Skattskylda orkufyrirtækja
Þriðjudaginn 23. janúar 1990


     Karvel Pálmason (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég er út af fyrir sig ekkert hissa á því þó að þingmenn, í þessu tilviki Sjálfstæðisflokksins, eða einhverjir aðrir í andstöðu við hæstv. ríkisstjórn, haldi á málum eins og hér hefur gerst. Ég er sjálfur þeirrar skoðunar og hef verið lengi og hef sjálfur staðið í þeim sporum, sem þeir standa í núna og stend að hluta til í líka sjálfur, að mér finnst sumir hverjir ráðherrar, ekkert bara þeir sem eru nú sitjandi, heldur og áður, bera um of litla virðingu fyrir hinum almenna þingmanni og þingheimi yfirleitt. Það er auðvitað ekkert eðlilegt, ef eftir því er óskað sérstaklega af hv. þm. að viðkomandi ráðherra sé viðstaddur, að við því sé ekki orðið. Það er svo sjálfsagður hlutur sem verða má. Menn getur að sjálfsögðu greint á um skoðanir í tilteknum málum, en þessi umgengni á auðvitað að vera í fyrirrúmi, að þm. eigi almennt kost á því að eiga skoðanaskipti og orðræður við viðkomandi ráðherra sem er með málið.
    Ég hef margoft sjálfur upplifað það að ráðherrar í þessari og hinni ríkisstjórninni virða nánast þingið að vettugi, og það er slæmt, mjög slæmt. Þess vegna skil ég ekki að það bráðliggi svo á að þetta mál verði knúið hér í gegn í þessu andrúmslofti sem hér er nú, án þess að viðkomandi ráðherra sé viðstaddur, fyrir nú utan hitt, án þess að ég ætli nú að fara efnislega inn í málið, að mér sýnist það afskaplega óskynsamlegt í þeirri stöðu sem mál eru nú varðandi samninga á hinum almenna vinnumarkaði að mál af þessu tagi verði knúin hér í gegn, á þessum grundvelli, áður en lyktir sjást að því er varðar samningamálin. Ég er engu að spá um það og get á engan hátt sagt um það hvað þar kann að verða ofan á, en mál af þessu tagi eru ekki til þess líkleg að leysa þá mörgu hnúta sem þar er um að ræða að því er varðar samningsgerðina. Og ég hygg að bæði vegna þingsins, vegna hinna almennu þingmanna, óbreyttu, og vegna virðingar þingsins, eigi menn nú að fara sér svolítið hægar í þessum efnum.