Lánskjör og ávöxtun sparifjár
Þriðjudaginn 23. janúar 1990


     Árni Gunnarsson:
    Herra forseti. Það er orðið mjög tímabært á hinu háa Alþingi að ræða mesta örlagavaldinn í efnahagslífi þjóðarinnar, lánskjaravísitölu og vexti. Ég sá að hæstv. forsrh. var hér í sal áðan og hefði kosið að fá hann hingað inn í deildina vegna þess að ég hef hug á því að spyrja hann einnar eða tveggja spurninga. Einkum og sér í lagi þess hvað líði þeirri viðleitni ríkisstjórnarinnar, sem fram kemur í samkomulagi hennar, að fella niður eða gera ráðstafanir til þess að fella niður lánskjaravísitöluna um mitt þetta ár. Ég hygg að þau mál muni að hluta til ráðast í þeim kjarasamningum sem nú standa yfir hvernig fer með lánskjaravísitölu og vexti almennt. En það hefði verið fullt tilefni til þess að ræða þetta mikla alvörumál við hæstv. forsrh. og spyrja hann að því hvort ríkisstjórninni hafi orðið yfirleitt eitthvað ágengt til þess að reyna að taka lánskjaravísitölu úr sambandi eða breyta útreikningi hennar. ( Forseti: Það skal upplýst að gerðar hafa verið ráðstafanir til þess að fá forsrh. hér í salinn til að ræða þetta mál.) Já, ég þakka virðulegum forseta fyrir það.
    Það er hægt að fara mörgum orðum um fjármagnskostnað á Íslandi og hvaða áhrif hann hefur haft á rekstur fyrirtækjanna í landinu og fjármál einstaklinganna. Ég hyggst gera það núna með nokkrum orðum.
    Þegar verðtrygging fjármagns var tekin upp á sínum tíma var ég hlynntur þeirri ráðstöfun. Ástæðan var mjög einföld. Það var um ára og áratuga skeið búið að ræna frá sparifjáreigendum sparifé. Það brann upp í bönkunum og þeir peningar sem höfðu verið lagðir inn og höfðu verið einhvers virði urðu að engu. Mörg dæmi þekkjum við um þetta. Það var því ógerlegt að halda áfram á sömu braut þannig að peningarnir yrðu látlaust að engu í bankastofnunum sem síðan misstu bæði tiltrú og traust almennings.
    En það sem gerðist síðan var ákaflega óvarlega gert og ég tel að hafi verið gert þannig að stjórnvöldum og þeim sem fara með peningamál þjóðarinnar hafi orðið á mjög alvarleg mistök. Vextir í landinu voru gefnir frjálsir án nokkurra takmarkana. Þær aðstæður voru fyrir hendi í þjóðfélaginu þegar þeir voru gefnir frjálsir að gífurleg samkeppni upphófst um fjármagnið. Peningamálastjórnendur gættu þess ekki m.a. þegar vextir voru gefnir frjálsir að setja þak á vaxtahækkunina og láta hana koma til framkvæmda í áföngum eða þá, sem hefði einnig verið valkostur í stöðunni, að heimila erlendum bankastofnunum og lánastofnunum að hefja viðskipti á Íslandi og þar með að veita íslenskum bönkum bæði samkeppni og aðhald. Hvorugt var gert. Aðstæðurnar sem ég nefndi áðan á íslenskum peningamarkaði voru eftirfarandi:
    Ríkissjóður Íslands stefndi að því að afla meira fjármagns á innlendum lánamarkaði en fyrr. Verðbréfamarkaðir sem vildu auðvitað með sem skjótustum hætti hasla sér völl voru að hefja hér störf. Í þriðja lagi, bankarnir ákváðu að taka þátt í

hömlulausri samkeppni um fjármagnið. Niðurstaðan varð sú að bankar, ríkissjóður og fjármagnsmarkaður fóru í hömlulausa samkeppni um fjármagnið sem til var á markaðnum. Það reyndu allir að bjóða upp fyrir hina með þeim afleiðingum að vaxtastigið hækkaði svo ótrúlega að engin dæmi eru til slíks í efnahagskerfi Vesturlanda, engin dæmi.
    Menn gleymdu því einnig þegar þeir tóku upp samanburð á vöxtum hér og í nágrannalöndunum að í nágrannalöndunum þekktist ekki sú verðtrygging á fjármagni sem hér var fyrir hendi. Þannig að með verðtryggingu og hömlulausum vöxtum, hömlulausri vaxtatöku bankakerfisins, voru komnir hér hæstu vextir sem þekkjast í hæfilega peningalega siðuðum löndum.
    Afleiðingin af þessu varð skelfileg. Í einu orði sagt, hún varð skelfileg. Afleiðingin varð sú að kostnaður, bæði einstaklinga og fyrirtækja í landinu, við það að fá fjármagn að láni varð svo gífurlegur að allt hefur orðið undan að láta í seinni tíð. Og ég leyfi mér að fullyrða að rekja megi þá helför íslenskra fyrirtækja sem við horfum nú á til þess tíma þegar hinir frjálsu vextir voru teknir upp án þess að nokkrar hömlur væru settar á vaxtahækkanir. Það var glórulaust athæfi að setja vaxtafrelsið inn í íslenskt efnahagskerfi án þess að setja einhverjar hömlur við því hversu hátt vaxtastigið mætti verða.
    Við töluðum um, þegar við ræddum hér verðtryggingu fjármagns, að við vildum fá verðtrygginguna til þess að sparifénu yrði ekki lengur stolið frá gamla fólkinu. En hvað hefur gerst núna þegar saman hefur farið verðtrygging á fjármunum og gífurlega háir vextir? Við höfum stolið eigin fé fyrirtækjanna í æ stærri stíl, komið þeim á vonarvöl, og við erum núna líklega að uppskera einhverja mestu byggðaröskun sem við höfum horft upp á á síðustu áratugum af þessum sökum.
    Við höfum líka gert annað sem mér finnst enn þá lakara. Við höfum tekið eignarnámi húseignir ungs fólks í þessu landi. Við höfum hirt af því eignirnar og nú verða menn að velta fyrir sér, hvort er skárri kostur þó báðir séu vondir: Að stela sparifé sem af fúsum og frjálsum vilja er lagt inn í banka eða einhvers staðar í aðrar ávöxtunarstofnanir eins og gert var áður eða að taka eignarnámi eignir þess unga fólks sem hefur verið í anda
séreignastefnunnar að berjast við það að eignast þak yfir höfuðið? Ég hygg að hver einasti þingmaður sem hér er inni þekki mörg skelfileg dæmi þess hvernig farið hefur fyrir ungu fólki sem gerði áætlanir. Þetta er ekki fólk sem réðist í íbúðarkaup eða húsbyggingar án nokkurs fyrirvara eða undirbúnings. Það eru mörg dæmi þess að þetta fólk hafi gert þetta mjög skipulega með áætlanagerð, reiknað út vaxtastigið eins og það var á þeim tíma þegar það gerði sínar áætlanir og gert ráð fyrir verðbólguhækkunum og hækkunum á lánskjaravísitölu. Ekkert af þessu hefur staðið. Hækkunin á öllum þessum þáttum hefur orðið svo gífurleg að það hafa engar áætlanir þessa unga fólks né fyrirtækjanna, ef ég bæti þeim við, getað staðist.

( Forseti: Þau skilaboð hafa borist frá forsrh. sem ekki er lengur í húsinu að hann komist ekki til þessa fundar. Óskar ræðumaður eftir því að til frekari ráðstafana verði gripið?) Herra forseti. Ég get auðvitað rætt þetta mál við hæstv. forsrh. á öðrum vettvangi. En segi það alveg hreint út sem mína skoðun, ég hefði viljað sjá einhvern af hæstv. ráðherrum ríkisstjórnarinnar við þessa umræðu. Vegna þess að ég tel og hef talið lengi að þessi þáttur í efnahagslífi þjóðarinnar sé einhver sá afdrifaríkasti sem við höfum verið að glíma við á undanförnum árum. Og ég hefði viljað heyra frá hæstv. ráðherrum hvaða aðgerðir eru fyrirhugaðar í tengslum við þær samningaviðræður sem nú fara fram varðandi loforð hæstv. ríkisstjórnar um afnám lánskjaravísitölu og lækkun á vöxtum. ( Forseti: Mætti ég aðeins trufla hv. ræðumann? Ég bar fram fyrirspurn og spurði hvort óskað væri frekari ráðstafana af hans hálfu. Er óskað eftir því?). Nei, ég geri engar kröfur til þess. Það verður bara að koma í ljós hvort hæstv. ríkisstjórn hefur áhuga á þessu máli eða ekki.
    Það hefur löngum verið sagt af þeim mönnum sem hafa með blóði og svita varið þessa vaxtastefnu og þessa fjármagnsstefnu sem ríkt hefur á Íslandi að megnið af ógæfunni megi rekja til þess að forustumenn fyrirtækja, sveitarfélaga og einstaklingar hafi verið fyrirhyggjulitlir. Þeir hafi ekki sést fyrir og fjárfestingaræði þeirra hafi farið út fyrir öll skynsamleg mörk. Þetta er auðvitað rétt að hluta til. En við skulum á móti spyrja þeirra spurninga: Hverjir eru það sem hafa lánað fjármagnið, einstaklingunum og fyrirtækjunum? Eru það ekki bankar sem á að reka með þeim hætti að þeir taki ekki áhættu í útlánum sínum? Gerir fólkið sér grein fyrir því að ýmsar fjárfestingar sem það hyggst ráðast í séu ekki skynsamlegar? Ég hygg að á þetta hafi mjög skort og ég segi fyrir mig að hluti af þeirri sök sem hér er um að ræða, hluti af henni, liggur inni í bankakerfinu.
    Ég vil líka að menn renni huganum nokkuð aftur í tímann eða til þess tímabils þegar vextir voru gefnir frjálsir og leggi að jöfnu hvenær fór að þrengjast um hjá fyrirtækjunum í landinu. Það skyldi þó ekki hafa verið um svipað leyti og vextir fór hækkandi. Það hefur verið reynsla fjölmargra landa, og við þurfum ekki að leita að gögnum um það, þau liggja á víð og dreif og það er hægt að ná í þau og sýna hvernig háir vextir hafa farið með atvinnulíf. Ég nefni sem dæmi Bandaríkin. Þegar Bandaríkjamenn höfðu verulegar áhyggjur af verðbólguþróun vildu þeir mæta henni með háum vöxtum til þess að draga úr fjárfestingum, til þess að reyna að fá fólk til þess að leggja fé sitt inn í lánastofnanir. Þetta hafði þau áhrif að hjól atvinnulífsins stöðvuðust í stórum stíl og bandarískt þjóðfélag varð fyrir gífurlegu fjárhagslegu áfalli.
    Nú er ég ekki með þessum orðum mínum að segja að fólk eigi ekki að eiga kost á því að leggja fjármuni sína í banka og fá eðlilega vexti af þeim. Það sem ég hef verið að segja er að vaxtastigið sem hér hefur verið við lýði ofan á lánskjaravísitölu, verðtryggingu fjármuna, hefur verið svo hátt að engu tali tekur.

    Þar fyrir utan tel ég að lánskjaravísitalan sé vitlaust útreiknuð. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að allt of margir þættir séu teknir inn í lánskjaravísitöluna sem ekki eigi þar heima. Ég nefni sem dæmi beina skatta. Af hverju á hækkun beinna skatta að hafa bein áhrif á lánskjaravísitölu? Það vill segja að þeir sem hafa tiltölulega lágar tekjur, nota bene ekki vísitölutryggðar tekjur, því að það eina sem er vísitölutryggt í þessu landi eru lánskjörin, þetta fólk hefur lent í því að fá hækkaða skatta ofan á laun sín, verið skuldugt og fengið þar að auki mikla hækkun á lánskjaravísitölunni og þar með hafa skuldir þess hækkað til mikilla muna sem hefur aftur valdið þessu fólki ólýsanlegum erfiðleikum.
    Ég veit ekki hvort hv. þm. hafa tekið eftir niðurstöðum skoðanakönnunar Húsnæðisstofnunar núna á dögunum þar sem kom fram að helmingur alls þess unga fólks sem spurt var, sem hafði kjark til þess að reyna að koma sér þaki yfir höfuðið, meira en helmingur þess hafði lent í mjög alvarlegum fjárhagsþrengingum.
    Ég verð nú að segja eins og er að ég velti því stundum fyrir mér hvaðan sú gífurlega hagspeki kemur sem hvorki er hægt að vinda ofan af, ræða um né koma einhverri smávitglóru í þegar viðkomandi sjá hver áhrif peningamálastefna og sú hagstjórn sem notuð hefur verið hefur á íslenskt fjármála- og efnahagslíf. Ég get heldur ekki séð að þeir hagfróðu menn sem hafa ritað um þessi mál séu
nokkurn tíma tveir alveg sammála um það hvort þetta hafi verið til góðs eða ills.
    Herra forseti. Ég hef lengi haft trú á því að í sambandi við húsnæðismál hér á landi höfum við Íslendingar farið mjög villir vegar. Ég tel að sú þjóðfélagsuppbygging sem hefur átt sér stað hér á landi hafi verið eins konar öfugur pýramídi að því leytinu til að ungu fólki sem hefur ýmist viljað eignast þak yfir höfuðið eða taka húsnæði á leigu hefur verið gert það nánast ókleift eða með þeim herjans kjörum á síðustu árum að stór hluti af bestu árum þessa fólks hefur farið í það að greiða háar skuldir vegna húsnæðiskaupa. Þetta hefur gerst á sama tíma og þetta unga fólk hefur þurft að eiga tíma fyrir börnin sín, fyrir uppeldi barnanna sinna til þess að geta lifað sómasamlegu manneskjulegu lífi í eðlilegum samskiptum við fjölskyldu sína og annað fólk. En með því kerfi sem hér ríkir hefur þessu fólki verið gert að þræla frá því snemma á morgnana og þar til seint á kvöldin, bæði karli og konu. Tíminn fyrir börnin, uppeldið, hefur að engu orðið. Og þegar þetta fólk er loksins orðið miðaldra, börnin að fara að heiman, þá situr það eitt eftir í stóra húsnæðinu sínu sem það hefur ekkert við að gera.
    Ástæðan fyrir þessari þróun er sú að það hefur oftar en ekki verið litið á það sem einhvers konar ölmusu að láta þetta fólk hafa fé til þess koma sér upp þaki yfir höfuðið. Og við höfum heldur ekki gert nægjanlega mikið til þess að hafa á boðstólum leiguhúsnæði fyrir þá sem vilja velja þann kost að búa í leiguhúsnæði.

    Það er ekki bara að þessu fólki hafi verið gert þetta erfitt með tiltölulega lágum lánum úr Byggingarsjóði ríkisins til allt of skamms tíma, heldur var bætt ofan á gallharðri lánskjaravísitölu og síðan vöxtum sem fóru upp úr öllu valdi og enginn réði við. Fólk greiddi af lánum sínum látlaust en höfuðstóllinn hækkaði og vonleysið varð meira og meira. Við erum að uppskera í dag af þessari stefnu.
    Herra forseti. Ég hef líka velt því fyrir mér hvernig standi á því að Íslendingar eru komnir svona langt á eftir öðrum þjóðum í aukningu þjóðarframleiðslu. Í mínum huga er aðeins ein ástæða fyrir því. Við höfum gert atvinnurekstrinum í landinu svo erfitt fyrir að hann á engan kost á því að standa sig. En við skulum nú velta því dálítið fyrir okkur hvað hefur líka gerst í tengslum við þessa hávaxtaþróun og þá lánskjaravísitölu sem við búum við. Það hefur gerst m.a. að tilfærsla á fjármagni í íslensku þjóðfélagi hefur líklega aldrei orðið meiri í samanlagðri sögu þjóðarinnar. Það var svo að þeir sem áttu peninga þegar vextir voru gefnir frjálsir og gátu spilað á peningamarkaðinn höfðu af því gífurlega miklar tekjur. Og það er nú einu sinni svo að ævinlega þarf að ná í peningana einhvers staðar og það þurfa bankarnir ekkert síður að gera. Þegar þeir þurfa að greiða háa innlánsvexti þurfa þeir að taka peningana sem í innlánsvextina fara frá einhverjum. Og það eru skuldararnir sem hafa greitt þá, það er atvinnureksturinn í þessu landi m.a. sem hefur verið blóðmjólkaður til þess að geta greitt þessa háu vexti í þessari glórulausu samkeppni, þessa þríeina þurs sem hefur barist um fjármagnið á íslenskum peningamarkaði. Ég vil biðja menn að velta því fyrir sér hversu mikla vexti Íslenskir aðalverktakar hafa t.d. fengið af sínum framkvæmdasjóði sem er hýstur í Landsbanka Íslands og yfirleitt því fé sem þeir eiga í bönkum sem mun nema um 3 milljörðum kr. Hvaða vexti skyldi þetta fyrirtæki hafa fengið af 3 milljörðum kr. á undanförnum árum? Gaman væri að fá útreikning á því. Hverjir skyldu hafa borgað þessa vexti? Peningarnir koma einhvers staðar frá. Það eru auðvitað skuldararnir. Það eru fyrirtækin í landinu sem eiga að halda uppi þessu þjóðfélagi meira eða minna. Það eru þau sem hafa borgað þetta. Og þau eru komin í þá skelfilegu stöðu núna að geta ekki staðið undir þeim væntingum sem menn gerðu sér og staðið við þær kröfur sem til atvinnurekstrar eru gerðar. Og það sem er sýnu alvarlegast í mínum huga er að þessi peningamálaþróun hefur gert það að verkum að landsbyggðin er að trosna upp, baklandið er að deyja, þéttbýlissvæðin eru að gefast upp, m.a. vegna þess hve fjármagnskostnaðurinn hefur verið gífurlegur. Við fáum hvert dæmið um þetta á fætur öðru. Síðan er ævinlega sagt við okkur: Um hvað eruð þið að tala, heiðursmenn? Þarna voru stjórnendur sem vildu fjárfesta í nýju skipi, í nýjum tækjum og tólum í frystihúsið sitt o.s.frv. Þessir menn gerðu áætlanir og við eðlilegar aðstæður hefði ekkert verið athugavert við hluta af þessum fjárfestingum. Aðrar voru úr hófi, ég viðurkenni það.

    Herra forseti. Niðurstaða mín úr þessari umræðu er sú að hin frjálsa vaxtastefna sem fór af stað með allt of miklum gassa vegna samkeppninnar um fjármagnið á markaðinum ofan á verðtryggðar fjárskuldbindingar --- allt var verðtryggt, allt var reiknað upp með lánskjaravísitölu --- sé í raun einhver mesta hörmungarsaga í íslensku atvinnulífi og hjá einstaklingum sem við höfum horft upp á. Ég bind auðvitað miklar vonir við að samtökum sem virðast vera öflugri Alþingi Íslendinga, þ.e. verkalýðshreyfingunni, takist að knýja stjórnvöld og peningamálastofnanir til þess að taka sönsum. Ég veit ekki hvort þið hafið tekið eftir lista sem birtist í Frjálsri verslun fyrir nokkru um þau
fyrirtæki sem mest höfðu hagnast á Íslandi. Hvaða fyrirtæki skyldu það nú hafa verið? Það voru fyrirtæki sem höndluðu með peninga. Það voru bankar, verðbréfafyrirtæki o.s.frv. Nú er ég ekki að amast við því að bankar geti haft hagnað eða verðbréfafyrirtæki. En það er óeðlilegt að þessi hagnaður verði til fyrir það að undirstöðuatvinnugreinar þjóðarinnar séu kyrktar í greip þessa peningavalds. Það nær ekki nokkurri átt. Þetta verður að breytast.
    Herra forseti. Ég get auðvitað sagt það hér, ég hef í mínum þingflokki gagnrýnt látlaust þessa þróun mála og viljað ná fram breytingum. En það er nú svo að til þess að ná fram breytingum þarf meiri hluta. Og ég endurtek það sem ég sagði hér í upphafi ræðu minnar að mér hefði ekki fundist það óviðurkvæmilegt, svo að ég taki nú ekki dýpra í árinni, að einhverjir hæstv. ráðherrar hefðu verið viðstaddir þessa umræðu hér í dag. En það má auðvitað gera gangskör að því, ef ekki tekst á næstunni að bæta stöðu þessara mála, að hefja hér umræðu um vaxtaþróun, um lánskjaravísitölu og verðbindingu fjárskuldbindinga.
    Ég vil segja það sem mín lokaorð, herra forseti, að ég vænti þess nú fastlega að íslenskt efnahagslíf hafi komist niður á það stig sem það verst getur orðið, a.m.k. í bili, og að fram undan sé einhver breyting sem geti orðið til batnaðar. Og þá skulu menn taka eftir því að lækkun vaxta og hugsanleg breyting á lánskjaravísitölu verður sá drifkraftur sem getur komið íslensku atvinnulífi í tiltölulega eðlilegt horf á nýjan leik.