Tekjuskattur og eignarskattur
Þriðjudaginn 23. janúar 1990


     Flm. (Þórhildur Þorleifsdóttir):
    Virðulegur forseti. Aðeins nokkur orð í tilefni orða síðasta hv. ræðumanns sem ég í leiðinni vil þakka þann stuðning sem hún lýsti við þetta frv.
    Varðandi þau tvö frv. sem hún vildi gera hér að umtalsefni þá er síst verið að gera lítið úr þeim. Ég vil einungis benda á að þegar frv. að mestu leyti til sama efnis var lagt fram á síðasta þingi þá var þessara frv. getið og ég taldi svo sem ekki ástæðu til að endurtaka það en vissulega hefði ég mátt að gera það. Það er ekki nema sanngjarnt að minnast á mál sem hníga í sömu átt og þá sem maður hefur sjálfur áhuga á.
    Einnig var það gert að umtalsefni að við hefðum ekki látið reikna út hvað þetta hugsanlega kostaði ríkissjóð eða hve miklar tekjur ríkissjóðs töpuðust ef þetta næði fram að ganga. Fyrir því er auðvitað sú ástæða að þegar við fórum að reyna að finna einhverjar tölur í því sambandi, þá er í fyrsta lagi mjög umfangsmikið að komast að því hve margir einstaklingar á þessum aldri sem hér um ræðir, þ.e. 16 ára og til rúmlega tvítugs, eiga lögheimili hjá einstæðu foreldri. Þarna eru börnin farin að skila sérskattframtali og það eru ekki til neinar skýrslur yfir samsetningu heimila þar sem börn eru komin yfir 16 ára aldur. Auk þess þyrfti aðra stóra könnun til þess að kanna hve margir þessara unglinga, sem hugsanlega eiga lögheimili á umræddum heimilum, stunda nám eða hve miklar tekjur þeir hafa þannig að þarna væri um geysilega umfangsmikla könnun, og reyndar margar, að ræða sem við töldum ekki fært að gera --- enda höfum við ekki aðstæður til að gera það upp á okkar eindæmi og ég gerði það einmitt að umtalsefni hér fyrr að allt of lítið væri til af upplýsingum um þennan hóp, einstæða foreldra og aðstæður þeirra.
    Eins þykir mér leitt ef hv. þm. skilur orð mín svo að ég væri að gera lítið úr þeim konum sem eru inni á heimilum við sín störf, þ.e. sækja ekki atvinnu utan heimilis. Því fer fjarri og ég held raunar að ég hafi ekki gert það,
einungis bent á að það væri óréttlátt að eitt sambúðarform nyti þessara fríðinda eða skattafsláttar umfram önnur sambúðarform, ekki síst þegar sá hópur sem hér um ræðir í þessu frv., þ.e. einstæðir foreldrar, er eins fjölmennur og raun ber vitni.