Lánskjör og ávöxtun sparifjár
Þriðjudaginn 23. janúar 1990


     Flm. (Eggert Haukdal):
    Herra forseti. Ég hafði vonað að hæstv. viðskrh. yrði hér viðstaddur. Hann er nú því miður erlendis en í hans stað vonaðist ég þá eftir starfandi viðskrh., hæstv. utanrrh., en við eigum það báðir sammerkt að hafa stundum talað til Seðlabankans. En hann er því miður heldur ekki hér viðstaddur.
    Ég mæli hér fyrir frv. til laga um lánskjör og ávöxtun sparifjár. Frv. er nú flutt í þriðja sinn. Á síðasta þingi var frv. vísað til ríkisstjórnarinnar með svofelldu nál. meiri hl. fjh.- og viðskn., með leyfi forseta:
    ,,Nefndin hefur athugað frumvarpið á fundum sínum og telur að í því sé að finna mjög þarfa ábendingu um afnám lánskjaravísitölu. Ríkisstjórnin hefur ákveðið í stjórnarsáttmála sínum að koma í veg fyrir víxlhækkun verðlags og lánskjara. Það verður ekki gert nema með afnámi lánskjaravísitölu. Þess vegna leggur nefndin til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.``
    Undir álitið skrifa Páll Pétursson, Guðmundur G. Þórarinsson, Ragnar Arnalds og Matthías Bjarnason með fyrirvara.
    Álit fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar er mikill rökstuðningur með frv. En þrátt fyrir það hefur meginmarkmið frv. ekki náð fram að ganga gagnstætt vilja margra þingmanna. Það sem veldur er fyrst og fremst andstaðan sem seðlabankavaldið í peningamálum beitir gegn allri heilbrigðri skynsemi í þessu máli og kemst enn fram með það.
    Þótt greinargerð frv. segi í rauninni allt sem segja þarf í þessu máli vil ég henni til áréttingar víkja nokkrum orðum að umsögn Seðlabankans um frv. mitt þegar það var fyrst lagt fram. Þar koma fram helstu bábiljur
seðlabankamanna í samanþjöppuðu formi, bábiljur sem eru orðnar íslensku þjóðinni dýrar. Með umsögn Seðlabankans fylgdi álit frá dr. Þorvaldi Gylfasyni til Jóhannesar Nordals og Bjarna Braga Jónssonar sem heitir ,,Vextir og verðbólga``. Mikið lá við af hálfu Seðlabankans að fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar fengi vel matreiddan boðskapinn að ofan. En sem betur fer hafði nefndin þann boðskap að engu við afgreiðslu nál. í fyrra þegar hún sagði að ekki verði komið í veg fyrir víxlhækkun verðlags og lánskjara nema með afnámi lánskjaravísitölu.
    Í 1. gr. frv. segir að nafnvextir af útlánum verði eigi hærri en í helstu viðskiptalöndum Íslands. Um þetta segir Seðlabankinn, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Við ríkjandi verðbólgu mundi þetta leiða til mikillar lækkunar raunvaxta hér á landi. Lánsfjáreftirspurn mundi því aukast, sem annaðhvort leiddi til þenslu, þar á meðal aukinnar verðbólguhættu, eða skömmtunar útlána.``
    Þarna sést þeim seðlabankamönnum yfir það í fyrsta lagi að verðlag mun ganga niður með vöxtunum þannig að raunvextir þurfa ekki að lækka. Þeir geta þvert á móti hækkað. Enn hæpnari er sú staðhæfing þeirra að lánsfjáreftirspurn muni aukast. Hitt er mun

líklegra að hún muni minnka. Þetta kann að virðast þverstæðukennt en svo er ekki í reynd.
    Á sl. átta árum hafa verið við lýði hérlendis hæstu vextir sem þekkst hafa. Meðaltalshækkun lánskjaravísitölu sem ákvarðar verðbótaþátt vaxta hefur verið 35% á ári yfir tímabilið. Þar við bætast raunvextir til jafnaðar 6%, þannig að nafnvextir hafa verið 41%. Það er fjórum sinnum hærri vaxtaprósenta af útlánum en gilt hafa og gilda í viðskiptalöndum okkar. Hafa þessir ránvextir, sem utanrrh. hefur kallað svo, dregið úr eftirspurn lána? Nei, alls ekki. Útlán bankakerfisins á sama tíma hafa allt að tuttugufaldast sem er langtum meiri aukning en annarra stærða í hagkerfinu svo sem t.d. vergrar landsframleiðslu. Ástæðan er sú að vaxtataka sem er umfram arðgjöf atvinnufyrirtækja framkallar sívaxandi lánsfjárþörf. Fyrirtækin sækja fast eftir nýjum lánum og meiri lánum til að bjarga sér fyrir horn.
    Ef vextir eru lækkaðir uns þeir verða viðráðanlegir fyrirtækjum, framkvæmdaaðilum og heimilum dregur úr eftirspurn eftir lánum smátt og smátt, einkum ef rýmri greiðslukjör eru veitt jafnframt. Eftirspurn á annars að halda í skefjum með hóflegri seðlaprentun, hallalausum ríkisrekstri, minni erlendum lántökum og fleiri raunhæfum aðhaldsaðgerðum.
    Varðandi seinni hluta tilvitnana Seðlabankans, um verðbólguhættu og lánaskömmtun, skal spurt: Hafa hávextir komið í veg fyrir verðbólgu? Nei. Verðbólga er enn við lýði þrátt fyrir fórnir verkamanna og annarra launþega. Við höfum vaxta- og verðlagsskrúfu. Hávextir geta aðeins leitt til hjöðnunar með hruni atvinnuveganna sem er reyndar þegar hafin. Gjaldþrot og greiðslustöðvanir skipta þúsundum á ári. Hefur bankakerfið fullnægt lánaeftirspurn með hávöxtum? Nei, hvergi nærri. Við höfum í reynd lánaskömmtun. Ríkissjóður hefur orðið að koma atvinnuvegunum til hjálpar með milljarða króna framlögum úr Hlutatryggingarsjóði, Atvinnutryggingarsjóði útflutningsgreina, Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins, Byggðasjóði og fleirum. Þess er ekki að vænta að viðskiptafræðingar Seðlabankans geti skilið þetta. Þeir hafa lesið það í einhverri bók að hækkun vaxta minnki útlán og lækkun vaxta auki þau. En dæmið er ekki svona einfalt eins og reynslan hefur sýnt. Engin slík sjálfvirkni er til í hagkerfinu. Við skulum lofa þessum piltum að
naga blýanta, eins og hæstv. utanrrh. og starfandi viðskrh. komst eitt sinn að orði, en við megum ekki líða þeim að villa um fyrir þjóðinni.
    Þá segir í umsögn Seðlabankans að gengistrygging spariinnlána og spariskírteina sé þegar fyrir hendi. Það er vegna þess að viðskrh. rauk upp til handa og fóta þegar frv. mitt kom fyrst fram og setti ákvæði um slíkt í krafti Ólafslaga. En undirtektir hafa að vonum verið seinar meðan enn er unnt að ná okurvaxtakjörum með gömlu verðtryggingunni. Um það atriði Seðlabankans, að gengishagnaður af birgðum sé lítill vegna gengisbundinna afurðalána og viðbótarlána, gegnir í raun sama máli. Svo er einungis

meðan innlend lán eru á óviðráðanlegum kjörum. Erlendar lántökur verða að minnka ef við ætlum okkur að halda efnahagslegu sjálfstæði.
    Síðan skýrir bankinn frá því að spariinnlán sem óhreyfð eru í eitt ár eða lengur geti numið 50 milljörðum kr. Í skýrslu bankans sem hann hafði sent frá sér rétt áður, við árslok 1987, er greint frá því að bundin spariinnlán séu tæplega 15 milljarðar kr. Sagt er að fáir skrökvi um meira en helming en þarna er ýkt þrefalt. Eða, svo notuð séu nákvæmlega rétt orð, sagt er að fáir ljúgi meira en helming. Þessi bundnu spariinnlán taka til þriggja, sex og tólf mánaða bindingar. Varla er meira en þriðjungur af þessu fé til árs eða lengur og eru ýkjur þá tífaldar hjá Seðlabankanum.
    Verðtrygging er í umsögn Seðlabankans talin hafa forðað peningakerfinu frá glötun, enda hafi peningalegur sparnaður aukist á ný. Einnig þetta er rangt. Frá ársbyrjun 1982 til loka sl. árs, þ.e. á átta árum verðtryggingar, hafa bundin spariinnlán, sem eru eini mælikvarðinn á sparnað, ekki vaxið sem nemur verðbótaþætti vaxta og raunvöxtum sem við innlánin hefur verið bætt. Stofn spariinnlána hefur minnkað þar eð sparifjáreigendur hafa ekki lagt inn, heldur dregið út. Dæmið sem þeir bankamenn gefa um greiðslubyrði verðtryggðra lána er líka misfært. Lántakendur verða að greiða bæði verðbótaþátt vaxta og raunvexti. Fram hjá því verður ekki gengið. Það er út af fyrir sig vítavert að falsa opinberlega greiðslubyrði af lánum með því að reikna aðeins raunvexti. Húsnæðisstofnun hefur í auglýsingum sínum gert sig seka um hið sama og þar með leitt ungmenni í ófyrirséða erfiðleika.
    Loks er í umsögninni komið að verðáhrifum vaxta. Seðlabankamenn gera sér grein fyrir því að aukinn vinnulaunakostnaður leiðir til hækkunar vöruverðs. En þeir virðast ekki skilja eða a.m.k. ekki viðurkenna að aukinn fjármagnskostnaður gerir slíkt hið sama. Þeim finnst mikið við liggja og vitna í Þorvald Gylfason prófessor sem er stjórnarformaður Kaupþings hf. Hann segir að hækkun nafnvaxta 1981--1982 hafi verið, með leyfi hæstv. forseta: ,,... undanfari dvínandi verðbólgu í iðnríkjunum næstu árin á eftir.`` Þetta er ónákvæm túlkun þess sem gerðist. Vaxtahækkanir á árunum 1979--1981 af völdum olíuskellsins ollu hraðvaxandi verðbólgu í þessum ríkjum og voru í þann veginn að þrengja alvarlega að atvinnulífinu þegar þau sneru frá villu síns vegar á árinu 1982 og lækkuðu vextina. Hjaðnaði verðbólgan þá ört. Við Íslendingar gerðum þetta ekki, heldur hið gagnstæða. Við hófum hina illræmdu verðtryggingu fjárskuldbindinga og meðfylgjandi vaxtaskrúfu einmitt árið 1982 þegar Ólafslög komu til framkvæmda. Þess vegna er hér allt að fara til andskotans, svo ég vitni í orð Guðmundar J. Guðmundssonar, formanns verkamannafélagsins Dagsbrúnar.
    Ég get hins vegar tekið undir það með prófessor Þorvaldi Gylfasyni að við þurfum aðhald, ekki með ránvöxtum heldur aðhald í seðlaprentun. Aðhald í lánum Seðlabankans til viðskiptabanka og til ríkissjóðs, aðhald í erlendum lántökum, aðhald í

opinberri eyðslu. Meðan slíkt aðhald skortir megna hávextir einungis að gera illt verra.
    Herra forseti. Það verður aldrei nægilega ítrekað að fyrst er að lækka vextina og þá kemur verðbólgan niður. Það er tilgangslaust að bíða eftir því að verðbólgan gangi niður og vextirnir svo. Það gerist aldrei.
    Þetta frv. mitt sem nú er lagt fram í þriðja sinn er mál málanna í dag, einmitt nú þegar gerð er alvarleg tilraun til að koma vöxtum verulega niður sem er skilyrði aðila vinnumarkaðarins fyrir samningum um kaup og kjör og stöðvun verðbólgu.
    Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.