Skattskylda orkufyrirtækja
Þriðjudaginn 23. janúar 1990


     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Það er oftar en ekki þegar hæstv. fjmrh. tekur til máls og talar um skattamál eða ríkisfjármál að það gætir þeirrar óskaplegu þreytu sem á hann sækir vegna þess samanburðar sem er á stjórn fjármála Reykjavíkurborgar og stjórn fjármála ríkisins. Það kemur varla fyrir að hæstv. fjmrh. standi upp hér á Alþingi án þess að hann taki á sig sérstakan krók til þess að vera með ólund, svona útúrsnúninga, og amast út í Reykjavíkurborg og borgarstjórann. Það er að vísu svo að Reykvíkingar höfnuðu þessum hæstv. ráðherra þegar hann ætlaði að bjóða sig fram í Reykjavík, og hann ætlar seint yfir það að komast og varð að sætta sig við það síðast að verða annar maður Alþb. í Reykjaneskjördæmi og féll að sjálfsögðu í því kjördæmi. En síðan Reykvíkingar höfnuðu honum hefur hann notað hvert tækifæri sem hann hefur getað til þess að amast við Reykjavíkurborg og Reykvíkingum. Þetta hefur komið fram með margvíslegum hætti hjá þeirri ríkisstjórn sem nú situr, að hún er mjög andvíg höfuðborginni, hefur mikinn komplex vegna höfuðborgarinnar og ríkisstjórnin telur, sem rétt er, að Reykjavíkurborg sé sterkasta vígi borgarastéttarinnar --- ég vil orða það svo --- frjálshugsandi manna, andstæðu þess sem við sjáum að hefur verið að tapa völdunum hér austan járntjaldsins, gistivina hæstv. fjmrh., Ceausescus og annarra slíkra manna.
    Ég skal ekki, herra forseti, fara lengra út í þá sálma en vek aðeins athygli á þeim sérstaka kafla sem fjallaði um borgarstjórann í Reykjavík og Reykjavíkurborg í ræðu fjmrh., þennan kafla sem lýsir andlegum þrautum hans þegar hann virðir fyrir sér það gat sem nú er á ríkissjóði og þeim andlegu þrautum sem hæstv. ráðherra á í þegar hann kemur hér upp í ræðustólinn og er að reyna að sannfæra þingheim eða Íslendinga --- eða einhverja, ég veit ekki hverja --- um það að sambærileg fyrirtæki séu bankar og orkustofnanir. Nú er það að vísu svo að þessi ríkisstjórn sem nú situr hefur látið einkabankana í
landinu fá einn ríkisbankann með mjög hagstæðum kjörum, satt að segja. Þó hygg ég að ríkisstjórnin hafi gengið þannig frá þeim kaupum að ekki hafi verið um neinn söluskattsskyldan hagnað að ræða hjá þeim bönkum sem keyptu Útvegsbankann. Þannig var frá þeim málum gengið, enda hygg ég að eftir því sé tekið að í þeim banka þar sem flokksbróðir fjmrh. er formaður bankaráðs, í Íslandsbanka, eru vextir hærri en annars staðar, sem endurspeglar auðvitað þau áhrif sem fjármálastjórn flokksbróður hans, fjármálaráðherrans, hefur haft á vaxtaþróun í landinu sem veldur því að raunvextir eru hér hærri en ella mundi.
    Ég veit ekki hvort maður á að taka alvarlega samanburð fjmrh. þegar hann talar um að bankar reki sams konar starfsemi og orkuver, þegar hann talar um að það sé svona rétt svipað að setja á stofn eitt stykki Alþýðubanka og eitt stykki hitaveitu, þegar hann talar um að t.d. arðsemiskröfur til fjárfestingar séu hinar

sömu í bönkum og orkuveitufyrirtækjum. Ef hann er að gefa það í skyn að afskriftartími véla og tækja í bankastarfi sé hinn sami og hjá orkuveitum upplýsir ráðherrann eingöngu að hann er mjög fákunnandi á þessu sviði. Ef hann ætlar að bera saman línulagnir hjá rafveitum eða ef hann ætlar að tala um hitalagnir hitaveitna og heldur því fram að það sé eins og t.d. símalínur milli bankaútibúa er það auðvitað líka mikill misskilningur. Auðvitað veit ráðherrann að þetta er ekki sambærilegt. Á hinn bóginn er hann að reyna að gera mál úr því að með því að skattleggja orkufyrirtæki sé hann að leita aukins samræmis í skattlagningu og hann er að reyna að fegra málstað sinn gagnvart sínum stuðningsmönnum með því að reyna að varpa þeim skugga á rafveiturnar í landinu að þær séu einhvers konar okurstofnanir eins og bankar og sparisjóðir eru löngum kallaðir í Þjóðviljanum. Hins vegar væri kannski rétt að rifja það upp að það er ekki öldungis rétt að búið sé að skattleggja allar peningastofnanir. Það er alls ekki rétt, og það veit hæstv. ráðherra vel. Ég veit að vísu að það þýðir ekki að spyrja hann þegar hann mætir hér í þingsal, herra forseti, því þessi ráðherra svarar hvorki fyrirspurnum sem lagðar eru fyrir hann með þinglegum hætti þannig að rétt sé svarið, né heldur svarar hann ef maður reynir að upplýsa mál hér í deildinni. Þess vegna veit ég að það þýðir ekki að spyrja hæstv. ráðherra þeirrar spurningar hvort beri að skilja orð hans þannig að hann hyggist síðar á þinginu leggja fram frv. um að skattleggja lífeyrissjóði eins og lagt var til í nefnd sem starfaði innan dyra hjá fjmrn., og hefur ekki annað heyrst út fyrir ráðuneytið en hæstv. ráðherra hafi verið inni á þessum hugmyndum og hafi talið sjálfsagt að leggja tekjuskatta á lífeyrissjóðina eftir sömu reglum og þeir eru lagðir á banka og sparisjóði. Nóg um það.
    Ég vil nú fyrst í sambandi við efni þessa frv. taka eftirfarandi fram, herra forseti:
    Ef maður horfir á frv. í heild er það þannig frágengið og þannig uppbyggt að mjög hæpið er að taka það alvarlega. Ég vil t.d. benda á þær reglur sem settar eru fram varðandi verðbreytingafærslu og minna á þá ónákvæmni sem fylgir slíkri skattlagningu og margfaldast auðvitað þegar við erum að tala um fyrirtæki eins og orkuveitufyrirtæki. Sú ónákvæmni, sem þessi aðferð hefur í
för með sér frá ári til árs gagnvart fyrirtækjum eins og orkuveitufyrirtækjum, veldur því, ef við horfum til Landsvirkjunar, að miðað við gildistöku laganna, eins og frá þeim er gengið í frv., verður að reikna með að tekjuskattur á Landsvirkjun muni nema verulega á annan milljarð króna en ef hins vegar er litið á það hvernig verðbreytingafærslur komu út gagnvart Landsvirkjun samkvæmt sömu reglum á árinu 1989 hefði ekki orðið um neinar tekjuskattsgreiðslur að ræða. Þetta sýnir okkur auðvitað að viðmiðun frv. eins og frá því er gengið er engin tilviljun. Eingöngu er þannig frá henni gengið til þess að reyna að ná fjármunum með réttu eða röngu frá Landsvirkjun.
    Ég er hér að tala um tæknileg atriði, herra forseti,

sem væri ástæða til að víkja verulega að nú í fyrri hluta ræðu minnar en mun víkja að síðar þegar efni standa til þess.
    Þetta atriði, í fyrsta lagi, sérstaða orkufyrirtækjanna sem kemur til vegna hins langa fyrningartíma, veldur því, ef á annað borð á að fara út í það að skattleggja slík fyrirtæki, að nauðsynlegt er að setja sérstakar reglur um fyrningarhlutföll fyrir orkufyrirtækin. Ég mun víkja að þessu nánar síðar.
    Í öðru lagi vil ég benda á það, herra forseti, að samkvæmt lögum um Landsvirkjun er það algjörlega ljóst að skattlagning eins og gert er ráð fyrir í frv. mundi útiloka frekari orkusamninga við stóriðju hér á landi. Það er skýrt tekið fram í lögunum um Landsvirkjun að ekki er heimilt að hlífa slíkum orkufyrirtækjum í sambandi við orkusölusamninga. Það er ekki hægt að sniðganga lögin með þeim hætti að láta þessa nýju skattheimtu lenda alla á almenningi heldur hlýtur skattheimtan að leggjast jafnt á almenning sem orkufyrirtækin. Og þetta veldur því að um frekari stóriðju getur ekki orðið að ræða á meðan lög af því tagi eru í gildi sem hér er verið að boða.
    Það er auðvitað alveg ljóst að skattlagning á Landsvirkjun sem nemur á annan milljarð króna á einu ári verður ekki uppi borin að óbreyttri gjaldskrá. Auðvitað þýðir þetta almenna hækkun á raforkuverði í landinu hjá Landsvirkjun. Það er auðvitað hægt að hugsa sér það um tíma, eins og gert var þegar vinstri stjórn Ólafs Jóhannessonar var hér einu sinni við völd, að láta Landsvirkjun slá ný og ný lán, fresta nauðsynlegum hækkunum og með því móti sprengja verðlagið upp síðar meir, sem kom í hlut okkar sjálfstæðismanna að laga, m.a., meðan Sverrir Hermannsson var iðnrh. á árunum 1983--1985. Þá urðum við að greiða hærra raforkuverð en ella vegna þess að orkufyrirtækin höfðu verið látin safna rekstrarskuldum. Upphæðir af þessu tagi verða hins vegar ekki inntar af hendi nema þær komi einhvers staðar við. Fyrst þegar hæstv. fjmrh. settist í stólinn, herra forseti, talaði hann mjög mikið um það í fjölmiðlum, sérstaklega í sjónvarpinu svona fyrstu vikuna, að það væri auðvelt að auka ríkisútgjöldin án þess að hækka skattana. Þá talaði hann og talaði um hvað hann ætlaði að gera mikið fyrir allt og alla. Og þá talaði hann líka um það að hann yrði fljótur að rétta af hallann á ríkissjóði. Fram eftir því hausti var hann með munninn mjög opinn í þessa veru, talaði mjög hátt, hratt og lengi, skammaðist út í allt og alla, innan þings og utan. Nú er hann orðinn hógværari. Eins og ég sagði áðan: Nú lýsir ólund hans sér aðallega í því að hann amast við borgarstjóranum af og til og Reykjavík sem hafnaði honum. Og hann hefur enga stjórn á sínum peningamálum. En svo kemur hann hingað upp í stólinn og segir: Við látum Landsvirkjun borga svona 1,5 milljarða og Landsvirkjun þarf ekkert að hækka raforkuverðið. Það kemur ekkert raforkuverðinu við. Og við þurfum heldur ekki að óttast það að Alþjóðabankinn sé með neitt múður --- jafnvel þótt Landsvirkjun sé búin að ganga frá sérstökum samningum við Alþjóðabankann

og jafnvel þótt sérfræðingar hafi lýst því yfir og haldið því fram að þessi skattlagning kunni að valda því að Alþjóðabankinn segi upp þeim lánum sem Landsvirkjun hefur á hendi, þá sér náttúrlega hinn snjalli fjmrh. ekki að þetta geti verið eitthvert vandamál. 1,5 milljarðar fyrir Landsvirkjun, hvað er það? Það er auðvitað ekki nokkur skapaður hlutur. Bara taka það upp úr rassvasanum eins og fjmrh. tekur upp úr rassvasanum nýja skatta sem enginn á að borga en þó leggjast á þjóðina.
    Hvernig fyrirtæki skyldi nú Landsvirkjun vera? Skyldi Landsvirkjun vera einkafyrirtæki ríkisvaldsins? Nei. Landsvirkjun er sameignarfyrirtæki ríkisvaldsins, Reykjavíkurborgar og Akureyrar og nú ætlar einn af þessum þrem eignaraðilum, ríkisvaldið, að koma til og skattleggja fyrirtækið til þess að hrifsa til sín þann afrakstur sem hefur runnið til Reykjavíkurborgar og Akureyrar því að ef marka má lýsingar hæstv. fjmrh. stendur ekki til að hækka útsöluverð á raforkunni. Þá hlýtur það auðvitað að þýða það, að hugsun ráðherrans, að þessir aðilar eigi ekki að fá eina einustu krónu. Eða hvaðan ætlar hann að taka þessa peninga sem hann segir að eigi að fara í ríkissjóð? Og það má auðvitað velta fyrir sér: Ef Alþingi ætlar að beita ofríki af þessu tagi, ef Alþingi ætlar að neyta hnefaréttarins og hrifsa til sín fjármagn frá Reykjavíkurborg og Akureyri með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í þessu frv. hlýtur að vakna upp spurningin um það hvaða eftirköst slík framkoma mundi hafa gagnvart þessum tveim aðilum.
    Ég man ekki hvort það er rétt munað hjá mér að sú skattlagning sem
ráðherrann ætlar að hrifsa til sín nú frá orkufyrirtækjunum, sem ekki verður undir tveim milljörðum --- mig minnir að þetta sé svipuð fjárhæð og ráðherrann sem einu sinni átti sæti í stjórn Sambands ísl. samvinnufélaga ætlar að greiða þeim samtökum fyrir eignarhlut þeirra í Aðalverktökum og Regin hf. og þykist ekki þurfa að fara með fyrir Alþingi, svona svipuð fjárhæð eins og þar er verið að nefna, hygla vinum sínum. Það er eitt af einkennum þeirrar ríkisstjórnar sem situr að heimta nýja og hærri skatta af Pétri og Páli. Nú á að hækka raforkuverðið og gefa svo þeim leikbræðrum sínum úti um land, ýmist með sérstökum lögum eða í gegnum þá sjóði sem þessi ríkisstjórn hefur verið að setja á laggirnar.
    En hvaða fyrirtæki skyldu það vera önnur sem hæstv. ráðherra langar að koma höggi á? Það er Hitaveita Reykjavíkur. Það kom glöggt fram í ræðu ráðherrans áðan þegar hann var að amast út í Reykvíkinga sem höfnuðu honum, sem ekki vildu hafa hann sem þingmann, að hann er að hugsa um að skattleggja Hitaveitu Reykjavíkur. Og maðurinn sem hrökklaðist frá Reykjavík til Reykjaness og komst heldur ekki að þar er að hugsa um að skattleggja þá líka í Hitaveitu Suðurnesja. Þessi nýi skattur mun bitna sérstaklega þungt á Hitaveitu Suðurnesja. Hitaveitan á Ólafsfirði, fjárhagur hennar er of góður að mati hæstv. fjmrh. Hann þarf að ná sér niðri á Dalvíkingum líka, Húsvíkingum. Það er ekki gott að

þeir eigi einhverja peninga aflögu á Húsavík, Dalvík eða Ólafsfirði. Hitaveiturnar sem eru að byggja sig upp og reyna að losa sig úr erfiðleikum eins og Hitaveitan á Akureyri og Hitaveitan á Akranesi munu líka verða fyrir þungum búsifjum af þessum sökum. Þetta mun skerða möguleika þessara hitaveitna til þess að ná góðum tökum á sínum fjármunum.
    Þessi ráðherra stóð hér í ræðustólnum fyrir jólin. Þá var hann að mæla fyrir frv. sem hann hafði flutt um aðstöðugjaldið og þá var hann að tala um það hér frá einum tíma til annars, hversu miklir fjármunir það væru sem hann ætlaði að draga til sín frá sveitarfélögunum og hversu mikla fjármuni hann ætlaði að draga í ríkissjóð með skattkerfisbreytingunni. Á milli umræðna varð hann að sætta sig við það að hann hafði sagt ósatt um litla tvo milljarða. Núna lét hann sér nægja að segja: Þessi nýi tekjuskattur mun þýða í það minnsta 250 millj. kr. nýja skattheimtu. Það fór ekki nærri því. Hann veit sem er að við í fjh.- og viðskn. förum yfir hans reikninga þannig að hann vildi nú ekki nefna lægri tölu, en gera má ráð fyrir því eins og málin liggja fyrir að það verði nær lagi að skatturinn verði tíföld þessi upphæð nema orkufyrirtækin beiti sérstökum ákvæðum skattalaga til flýtifyrningar sem þá gæti m.a. valdið því að t.d. Blönduvirkjun yrði að fullu afskrifuð áður en hún yrði tekin í notkun.
    Í blöðum í dag er greinargerð frá Alþýðusambandi Íslands, frá launþegum þar sem þeir eru að tala um núll-lausnina, þar sem þeir eru að tala um nauðsyn þess að reyna að ná verðbólgunni niður. Og launþegar vilja leggja töluvert á sig til þess að það takist. Þrátt fyrir þá ríkisstjórn sem nú er í landinu hefur tekist mikill trúnaður milli vinnuveitenda og Alþýðusambandsins og það er margt sem bendir til þess að samningarnir takist þrátt fyrir ríkisstjórnina. En hvað er nú það sem ríkisstjórnin leggur á borðið með sér? Með lögum var tekjuskattur hækkaður um 4% um þessi áramót, 4%. Fyrir rúmu ári réttlætti hæstv. fjmrh. sig með því að 2% hækkun á tekjuskatti einstaklinga yrði tímabundin bara í eitt ár og sú hækkun féll úr gildi hinn 31. des. sl. Nú lét hæstv. fjmrh. ekki við það sitja að framlengja tekjuskattinn heldur hækkaði hann hann um 2% til viðbótar, upp í tæp 40%.
    Sérstakur ráðherra umhverfismála --- ég hefði kannski átt að segja hæstv. ráðherra umhverfismála --- kvartaði yfir því í Morgunblaðinu í dag að fjmrh. hafi hækkað eitt og annað mikið og reynir að setja í sig kjark og reynir að setja sig í stellingar til þess að lýsa andstöðu sinni við skattastefnu ráðherrans og borgarfulltrúi krata kom í sjónvarpið þar sem hann var að hneykslast á skattheimtu Reykjavíkurborgar en er hins vegar mikill stuðningsmaður þessarar ríkisstjórnar. Á sama tíma og þessir samningar hafa tekist milli vinnuveitenda og Alþýðusambandsins, launafólks í landinu, kemur ráðherrann hingað inn í Ed. og talar um það að setja háskatta á allar orkuveitur í landinu, hækka rafmagn til heimilishalds, hækka hitunarkostnað verulega, til þess að ná nýjum tekjum í ríkissjóð, til

þess að hækka verðlagið, til þess að skerða lífskjörin í landinu. Þetta er það sama og að slá lægst launaða fólkið í landinu utan undir með blautum sjóvettling. Þetta er það sama og að hrækja framan í þetta fólk sem hefur lægstu launin, stynur undan skattaálögum þessarar ríkisstjórnar og á nú að sætta sig við það að ráðherrann fari enn einu sinni ofan í vasann til þeirra og munar ekki um það.
    Það er ekki undarlegt þótt ýmsir verkalýðsleiðtogar í Alþb. séu orðnir leiðir á þessum manni sem formanni Alþb. Og það er ekki undarlegt þótt hann langi til að hlaupa í skjól kratanna sem nú eru orðnir mestu skattpíningarmenn hér á landi þó svo að borið sé saman við fjmrh. Nú langar hann í skjólið til þeirra, vill helst bjóða fram með Alþfl. hér í Reykjavík og annars staðar og finnur að jafnvel þeir gömlu kommar þykjast ekkert meir hafa við hann að gera. (Gripið fram í.) Hér kemur verkalýðsleiðtoginn inn, herra forseti. Ætli það
standi á honum að greiða atkvæði með því að hækka raforkuverð í landinu? Hann var einn þeirra manna sem stóðu að því með ríkisstjórninni og Alþfl. að samþykkja framlagningu þessa frv. um skattlagningu á orkufyrirtæki og er ásamt varaformanni Verkamannasambandsins, krata sem einnig á sæti í þessari deild, hv. þm., samtaka ríkisstjórninni í því að ögra launafólki hér með því að efna til þeirra hækkana á orkuverði sem þetta frv. hefur í för með sér. Hefði ég þó haldið að verkalýðsleiðtoginn að vestan skildi það að húshitunarkostnaðurinn þar er mjög þungbær mörgu fólki, ekki síst þegar miklir kuldar geisa og ekki síst í þeim húsum sem eru gömul og illa einangruð, þannig að ég er mjög undrandi á því ... ( KP: ... matarskattinn.) Hv. þm. greiddi atkvæði með matarskattinum núna. ( KP: Nei.) Jú. ( KP: Það er rangt.) Hann gerði það. Meira að segja tók hv. þm. það fram í vantrauststillögu þegar búið var að ákveða matarskattinn alveg sérstaklega að þetta væri sú ríkisstjórn sem hann vildi, um að gera að halda þessari ríkisstjórn. Það hefur enginn orðið var við það að hv. þm. hafi þegar á hefur reynt brugðist ríkisstjórninni og með sama hætti og hv. þm. stóð að matarskattinum mun hann standa að því að hækka orkuverðið, rafmagnið, hitareikningana. ( KP: Á Reykjavíkursvæðinu.) Um allt land. (Gripið fram í.) Það hækkar hjá Landsvirkjun ( KP: Og Reykjavík.) og Orkubúi Vestfjarða. Ég hélt að hv. þm. hefði stundum fengið sýnishorn af hitareikningunum í pósti eins og við aðrir þingmenn strjálbýlisins. Og ég hélt að hann vissi ósköp vel hvernig ástandið er úti á landi. Hér er maðurinn sem efnir til þessara hækkana. Hér er stuðningsmaðurinn. Og það mun ekki standa á þessum stuðningsmanni ríkisstjórnarinnar að greiða götu fyrir hinn skattglaða ráðherra í þessum efnum sem öðrum. Þessi skattur fer beint út í verðlagið, beint inn á heimilin. Og það sem verra er, um leið og þessi skattur er þannig íþyngjandi fyrir heimilin í landinu, þá verður þessi skattur til þess að íþyngja þeim iðnaði íslenskum sem á í harðri samkeppni við erlend fyrirtæki vegna hækkaðs orkuverðs. Ég skal þá rifja

þetta upp í stuttu máli:
    Í fyrsta lagi er frv. tæknilega rangt upp byggt sem ég mun víkja að í síðari hluta ræðu minnar.
    Í öðru lagi felur frv. í sér verulega hækkun á raforkuverði, bæði til atvinnurekstrar og heimila, fer þannig út í verðlagið, hækkar verðbólguna og þrengir samkeppnisstöðu innlendra orkuvera.
    Loks veldur frv. því, ef að lögum verður, að vandséð er að hægt verði að semja við stóriðjufyrirtæki um orkusamning til langs tíma vegna þess að óheimilt er að mismuna að þessu leyti til almenningi og stóriðjufyrirtækjum.
    Herra forseti. Ég veit að engum er kunnara en hæstv. forseta að þetta fyrirtæki er þess eðlis að óhjákvæmilegt er að hæstv. iðnrh. sé við umræðuna og ég vil því fara fram á að ég fái að gera hlé á máli mínu og ljúka ræðu minni þegar hæstv. iðnrh. er kominn. Ég þarf ekki að taka fram, herra forseti, að reynslan sýnir að gagnslaust er að spyrja hæstv. fjmrh. spurninga um efni þeirra frv. sem hann leggur fyrir og mun ekki þreyta mig á því. Ég tel á hinn bóginn nauðsynlegt að eiga orðaskipti við hæstv. iðnrh. Ég óska eftir að gera hlé á ræðu minni og ég veit að hæstv. forseti verður við því þannig að ég geti rætt við hæstv. orkuráðherra um þetta mál sem mér er nauðsynlegt þar sem ég á sæti í fjh.- og viðskn. þar sem málið kemur til meðferðar. ( Forseti: Ég hygg að hæstv. iðnrh. sé erlendis. Ég veit auðvitað ekki hvernig hans ferðum er háttað en ég mun þá kanna það.) Hann er með fjarvistarleyfi, herra forseti, og er erlendis og þá er bara að bíða eftir því að hann komi til landsins. ( Forseti: Ég mun þá gera stutt hlé á fundinum og kanna málið.) --- [Fundarhlé.]