Jóhannes Geir Sigurgeirsson:
    Hæstv. forseti. Það voru ummæli hv. 14. þm. Reykv. sem urðu þess valdandi að ég stend hér upp. Ég vil lýsa undrun minni á því viðhorfi sem þar kom fram (Gripið fram í.) jú, jú, ég kem að því --- að gera kröfu til þess að settur sé upp samstæður reikningur SÍS og kaupfélaganna í landinu. Þetta eru allt saman sjálfstæðir rekstraraðilar og koma hvergi nærri þeim reglum sem gilda um samstöðureikning. Hins vegar tek ég mjög undir með honum að það er æskilegt að við þingmenn fáum lengri tíma til þess að ræða rekstur samvinnufélaganna. Um það vil ég segja að við þurfum nýja hugmyndafræði inn í okkar atvinnurekstur en ég kem ekki meira að því hér.
    Mér dettur ekki í hug að neinar annarlegar hvatir hafi legið að baki fyrirspurnar hv. 1. þm. Reykv. í þessu máli. Ég velti því að vísu fyrir mér svolítinn tíma hvað lægi að baki en ég hlýt að komast að því og draga þá einföldu ályktun að að baki þessu liggi áhyggjur hv. 1. þm. Reykv. vegna bágrar stöðu eins öflugasta fyrirtækis í hans kjördæmi sem hefur veitt hundruðum manna atvinnu um áratuga skeið. Ég vona að við fáum miklu lengri tíma einhvern tímann á næstunni til þess að ræða þetta mál við áhugamenn um samvinnurekstur og hv. fyrirspyrjandi er áhugamaður um rekstur öflugra fyrirtækja í Reykjavík.