Flugmálaáætlun 1990--1993
Mánudaginn 22. janúar 1990


     Pálmi Jónsson:
    Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hæstv. samgrh. að það liggur yfirleitt vel á mér og hefur gert það bæði fyrir og eftir jól og ég vona að svo verði áfram. Helst vildi ég að það lægi vel á okkur báðum. En það var hins vegar þetta að hann hnaut um þau orð í máli mínu að hann hefði ,,beitt sér fyrir`` og hann hefði ,,haft forustu fyrir``. Skyldi það vera einhver misskilningur hjá mér að hæstv. samgrh. hafi forustu fyrir samgöngumálum á vegum ríkisstjórnarinnar og því sem gert er af hálfu ríkisstjórnarinnar til þess að koma verkum áfram í þeim málaflokki? Og ef ríkisstjórnin beitir sér fyrir því að fé sé skert í þeim málaflokki, hefur þá ekki hæstv. samgrh. forustu fyrir því? Eða er það einhver annar sem hann lætur þá í minni pokann fyrir?
    Ég held að það sé auðvitað vel skiljanlegt að hæstv. samgrh. kveinki sér undan því að upplýst sé að hann hafi forustu í þessum málaflokki eins og meðferðin er á honum í fjármálum ríkisins. Og þegar hann talar síðan um að fara að flýta stórframkvæmdum í vegagerð á sama tíma sem við bíðum eftir því hér á Alþingi að hann leggi fram vegáætlun þar sem þarf að skera niður það sem búið er að ákveða að framkvæma um 675 millj. kr., þá held ég mig enn við orðið, hv. þm. Þorvaldur Garðar, þá kalla ég það draumsýn eða bara blekkingaleik. Þannig liggur þetta mál fyrir í mínum augum. Á kannski að taka stórframkvæmdir og jarðgangagerð út úr vegamálum og skilja allt hitt eftir, skera alveg niður hina almennu vegagerð? Er það kannski meiningin hjá hæstv. ráðherra?
    Ég skal ekki, hæstv. forseti, af því að ég var búinn að tala tvisvar, misnota ræðutíma minn. Það er auðvitað margt hægt að segja, en ég skil það að hæstv. samgrh. kveinki sér undan því að ég skuli taka svo til orða að hann hafi forustu í þessum málaflokki og beiti sér fyrir því sem þar er gert.