Lánskjör og ávöxtun sparifjár
Þriðjudaginn 23. janúar 1990


     Ásgeir Hannes Eiríksson:
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þær þakkir sem flm. hefur fengið hér í þingsal fyrir að hafa flutt þetta frv., nú í þriðja skipti, og er sérstök ástæða til að vekja athygli á þeirri þrautseigju því að andstæðingar Eggerts Haukdals, hv. flm., eru ekki almenningur eða almenningsálitið, heldur fáeinir öflugir okurkarlar í hans eigin flokki. Þess vegna er sérstök ástæða til þess að þakka honum fyrir því hvað sem líður áliti þessara flokksbræðra Eggerts er ljóst að hann hefur fylgi þúsundanna með sér. Hann hefur fólkið með sér í þessu máli. ( Gripið fram í: En ríkisstjórnarflokkanna?) Hann hefur fylgi margra úr ríkisstjórnarflokkunum. Ég er annar stuðningsmaður þessarar ríkisstjórnar sem stend hér upp í dag til þess að taka undir þetta og væri kannski við því að búast að hann fengi álíka stuðning frá ykkur, flokksfélögum sínum. ( Gripið fram í: Þá fer þetta bara í gegn.) Við skulum vona það, enda er þetta staðurinn til þess að hleypa málunum í gegn. ( Gripið fram í: Það er rétt.) Okurvextirnir fóru í gegnum Alþingi og þá er eins gott að Alþingi afnemi okurvextina líka. Það gera það engir aðrir. Og ég er alveg handviss um það að ef rétt er á málum haldið er hægt að ná hér þinglegum meiri hluta fyrir lok þessa þings og létta þessu af þjóðinni.
    Að mínu viti er aðeins ein regla til í sambandi við vexti. Það er aðeins til ein tegund af vöxtum. Það eru þeir vextir sem atvinnulífið ræður við að borga, og búið. Reglan er svo einföld. Allir aðrir vextir sem eru hærri en svo mala undir sér atvinnulífið og um leið leggja þeir þjóðfélagið smátt og smátt í rúst eins og nú er að gerast. Það þarf ekki að líta langt í kringum sig. Það er nóg að taka upp næsta eintak af Lögbirtingablaði til þess að sjá áhrif af þessari vaxtapólitík, ef pólitík má kalla. Á hverjum degi, á hverjum einasta degi í rauninni, á hverjum sólarhring, eru sex Íslendingar teknir til gjaldþrotaskipta. Það þýðir að það er einn á hverri klukkustund sem er opið hjá fógeta. Frá því að þing hófst klukkan tvö er búið að úrskurða einn Íslending og það er langt komið að úrskurða mann númer tvö þegar við hættum hér klukkan fjögur. Þá er á okkar þingtíma búið að úrskurða tvo Íslendinga gjaldþrota. Þetta er ávöxtur vaxtanna.
    Við höfum oft heyrt talað um raunvexti og ég vil leyfa mér að velta því fyrir mér: Hvað eru raunvextir? Við hvaða raunveruleika er miðað? Eru vextir í næstu löndum við okkur einhver sérstakur raunveruleiki fyrir Íslendinga? Eigum við að miða við þá? Hvar er raunveruleikinn? Er ekki aðeins einn raunveruleiki til fyrir okkur og það er lífið í kringum okkur? Er þá um nokkra aðra vísitölu að ræða fyrir hvern mann en þá vísitölu sem hann sjálfur getur borgað? Er hægt að setja allt þjóðfélagið upp í eina allsherjar lánskjaravísitölu og segja að allir menn skuli borga samkvæmt henni, en þegar maður fer inn í banka þá eru engir samningar um lán. Maður gengur inn í hamarinn. Það er rétt að manni skilmálablað þar sem allir skilmálar eru fyrirframprentaðir. Það eina sem

sett er inn í er upphæðin á peningunum og hvaða dag á að borga þá til baka. Skilmálarnir eru fyrir hendi. Viðskiptavinurinn fær engu um það ráðið. Hann gengur beint í hamarinn.
    Að mínu viti er t.d. aðeins ein vísitala til fyrir sjómanninn og það er fiskverðið, aðeins ein fyrir bóndann og það er afurðaverðið, aðeins ein vísitala til fyrir leigubílstjórann og það er taxtinn sem hann keyrir eftir. Þannig hljóta lánin að verða tryggð í framtíðinni. Tryggingin hlýtur að miðast við getu mannsins sem tekur lánið á hverjum tíma til að greiða til baka, ekki einhverja fundna vísitölu sem búin er til af stofnunum, seðlabönkum og öðrum apparötum í þjóðfélaginu. Slík vísitala getur aldrei gengið upp. Afleiðingar hennar sjáum við allt í kringum okkur.
    Virðulegi forseti. Ég vil ekki hafa þetta lengra að sinni. Ég vil ítreka þakkir til flm. frá stuðningsmanni og hvet hann til þess að láta ekki deigan síga því það eru örugglega fleiri stuðningsmenn þessa máls hér á þingi en fram hafa komið í dag.