Húsnæðismál lögreglunnar í Stykkishólmi
Mánudaginn 22. janúar 1990


     Alexander Stefánsson:
    Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð. Það er sjálfsagt að ræða svona mál hér á Alþingi, en það hefði kannski verið öllu eðlilegra að gera það við fjárlagaafgreiðsluna sjálfa. Ég vil hins vegar segja það í sambandi við þetta undarlega mál, ef ég má orða það svo, að það skuli hafa viðgengist í áratugi að í þetta stórum stað, Stykkishólmi, þar sem sýslumaðurinn hefur aðsetur skuli hafa verið notað sem lögreglustöð húsnæði sem er varla boðlegt fólki og hefur kannski verið hugsað einhvern tíma sem húsnæði fyrir eitthvað allt annað en að geyma fólk, og allra síst sem lögreglustöð. Staðreyndin er sú að þessi stöð er öllum til skammar, bæði heimabyggð og eins yfirvöldum dómsmála á undanförnum áraröðum. En því miður hefur aldrei verið lögð fram formlega tillaga til lausnar á þessu máli og í fjárlagafrv. fyrir árið 1987, 1988 og fyrir árið 1989 var ekki stafkrókur um lögreglustöð í Stykkishólmi að því er þetta varðar. Það er ekki fyrr en núna eftir 7. des. sl. sem kemur formlegt erindi frá hæstv. dóms- og kirkjumálaráðuneyti um að bæta hér um betur, ásamt 11 öðrum málum.
    Það var ljóst að til þess að leysa þetta mál strax þyrfti allt annað en nýja byggingu á þessu stigi málsins. Það tekur, eins og hv. þm. vita, mörg ár að byggja svona hús þegar á að byggja það sem aðalaðsetur fyrir fógetaembættið eða sýslumannsembættið ásamt lögreglustöð. Þess vegna var ekkert um annað að ræða en að afgreiða þetta mál í sambandi við fjárlög 1990 þannig að gefin yrði út yfirlýsing til hæstv. ráðherra um það að fjvn. lýsti vilja sínum að reyna að leysa þetta mál strax með því að finna viðunandi leiguhúsnæði. Það var vitað að bæjarstjórinn hafði þegar bent á kjallara undir bæjarskrifstofunum en það húsnæði var ófullnægjandi. Það liggur fyrir að það er vilji fyrir því í fjvn. að reyna að leysa þetta mál þannig að þessi leiðinlegi blettur á þessari fallegu byggð og þessu málefni öllu verði afnuminn með nýju úrræðum. Og ég þori að fullyrða það fyrir hönd nefndarinnar að það muni ekki standa á því að nefndin muni standa með hæstv. ráðherra eða ráðuneytinu að því að reyna að leysa þetta mál á viðunandi hátt við fjárlagaundirbúning fyrir árið 1991 ef það er vilji dómsmrh. að undirbúa og hefja byggingu nýrrar lögreglustöðvar ásamt aðstöðu fyrir sýslumann og bæjarfógeta í Stykkishólmi --- það er eðlilegasta lausnin.