Tekjuskattur og eignarskattur
Þriðjudaginn 23. janúar 1990


     Flm. (Þórhildur Þorleifsdóttir):
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Flm. eru ásamt mér aðrar kvennalistakonur sem sæti eiga í Nd.
    Þetta frv. hefur að geyma þrjár greinar. Í 1. gr. er kveðið á um að einstætt foreldri og barn þess, 16 ára og eldra sem á hjá því lögheimili, eigi rétt á að telja fram og vera skattlögð með sama hætti og hjón eða karl og kona í óvígðri sambúð, enda óski þau þess bæði skriflega við skattyfirvöld.
    Þarna er verið að gera tilraun til þess að leiðrétta aðeins það misræmi sem er hér milli sambúðarforma eða hvernig fjölskyldur eru saman settar. Í raun má segja að einni tegund fjölskyldna sé gert hærra undir höfði en öllum öðrum. Það er einungis samband karls og konu, og það m.a.s. ef líkur eru til þess að það sé kynferðislegt samband, sem er gilt og fólk getur nýtt sér í þeim tilgangi að nýta ónýttan persónuafslátt. Nú er þannig ástatt eins og menn vita að þetta er svo sannarlega ekki eina sambúðarformið eða eina fjölskyldugerðin sem fyrirfinnst á Íslandi. Það eru fjöldamörg heimili sem eru öðruvísi samansett en algengasta formið, fyrir utan þessa viðurkenndu sambúð karls og konu, er eflaust heimili þar sem barn eða börn búa með einu foreldri. Það er erfitt að finna fyrir því nokkur rök að þannig samansett heimili geti ekki nýtt sér þessi réttindi með sama hætti og hið viðurkennda sambúðarform karls og konu.
    Áður en lengra er haldið ætla ég aðeins að tæpa á 2. gr. frv. sem kveður á um að ónýttan persónuafslátt annars hjóna verði hægt að nýta að fullu en ekki einungis 80% eins og nú er. Það eru í raun engin rök fyrir því, að einungis megi nýta ónýttan persónuafslátt að þessu marki en ekki að fullu, önnur en þau að auðvitað er sá háttur sem nú er hafður á ódýrari fyrir ríkissjóð, þ.e. hann fær með því móti meiri tekjur. Menn hafa að vísu rökstutt það með því að vinni annar aðilinn einungis innan heimilis, sem óþarft er að nefna að í flestum tilfellum er jú konan, þá drýgi hún verulega tekjur heimilisins þannig að þær nýtist betur. Nú er eflaust nokkuð rétt að halda þessu fram. Sú kona, sem stundar einungis vinnu innan heimilis, hefur auðvitað betri tíma bæði til nýtingar hráefnis og til framleiðslu ýmiss konar, svo sem fatasaums o.fl., þannig að það er auðvitað rétt að eflaust verða þær tekjur sem færðar eru í búið drýgri á slíkum heimilum og mun þar að finna réttlætinguna fyrir þessum 80%. En á móti er líka hægt að segja að það er viðurkennt eða a.m.k. hafa menn mikið haldið því fram að sé kona inni á heimili, þ.e. sé hún ekki úti á vinnumarkaði og vinni einungis inni á heimili, þá spari hún líka þjóðfélaginu útgjöld. Er þá handhægast að nefna að það eru miklu minni líkur á að hún nýti sér þá opinberu þjónustu sem völ er á, t.d. til barnagæslu og annað í þeim dúr, þannig að raunar má segja að þá tekjudrýgingu sem verður á heimilinu sé hægt að leggja að jöfnu við þann sparnað sem verður þjóðhagslega og því megi í rauninni strika þetta út og

gefa þá leyfi til þess að nýta ónýttan persónuafslátt að fullu. Auk þess er mjög algengt að viðbrögð kvenna við þessu séu sterk. Þær spyrja gjarnan sem svo: Er ég aðeins 80% einstaklingur? Og það hlýtur vissulega að vera sú tilfinning sem þær fá þegar það sem þær leggja af mörkum má einungis nýta að þessu marki en ekki að fullu. Af sjálfu leiðir að þessi háttur, að nýta megi ónýttan persónuafslátt að fullu, mundi þá líka gilda um einstætt foreldri og barn eins og kveðið er á um í b-lið 2. gr. frv.
    Einstæðir foreldrar eru stór hópur í íslensku þjóðfélagi, svo stór að það er ekki hægt að horfa fram hjá honum eða þörfum hans. Aðstæður þessa hóps eru að nokkru frábrugðnar aðstæðum annarra, þ.e. í meðaltölum talað. Einstæðar mæður á landinu voru í desember sl. 6983, þ.e. tæplega 7000 svo að við einföldum nú töluna í meðförum, og einstæðir feður voru 532. Það eru sem sagt um 7500 manns sem eru í þeirri stöðu. Börn á framfæri þessa hóps eru um 10.500. Nánar tiltekið eru börn á framfæri einstæðra mæðra 9672 á sama tíma og börn hjá einstæðum feðrum eru 648. Það er ekki auðvelt að fá í fljótu bragði tölur um það hversu margir unglingar eru á framfæri einstæðra foreldra eða eiga hjá þeim lögheimili. En það má leika sér að þessum tölum. Þetta munu vera um 600 börn í hverjum árgangi, geri maður ráð fyrir nokkurn veginn jafnri skiptingu, og taki maður þá fimm árganga og hugsi sér t.d. hópinn frá 16--21 árs, þá eru það 3000 einstaklingar sem hafa alist upp hjá einstæðu foreldri. Af þeim býr auðvitað einhver hluti heima og einhver verulegur hluti þeirra hlýtur að vera í námi þar sem flestir eða allflestir halda nú áfram námi eftir grunnskólanám.
    Það er annað sem skilur þennan hóp að verulegu leyti frá öðrum hópum þjóðfélagsins og það er að þetta er mjög tekjulágur hópur. Hlýt ég þá fyrst og fremst að taka mið af einstæðum mæðrum því að þær eru tæplega 7000. Það er kunnara en frá þurfi að segja að konur hafa sem hópur miklu, miklu lægri tekjur en karlar og líkur eru á því að einstæðar mæður séu jafnvel láglaunahópur innan þess láglaunahóps sem konur eru sem heild.
    Í skýrslu sem Þjóðhagsstofnun tók saman og birtist í sérriti nr. 1 sem gefið er út í janúar 1989 og tekin er saman að frumkvæði forsrh. má finna eftirfarandi upplýsingar. Ef einungis er talað um fjölda á vinnumarkaði, þá er skipting þar milli karla og kvenna jöfn, þ.e. munurinn er svo lítill að hann er ekki umtalsverður. Karlar eru 53% af fjölda þeirra sem eru á vinnumarkaði, konur 49,7%. Ef litið er á tekjuskiptingu þessa hóps þá eru heildaratvinnutekjur karla, ef allir eru teknir með, 67% af heildaratvinnutekjum landsmanna en konur bera aðeins úr býtum tæp 33% af heildaratvinnutekjum. Útkoman úr þessu dæmi ákvarðast náttúrlega að einhverjum hluta af því að stór hópur kvenna vinnur hlutastörf þannig að það er ekki öll sagan sögð með þessum dæmum, en ef dæmið er aftur sett upp með heildaratvinnutekjum fullvinnandi launþega, þá eru 61,6% þeirra launþega karlar og konur eru 38,4%. Ef

síðan eru skoðaðar heildaratvinnutekjur þeirra sem eru fullvinnandi launþegar, þá bera karlar úr býtum 72,5% heildaratvinnutekna og konur aðeins 27,5%. Þegar á allt er litið þá leit það þannig út á árinu 1986 að fullvinnandi konur í öllum atvinnugreinum báru tæplega 60% af tekjum fullvinnandi karla úr býtum. Þó að einhver tími sé liðinn síðan þessar tölur voru teknar saman, þá held ég að þær hafi ekki breyst og það er nánast öruggt að þær hafi ekki breyst að neinu því marki sem umtalsvert getur talist. Hér er líka að finna samanburð á meðalatvinnutekjum launþega á árunum 1981 og 1986. Árið 1981 eru tekjur kvenna sem hlutfall af tekjum karla, og þá er átt við fullvinnandi fólk, 60,3%, árið 1986 er það komið upp í 60,7% þannig að munurinn er óverulegur og margt bendir til að þetta hafi hreint ekki breyst konum í hag.
    Það er ekki auðvelt að finna mikið af nýjum upplýsingum um kjör og stöðu einstæðra foreldra en þó var gerð könnun sem birtist árið 1984 þar sem einmitt er tekið á stöðu þessa hóps. Þar kemur fram margt athyglisvert sem flest bendir í eina átt, þ.e. að þessi hópur er verr staddur í flestu tilliti en aðrir hópar þjóðfélagsins. Þess ber að geta að þegar þessi könnun er gerð, þá teljast einstæðir foreldrar í landinu samkvæmt þjóðskrá 6250 og er þá miðað við 1. des. 1983. Þeim hefur sem sagt fjölgað um u.þ.b. 1300 einstaklinga. En þar sem ekki hafa orðið verulegar breytingar á tekjuskiptingu og ekki hafa orðið neinar stökkbreytingar heldur í ástandi húsnæðismála, þá er ekki ástæða til að ætla að þessi skýrsla sé ekki enn í fullu gildi. Þar kemur mjög vel fram að húsnæðisaðstaða einstæðra foreldra er mjög bág. Á þeim tíma býr um helmingur einstæðra foreldra í leiguhúsnæði en á sama tíma bjuggu að jafnaði 9 af hverjum 10 fjölskyldum á Íslandi í eigin húsnæði. Strax þarna kemur fram alveg hróplegur mismunur.
    Það þarf ekki að fjölyrða um það óöryggi sem því fylgir á Íslandi að búa í leiguhúsnæði þar sem ekkert er sem í rauninni bindur rétt leigutaka að neinu verulegu ráði og það fólk sem sætir þessum kjörum má yfirleitt búa við það að flytja oftar en allar aðrar fjölskyldur landsins þurfa að gera. Og ekki síst er það meðan börnin eru lítil.
    Það er líka athyglisvert að stór hópur einstæðra foreldra heldur ekki sjálfstætt heimili, þ.e. hefur greinilega ekki aðstæður til þess að gera það heldur þarf að leita ásjár hjá foreldrum eða öðrum ættingjum og vinum. Þetta er líka mjög frábrugðið frá því sem gerist í öðrum hópum þjóðfélagsins. Það þarf ekki að efa að þetta stafar fyrst og fremst af efnalegu ástandi.
    Það er líka annað sem einkennir þennan hóp og það er að skólaganga einstæðra foreldra er mun skemmri en gengur og gerist meðal jafnaldra. Á þeim tíma sem þessi skýrsla er gerð luku um 39% kvenna á tvítugsaldri stúdentsprófi en aðeins um 3% einstæðra foreldra --- og ég vil minna á aftur að oftast má setja orðin ,,einstæðra mæðra`` inn í staðinn --- aðeins 3% einstæðra foreldra á aldrinum 20--29 ára hafði lokið 14 ára skólagöngu eða lengri. Þessi skamma

skólaganga einstæðra foreldra miðað við sambærilega aldurshópa og skólagöngu kvenna almennt er vissulega alvarlegt íhugunarefni, ekki síst með tilliti til þess að um 40% þeirra einstæðu foreldra sem ekki stunda nám svöruðu því að þeir hefðu áhuga á áframhaldandi skólagöngu ef aðstæður leyfðu slíkt. Allt rennir þetta stoðum undir það að börn þessa fólks standi verr að vígi að undirbúa sig fyrir lífið og lífsstarfið en aðrir hópar því að varla mun nokkur vefengja það samhengi sem er á milli efnahags og skólagöngu. Maður getur jafnvel dregið þá ályktun að oft og tíðum sé sú hvatning meiri sem þessi börn fá að fara sem fyrst að afla tekna en að afla sér menntunar.
    Ég hefði auðvitað átt að geta þess í upphafi að frv. svipað að innihaldi var flutt hér á síðasta þingi og þá reyndar ásamt breytingum á eignarskattslögum sem nú hefur að nokkru leyti verið fært til betra horfs, en þessi liður, þ.e. að einstæðir foreldar megi nýta ónýttan persónuafslátt barns, náði ekki fram að ganga þrátt fyrir að því máli væri sýndur talsverður áhugi hér inni á Alþingi. En verulegur hefur áhuginn greinilega verið utan Alþingis, úti í þjóðfélaginu, því að þetta frv. fékk í fyrra mikil viðbrögð. Og í trausti þess að þau eigi sér enduróm hér inni á Alþingi endurflytjum við það með þeim breytingum sem ég skýrði frá áðan, þ.e. að persónuafslátturinn nýtist að fullu
en ekki einungis 80%.
    Við ákváðum að ganga ekki lengra í þetta sinn en að leggja til að einstætt foreldri gæti nýtt sér persónuafslátt eins barns sem ætti hjá því lögheimili. Við höfum vissulega velt fyrir okkur fleiri hópum sem e.t.v. mætti sama gilda um, svo sem eins og systkinum sem halda heimili saman eða önnur sambúðarform, en við ákváðum að láta nægja þennan eina hóp í bili vegna þess að þar er þörfin eflaust brýnust. Við hugleiddum vissulega að leggja til að einstætt foreldri mætti nýta sér ónýttan persónuafslátt fleiri barna ef svo háttaði til, en ákváðum þó að halda okkur í bili við eitt barn, bæði vegna þess að það kemur fram í skýrslum að að öllum líkindum er það á flestum heimilum sem þannig háttar til, þ.e. að einbirni sé á heimili er algengasta fjölskylduform þar sem einstætt foreldri býr með barn. Auk þess er með tilliti til þess sem ég talaði hér um áðan varðandi tekjur ekki líklegt að margar konur, hvað þá í þessum hópi, hafi þær tekjur að þær gætu nýtt sér meira en einn persónuafslátt og vildum við því gæta hófs í tillögum í þeirri von að þær ættu greiðari leið hér í gegnum þingið.
    Það eru sem sagt ótal rök sem hníga að því að það muni verulega um þá bót sem yrði á mörgum heimilum ef þetta frv. næði fram að ganga. Og rétt til þess að draga það saman vil ég í fyrsta lagi minna á aftur að þetta er láglaunahópur innan láglaunahóps sem býr við ótryggt húsnæði og hefur lægra menntunarstig en aðrir hópar þjóðfélagsins. Þetta leiðir auðvitað hugann að því að það er úrbóta þörf á miklu fleiri sviðum. T.d. er ljóst að í húsnæðismálum er þörf á verulegri styrkingu félagslega kerfisins eins og við

kvennalistakonur höfum reyndar margoft talað um og höfum líka reynt að leggja því máli lið. Það er líka brýn þörf á leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði og þar sem eitthvert öryggi fylgir búsetu og eins er brýnt að líta á námslánafyrirkomulagið, hvort það nýtist sem skyldi þeim einstaklingum sem hugsanlega hrökklast frá námi eða verða að gefast upp við nám eða treysta sér ekki til að hefja nám vegna bágs efnahags.
    Félagslegar aðstæður barna og unglinga ráða eflaust miklu um það hvernig þeim farnast í lífinu, hvaða leið þeir fara og hvaða starf þeir velja sér. Ef fjárhagur er bágborinn er hægt að álykta að það torveldi verulega að afla sér menntunar. Það má í rauninni segja að kerfinu sé viðhaldið með því að styðja ekki sérstaklega þá hópa sem eiga hvað erfiðast með að sækja sér menntun og búa þannig í rauninni til hringrás sem erfitt er að komast út úr. Það má leiða að því rök að börn einstæðra foreldra séu líkleg til að lenda í sömu aðstöðu og foreldri, þ.e. að þau skorti menntun, eigi síðan erfitt með að afla sér húsnæðis og atvinnutækifærin séu fábrotnari og verr launuð. Samþykkt þessa frv. væri aðeins örlítið framlag til að bæta kjör einstæðra foreldra og þar af leiðandi og ekki síður barna þeirra. Það er skylda þjóðfélagsins að reyna að skapa öllum þegnum sínum sem jöfnust tækifæri en það er ekki nóg að tækifærin séu fyrir hendi. Möguleikar á að nýta sér tækifærin vega ekki síður þungt.
    Virðulegur forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og til hv. fjh.- og viðskn.