Þórhildur Þorleifsdóttir:
    Virðulegur forseti. Það fyrsta sem verður til að taka varðandi þá umræðu sem hér er efnt til er hverju hún á að þjóna. Er hún hugsuð sem fjölmiðlasveifla eða er það hagur SÍS og starfsfólks þess sem málshefjandi hefur í huga eða hugsanlega hagur ríkissjóðs? Svari hver fyrir sig.
    Það er alþekkt fyrirbrigði í íslensku atvinnulífi að leita á náðir ríkisvaldsins þegar eitthvað bjátar á. Þess á milli eru jafnan háværari þær raddir sem tala um að heilbrigt atvinnulíf og heilbrigð samkeppni án ríkisafskipta sé hið eina rétta og eftirsóknarverða. Of mörg dæmi eru um að menn hlaupi til af því sem gjarnan er orðað við stórhug eða framkvæmdaáhuga, þ.e. að athafnamenn geysist fram í nafni almenningsheilla eða í þágu byggðarlagsins og sjáist ekki alltaf fyrir en séu fljótir að breyta um stef ef illa árar og samkeppnin að sliga þá.
    Þegar um er að ræða beiðni um aðstoð ríkisvalds við fyrirtæki eða atvinnuvegi verður auðvitað að meta í hvert skipti þegar slíkt kemur upp, hver staða þeirra er frá þjóðhagslegu sjónarmiði. Fjárhagsörðugleikar Sambandsins eru auðvitað af sama toga spunnir og annarra fyrirtækja í landinu sem mörg hver standa nú höllum fæti, sum ramba jafnvel á barmi gjaldþrots, önnur hafa þegar farið yfir.
    Aðstæður innan lands fyrir útflutningsatvinnuvegi hafa verið erfiðar undanfarin ár vegna rangrar gengisskráningar, verðbólgu og okurvaxta. Því má með réttu kalla ríkisvaldið til ábyrgðar að vissu leyti, ekki síst ef í hlut á fyrirtæki með jafnbreiðan starfsvettvang og Sambandið er. Rætur þess liggja til flestra atvinnugreina í landinu og um öll byggðarlög landsins. Því væri mikill ábyrgðarhluti að sitja aðgerðarlaus hjá ef almennur rekstur SÍS er þannig á vegi staddur að í voða stefnir. Það hefði alvarlegar afleiðingar fyrir þjóðfélagið allt ef það væri látið sigla sinn sjó.
    Ekki liggja fyrir haldbærar upplýsingar um raunverulega stöðu Sambandsins og
því erfitt að ræða þessi mál til hlítar en hitt er ljóst að ef úr verður að ríkisstjórnin gangist fyrir því að aðstoða Sambandið með skuldbreytingum í langtímalán í stað óhagstæðra skammtímalána ber henni, þ.e. ríkisstjórninni, að tryggja hag ríkissjóðs og skattborgara landsins með tryggu veði, t.d. í fyrirtækjum Sambandsins sem sum hver eru sem betur fer arðbær. Það væru vinnubrögð sem sýndu að staðið væri að af ábyrgð og væri ekki hægt að kenna við óeðlilega fyrirgreiðslu.
    Hvað varðar fyrirhuguð kaup Landsbankans á Samvinnubankanum viljum við taka fram að Kvennalistinn hefur verið hlynntur samruna banka og fækkun þeirra og því sjáum við ekki ástæðu til að gera athugasemd við kaup Landsbankans á Samvinnubankanum, svo framarlega sem það eru góð kaup og verður að treysta því að þannig verði að málum staðið að svo verði og að upphlaup og æsingar ráði ekki ferð.

    Þá eru það fyrirhuguð kaup ríkisins á hluta Sambandsins í Íslenskum aðalverktökum, þ.e. fyrirtækinu Reginn. Talað hefur verið um að verð þess fyrirtækis sé 1 milljarður eða um það bil. Hallar nú strax á fjárlög. Ekki var gert ráð fyrir þessari upphæð í nýsamþykktum fjárlögum og fróðlegt verður að fylgjast með hvaða töfrabrögðum verður beitt til að galdra þær krónur fram. Burt séð frá því verð ég að viðurkenna að mér er sérdeilis illa við að þurfa yfirleitt að vita af þessu fyrirtæki, hvað þá heldur að taka afstöðu til þess hvort það á að vera í eigu SÍS eða ríkisins. Þær tekjur sem þetta fyrirtæki gefur af sér eru blóðpeningar og ætti ekki að eitra íslenskt efnahagslíf með svo illa fengnum krónum.
    Við kvennalistakonur erum algjörlega andvígar veru ameríska hersins hér í landi og viljum hann brott sem fyrst ásamt allri þeirri starfsemi sem honum fylgir og viljum síst af öllu að vera hans hér sé þjóðarbúinu tekjulind. Þetta er eins og hver önnur óværa á þjóðarlíkamanum sem hollast væri að losa sig við og það að taka afstöðu til eignarhalds fyrirtækja sem tengjast þessari óværu er líkt og að velja lúsinni stað á líkama sínum.