Húsnæðismál lögreglunnar í Stykkishólmi
Mánudaginn 22. janúar 1990


     Eiður Guðnason:
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Hér hafa talað tveir hv. þm. Vesturl. sem báðir eiga sæti í fjvn. Ég sé ekki ástæðu til að víkja sérstaklega að því sem þeir sögðu. Að vísu kom fram í máli hv. 1. þm. Vesturl. að formlegt erindi barst fjvn. fyrst 7. des. og það vekur auðvitað ýmsar spurningar vegna þess að þá er orðið svo áliðið og fjárlagavinnan komin svo langt að það hlýtur að vera mjög erfitt að taka upp mál af þessu tagi. Og svo leiði ég hjá mér þau ummæli sem hv. þm. Friðjón Þórðarson viðhafði hér áðan um einhvern sérstaklega nývakinn áhuga á þessum málum hjá þeim sem þetta mælir. Ég skil satt að segja ekki þau ummæli og finnst þau vera út í hött, en hann verður auðvitað að fá að tala eins og honum líkar.
    Ég held að hæstv. dómsmrh. hafi komist alveg rétt að orði þegar hann sagði annars vegar að núverandi bygging væri ónýt og hins vegar að neyðarástand ríkti í þessum málum. Þetta er hvort tveggja rétt. Ég er hins vegar ósammála því að ekki sé hægt að leysa þetta mál á skemmri tíma en 2--3 árum. Ég held að hægt sé að leysa þetta mál á miklu skemmri tíma og ég held jafnvel að það hafi verið gert sums staðar þar sem byggðar hafi verið lögreglustöðvar t.d. úr forsteyptum einingum og tekist bara vel.
    Hæstv. ráðherra vék að því að verið væri að vinna að sérstakri lausn. Mér er alveg kunnugt um það því að ráðuneytið hefur skrifað bréf þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Eins og staða málsins er nú`` --- þetta er frá 12. jan. sl. --- ,,leggur ráðuneytið til að tekið verði á leigu húsnæði af Stykkishólmsbæ fyrir skrifstofur lögreglunnar í kjallara þess húss sem nú eru skrifstofur bæjarins. Ekki er þar aðstaða fyrir fangaklefa. Til þess að leysa þá þörf er lagt til að fangaklefar í Grundarfirði verði notaðir en jafnframt leitað heimildar til að fá að nýta núverandi klefa í algerum neyðartilvikum.``
    Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir að það húsnæði sem þarna er talað um --- má nú vera að eitthvert annað húsnæði sé til athugunar --- uppfylli engar þær kröfur sem gerðar eru til skrifstofuhúsnæðis af þessu tagi. Ég hygg að það muni koma í ljós og skil satt að segja ekki hvers vegna hefur ekki t.d. verið farin sú leið, eins og ég veit að sums staðar hefur verið gert --- þó að það sé neyðarbrauð þá er það betri kostur en það ástand sem varað hefur --- að taka á leigu eða kaupa íbúðarhúsnæði og breyta því um stundarsakir í húsnæði fyrir lögreglustöð. Ég hygg t.d. að það hafi verið gert á sínum tíma á Selfossi og er auðvitað bráðabirgðaráðstöfun en bjargar engu að síður því ástandi sem hér er.
    Ég þakka ráðherra fyrir svörin og vonast eindregið til þess að hér verði gripið til viðeigandi aðgerða hið fyrsta.