Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Það er satt að segja tekið eftir því að þegar hv. 1. þm. Suðurl. tekur til máls eða tekur upp penna er yfirleitt um útúrsnúninga og órökstuddar fullyrðingar að ræða. Ég fékk í hendurnar átta spurningar frá hv. fyrirspyrjanda og ég tel mig hafa svarað þeim öllum skilmerkilega og mörgum bara með já og nei án þess að nokkuð færi þar á milli mála.
    Hins vegar vitnaði hv. þm. í það sem eftir mér var haft í Morgunblaðinu. Eins og þar kemur fram er það svar við spurningu og ég er algerlega sammála því sem hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson lýsti hér áðan og kemur fram í mínu svari. Ef svo færi að skuldir Sambandsins erlendis yrðu gjaldfelldar held ég að það færi ekkert á milli mála, það sér hver maður, að það hefði mjög mikil áhrif á viðskiptastöðu og traust það sem við Íslendingar njótum erlendis. Þetta er vitanlega ekkert annað en sannleikur og hann hlýtur að verða að koma í ljós.
    Ég verð hins vegar að vísa í ársreikninginn til nánari upplýsinga um eignir og skuldir SÍS. Ég er ekki með hann hér fyrir framan mig. Ég gæti lesið upp úr honum ef ég hefði hann að sjálfsögðu. Hann er opinbert plagg. Ég hef spurt þá aðila sem þekkja og þeir fullyrða að reksturinn hafi batnað mikið á árinu. Með þeirri losun eigna sem stefnt er að muni ekki vera hætta á því að illa fari og því veit ég að hv. þm. og eflaust hv. fyrirspyrjandi fagnar.
    Ég get ekki rætt hér í neinum smáatriðum um eignir Sambandsins. Ég er ekki nógu kunnugur því efni. Ég byggi mitt á gögnum sem eru opinber og hver hefur aðgang að.
    Ég sé ekki ástæðu til að lengja þetta. Ég sé að hv. 1. þm. Suðurl. er ekki í salnum og læt þessu lokið fyrir mitt leyti.