Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns taka fram að ég er út af fyrir sig þakklátur fyrir það að þær kröfur mínar skuli hafa verið virtar að skattlagning á orkufyrirtæki er ekki tekin á dagskrá nú á þessum fundi. Er nauðsynlegt þegar það mál verður tekið fyrir núna eftir helgi að gera sérstaklega að umræðuefni framkomu hæstv. forseta í því máli við fundarstjórn í gær. Skal ég ekki gera það frekar að umræðuefni núna, en mér skilst að vilji standi til þess að ræða vinnubrögð í þinginu og annað sem því tengist, bæði í Ed. og Sþ. og skal ég ekki skorast undan því þegar ég tel að réttur tími sé til þess.
    Ég fór fram á það í gær að það frv. sem hér er til umræðu yrði tekið á dagskrá í réttri röð. Ég hef að vísu ekki séð dagskrána eins og hún lítur út í dag en ég geri mér vonir um að þingmál séu tekin fyrir í þeirri röð sem þau standa á dagskránni. ( Gripið fram í: Það hefur verið gert í þessu tilviki.) Er það auðvitað mjög til fyrirmyndar því það eru fleiri en ráðherrar sem eru bundnir og ánægjulegt ef hæstv. forseti tekur mark á þeim orðum sem sögð hafa verið um að bera sömu virðingu fyrir tíma þingmanna og einstakra ráðherra.
    Það mál sem hér er til umræðu er til breytingar á lögum um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga. Ég vil af þessu tilefni rifja upp að þegar lögum um eignarskattsauka var breytt, eignarskattsaukinn var á sínum tíma lögfestur vegna þess að meðan núverandi hæstv. menntmrh. gegndi stöðu húsnæðisráðherra var svo komið að erlend lán voru tekin til Byggingarsjóðs ríkisins og þá var einnig svo komið að erlend lán voru tekin til Lánasjóðs ísl. námsmanna. Til þess að snúa þeirri þróun við var sérstakur eignarskattsauki lögfestur og var gildistími hans takmarkaður. Fyrir forgöngu hæstv. þáv. menntmrh. Sverris Hermannssonar voru síðan lögin um eignarskattsaukann framlengd og hugmyndin að afraksturinn rynni til byggingar Þjóðarbókhlöðu. Þjóðarbókhlaðan var auðvitað
gjöf, talað var um að Þjóðarbókhlaðan væri gjöf þjóðarinnar til sjálfrar sín og var gjöfin samþykkt á hátíðarfundi á Þingvöllum 1974. Ekki hefur þó viljað betur til en svo að í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem hér sat á árunum 1980--1983, meðan hv. þm. Ragnar Arnalds var fjmrh., voru tekin erlend lán til þess að standa undir framkvæmdum við þjóðargjöfina. Erum við nú að greiða þau lán sem sú ríkisstjórn var svo rausnarleg að leggja til þessarar gjafar. Það má raunar segja að saga Þjóðarbókhlöðunnar sé í samræmi við þetta.
    Ef við lítum á ástandið eins og það er núna er gert ráð fyrir því samkvæmt fjárlögum að 300 millj. kr. lán verði tekið til --- ég má segja að fyrirbærið heiti Endurbótasjóður menningarstofnana, er það ekki rétt munað hjá mér? Þessi sjóður hefur verið settur á B-hluta til þess að hann sem stofnun geti tekið lán. Þó er svo um þessa sérstöku stofnun að tekjur hennar eru ekki aðrar en þeir fjármunir sem til hennar renna

í gegnum A-hluta ríkisreiknings. Þetta þýðir á mæltu máli að gegnum þennan sjóð er verið að falsa niðurstöður fjárlaga um 300 millj. kr. Samkvæmt niðurstöðum fjárlaga fyrir árið 1990 verður hallinn á ríkissjóði 3 milljarðar 686 millj. kr. en þegar tekið er tillit til þessa sérstaka sjóðs hækkar hallinn í raun um 300 millj. kr. Hér er því um orðalepp að ræða, millifærslu milli A- og B-hluta sem einungis er gerð til þess að falsa niðurstöður fjárlaga og er það eitt út af fyrir sig ómenningarlegt og vítavert. Auk þess renna í þennan sjóð 42 millj. vegna eignarskattsaukans. Af þessum 342 millj. kr. er ákveðið að verja 275 millj. kr. í Þjóðleikhús en í Þjóðarbókhlöðu eiga að fara 67 millj. kr. og auk þess 53 millj. kr. frá Háskóla Íslands með sérstökum samningi. Samtals 120 millj. kr. Nú stendur svo á að hinn 10. ágúst 1989 var haldinn fundur í samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir og þar kemur fram m.a. um Þjóðarbókhlöðu að á árinu 1989 hafi verið áformað að vinna fyrir 125 millj. kr. eða 35 millj. kr. umfram fjárveitingu fjárlaga. Jafnframt var greint frá þeirri stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að ákveðið væri að Þjóðarbókhlaðan yrði fullgerð innan fjögurra ára og með samþykkt 27. júlí sl. mun ríkisstjórnin hafa samþykkt eftirfarandi áætlun um fjármögnun byggingarinnar: Árið 1989 124 millj., 1990 242 millj., 1991 269 millj., 1992 368 millj. kr. Hér er sem sagt í þessari fundargerð fjallað um samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 27. júlí sl. um það að á árinu 1990 verði unnið fyrir 242 millj. kr.
    Nú er ég ekki nógu kunnugur því hvernig þessum málum hefur undið fram í einstökum atriðum og vil af því tilefni spyrja hæstv. menntmrh. hvort uppi séu hugmyndir um að brúa þetta bil sem ég er hér að tala um. Samkvæmt fjárlögum er gert ráð fyrir 120 millj. kr. til Þjóðarbókhlöðu á þessu ári en samkvæmt þeirri áætlun sem fyrir liggur og samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 27. júlí er gert ráð fyrir helmingi hærri fjárhæð eða 242 millj. kr. Ég vil líka í þessu samhengi spyrja hæstv. menntmrh. hvernig útboð standi vegna byggingarframkvæmda við Þjóðarbókhlöðu á þessu ári og spyrja um það hvort þar hafi verið farið eftir þeim áætlunum sem lagðar voru til grundvallar með stefnuyfirlýsingu og samþykkt ríkisstjórnarinnar og í samræmi við fund samstarfsnefndar um opinberar framkvæmdir hinn 10. ágúst 1989, og er ég þá
auðvitað bæði að tala um þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar voru á þessu ári og auk þess um tímasetningu á útboðum.
    Ég er með öðrum orðum að spyrja um það hvort einhver óvissa sé um það nú að hægt verði að halda áfram við Þjóðarbókhlöðuna eins og áður var búið að gefa fyrirheit um og raunar lofa. Raunasaga þessa húss er orðin nógu löng og ég vil líka taka það alveg sérstaklega fram að það er auðvitað ekki eðlilegt að taka ákveðinn flokk bygginga út úr hefðbundnum farvegi opinberra framkvæmda og skáskjóta þessum flokki þannig fram hjá við afgreiðslu Alþingis og fjvn. á fjárlögum þegar metið er hvar mest sé þörf á viðhaldi og endurbótum á einstökum húsum eða hvar

uppbygging sé brýnust. Ég er á hinn bóginn þeirrar skoðunar að um Þjóðarbókhlöðuna gegni sérstöku máli. Það er ekki vansalaust fyrir okkur Íslendinga að ekki skuli hafa verið staðið við þau fyrirheit sem gefin hafa verið í þessu efni, auðvitað í fyrsta lagi vegna þess að þetta var þjóðargjöf, og auðvitað eigum við þingmenn að sjá til þess að við séum menn til þess að standa við fyrirheitin um þjóðargjöfina, en líka vegna hins að þessi framkvæmd er mjög brýn. Gamla safnahúsið við Hverfisgötu þar sem ég lék mér drengur er fyrir löngu of lítið og ónógt til þeirra þarfa sem það var upphaflega byggt til þó að það væri auðvitað gert af miklum myndarskap.