Evrópusamningur um varnir gegn pyndingum
Miðvikudaginn 24. janúar 1990


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson):
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. sem flutt er á þskj. 356. Það er frv. til laga vegna aðildar Íslands að Evrópusamningi um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.
    Hinn 26. nóv. 1987 var lagður fram til undirritunar í Strasborg Evrópusamningur um varnir gegn pyndingum, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Þann dag var samningurinn undirritaður af 19 af 21 aðildarríki Evrópuráðsins, þar á meðal af Íslands hálfu. Því miður verður ekki fram hjá því gengið að pyndingar og ómannlegar eða vanvirðandi athafnir eru framkvæmdar víða í heiminum í ýmsu samhengi, svo sem skýrslur Amnesty International og annarra aðila greina frá.
    Þó að ódæðin séu vafalaust ekki verst í Evrópu þýðir það ekki að ekki sé hægt að bæta vernd manna gegn pyndingum í þeim heimshluta. Það ber líka að hafa í huga að samningar í Evrópu á þessu sviði geta þjónað tilgangi sem fyrirmynd í öðrum heimshlutum.
    Í 3. gr. Evrópusáttmála um verndun mannréttinda og mannfrelsis frá 1950 er ákvæði um bann við pyndingum. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Enginn maður skal sæta pyndingum, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.``
    Þessi samningur inniheldur ekki neinar frekari skilgreiningar á þessum hugtökum. Telji menn þessa grein Mannréttindasáttmálans brotna er hægt að kæra það til mannréttindanefndar Evrópuráðsins og síðan til Mannréttindadómstólsins að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Með réttarframkvæmd hjá þessum aðilum hafa skapast fordæmi um hver mörk þess eru sem fellur undir ákvæði 3. gr. Innan Evrópuráðsins var talið að hægt væri að bæta vernd manna gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingum með aðgerðum sem hefðu meiri varnaðaráhrif í för með sér en úrræði samkvæmt Mannréttindasáttmálanum. Í þessum tilgangi var Evrópusamningur um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu gerður. Skv. samningnum skal setja á fót sérstaka nefnd sem getur heimsótt þá staði í aðildarríkjunum þar sem frelsissviptir menn eru vistaðir. Eftir að heimsókn lýkur skal nefndin gefa skýrslu um heimsóknina og þær athuganir sem hún hefur gert og skal skýrslan send viðkomandi ríki. Í þessari skýrslu skal nefndin koma með athugasemdir og tillögur um hvernig bæta megi vernd frelsissviptra manna.
    Ef ríki fer ekki að tillögum nefndarinnar um úrbætur eða neitar samvinnu við nefndina er ekki um önnur réttarúrræði að ræða samkvæmt samningnum en að nefndinni er heimilt að gefa út opinbera yfirlýsingu um málið. Í þessum nýja samningi er ekki skilgreint hvað felst í því að sæta pyndingum eða ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Nefndinni sem sett er á stofn samkvæmt samningnum er ekki heldur ætlað að skilgreina þessi hugtök eða á annan hátt að tjá sig um það hvort hún telji að Mannréttindasáttmálinn hafi verið brotinn eða að túlka

þann samning eða aðra alþjóðasamninga. Hlutverk nefndarinnar er eins og áður sagði að heimsækja sem flesta staði í aðildarríkjunum þar sem frelsissviptir menn eru vistaðir og að kanna aðbúnað og meðferð þeirra á vettvangi. Nefndin á síðan að ræða við yfirvöld í hverju ríki og gagnvart þeim að leggja fram sínar tillögur um úrbætur. Með þessu kerfi er talið að hægt sé almennt að bæta stöðu frelsissviptra manna og að minnka líkur á að þeir sæti pyndingum, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.
    Eins og fram kemur í 17. gr. samningsins takmarkar þessi samningur ekki rétt manna til að kæra meðferð til mannréttindanefndar Evrópu. Samningur þessi hefur þegar verið fullgiltur af meiri hluta aðildarríkja Evrópuráðsins og gekk hann í gildi 1. febr. 1989. Utanrrh. mun á næstunni leggja fram þáltill. um að þessi Evrópusamningur um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði fullgiltur af Íslands hálfu og er þetta frv. lagt fram til að tryggja að íslensk stjórnvöld geti fullnægt skyldum samkvæmt honum. Aðallega er þar um að ræða að leyfa og sjá til þess að nefndin, sem sett er á fót skv. 1. gr. hans, hafi ótvíræðan rétt til að heimsækja fangelsi og aðra þá staði þar sem frelsissviptir menn eru vistaðir, svo sem sjúkrahús og meðferðarstofnanir. Nauðsynlegt þykir að ótvíræð ákvæði þar að lútandi séu tryggð í lögum. Jafnframt er nauðsynlegt að lögfesta ákvæði um friðhelgi nefndarmanna og aðstoðarmanna þeirra þar sem engin almenn lög eru í gildi þar að lútandi.
    Áður en frv. þetta var lagt fyrir Alþingi var þess óskað við heilbr.- og trmrn. að það tjáði sig um hvort það hefði athugasemdir við efni þess fram að færa. Engar slíkar athugasemdir hafa borist. Ég mun nú gera grein fyrir einstökum ákvæðum frv.
    Í 1. gr. er fjallað um gildissvið lagafrv. Ákvæði frv., verði það að lögum, gilda þannig ekki um önnur atriði en þau sem eru afleiðing af fullgildingu Íslands á þessum samningi Evrópuráðsins um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu frá 26. nóv. 1987.
    Í 2. gr. frv. kemur fram einn megintilgangur þess, þ.e. að tryggja nefnd þeirri sem stofnsett er með 1. gr. samningsins rétt til að heimsækja þá staði hér á landi þar sem frelsissviptir menn eru vistaðir. Þessir staðir eru fyrst og fremst afplánunarfangelsi, gæsluvarðhaldsfangelsi, fangageymslur lögreglu, sjúkrahús, þar með talin geðsjúkrahús, og aðrar stofnanir, t.d. meðferðarstofnanir, án tillits til þess hver á þær eða rekur, ef frelsissviptir menn eru þar vistaðir. Samkvæmt greininni eru þær takmarkanir á rétti til að heimsækja framangreinda staði að tilgangur heimsóknar sé að rannsaka hvernig meðferð frelsissviptur maður sætir og að nefndin hafi fyrir fram tilkynnt þá fyrirætlun sína að heimsækja tilgreinda staði hér á landi, sbr. 8. gr. samningsins.
    Í 3. gr. samningsins er lögð sú skylda á þá sem ábyrgð bera á eða eru í fyrirsvari fyrir stofnun þar sem frelsissviptur maður er vistaður að aðstoða nefndina með þeim hætti er greinir í 8. gr.

samningsins. Er þar fyrst og fremst um að ræða að veita nefndinni aðgang að þeim stöðum þar sem frelsissviptir menn eru vistaðir og rétt til ferða innan slíkra staða án hindrunar. Tekið skal fram að réttur til ferða innan staðar án hindrunar útilokar ekki að fulltrúi íslenskra yfirvalda fylgi nefndarmönnum. Í öðru lagi er ákvæði í greininni um að nefndin geti átt viðtöl í einrúmi við frelsissvipta menn og aðra sem veitt geta upplýsingar um meðferð þeirra. Rétt er að taka fram að hvorki frelsissviptum mönnum né öðrum er skylt að ræða við nefndina þótt hún óski þess, en nefndin hefur, sé viðtali í einrúmi hafnað, rétt til þess að ganga úr skugga um að frelsissviptur maður hafi hafnað viðtali af frjálsum vilja.
    Í þriðja lagi eru í greininni ákvæði um að nefndin fái aðgang að fyrirliggjandi upplýsingum um hvaða meðferð viðkomandi maður hafi fengið o.s.frv.
    Skv. 9. gr. samningsins geta þar til bær yfirvöld andmælt við nefndina tímasetningu heimsóknar ef sérstaklega stendur á og eru í greininni nánari skilgreiningar á því við hvaða aðstæður er miðað. Skv. greininni eru jafnframt ákvæði um að ef andmæli eru borin fram skuli fulltrúar viðkomandi ríkis og nefndin þegar taka upp viðræður um hvernig nefndin geti rækt störf sín ef tíma heimsóknar er andmælt og þar er nefndur sá möguleiki að frelsissviptur maður sé fluttur á annan stað til að nefndin geti heimsótt hann.
    Í 4. gr. frv. eru ákvæði um að ef sá sem ábyrgð ber á frelsissviptum manni eða er í fyrirsvari fyrir stofnun sem nefndin hyggst heimsækja hafi athugasemdir við tíma eða stað heimsóknar skuli hann þegar tilkynna það til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og að ráðuneytið taki síðan ákvörðun um hvort andmælum verður komið á framfæri við nefndina. Í 2. mgr. er jafnframt ákvæði um að ef á það reyni taki ráðuneytið ákvörðun um flutning á mönnum ef á þarf að halda til að nefndin geti rækt störf sín. Í 5. gr. frv. eru ákvæði um forréttindi og friðhelgi nefndarmanna og sérfræðinga er með þeim starfa. Ákvæði þessi eru í samræmi við 16. gr. samningsins og viðauka við hann en skv. þessum ákvæðum er aðildarríkjum skylt að veita þessum aðilum friðhelgi og tiltekin forréttindi.
    Þar sem engin almenn lög gilda hér á landi um friðhelgi og forréttindi erlendra sendimanna og annarra sem slíkra réttinda eiga að njóta er nauðsynlegt að lögfesta ákvæði þar að lútandi í samræmi við ákvæði áðurnefndra greina samningsins.
    Hæstv. forseti. Ég hef nú gert grein fyrir almennum forsendum þessa frv. sem hér er til umræðu vegna aðildar Íslands að Evrópusamningi um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu og einstökum ákvæðum þess. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frv. þessu verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.