Flugmálaáætlun 1990--1993
Mánudaginn 22. janúar 1990


     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Ég bið hv. þingheim afsökunar á þessari bið en ég býst við að menn skilji að mál það sem nú þarf að leysa þarf að leysast í samráði við hv. 2. þm. Norðurl. e. Hann er hér í húsinu og ég mælist til þess að hann komi til starfa.
    Það hafa komið nýjar fréttir af hv. 2. þm. Norðurl. e. Hann mun ekki hafa meiri áhuga á málinu en svo að hann er farinn úr húsinu. Forseti mun því standa við það sem hann hafði áður gert, að ljúka umræðu um annað dagskrármálið. Ella hefði forseti borið það undir hv. þingheim, vegna mistaka sem forsetinn óneitanlega gerði sem var að ljúka umræðunni, þrátt fyrir beiðni hv. 2. þm. Norðurl. e., hvort opna mætti umræðu að nýju þegar hæstv. forsrh. var kominn. Nú er hann kominn og hæstv. utanrrh. er á leiðinni að beiðni þessa hv. þm. en nú er mér sagt, og enda kemur það fram hér á skjá, að hann sé farinn úr húsinu.
    Þá vil ég minna á, vegna þeirrar gagnrýni sem fram kom á hæstv. ráðherra sem fara ekki með þennan málaflokk þó að hæstv. samgrh. væri hér, að á dagskrá er hér fljótlega í þinginu till. til þál. um forkönnun Mannvirkjasjóðs Atlantshafsbandalagsins á alþjóðlegum varaflugvelli. 1. flm. er hv. 17. þm. Reykv. og 2. flm. er hv. 2. þm. Norðurl. e.
    Í trausti þess, hv. þm., að hv. 2. þm. Norðurl. e. fái tækifæri til að ræða það mál sem hann bryddaði upp á leyfir forseti sér að láta nú fara fram atkvæðagreiðslu um frekari meðferð annars dagskrármálsins og biður þá hv. þm.
sem samþykkja vilja að vísa flugmálaáætlun 1990--1993 til 2. umr. að greiða nú atkvæði.