í þinginu eru viðbrögð ráðherra þau að reyna að drepa á dreif slíkum tilraunum og standa gegn því að mál upplýsist. Þetta er auðvitað hörmuleg frammistaða en er í fullu samræmi við þann tvískinnung sem er í þessum málum og varðar m.a. það kjördæmi sem hæstv. samgrh. er frá. Tvískinnung sem ekki aðeins kemur fram í afstöðu til samgöngumála, flugmála, tvískinnung sem kemur fram í afstöðu til vegamála og tvískinnung sem kemur fram í afstöðu til atvinnuuppbyggingar.