Lánskjör og ávöxtun sparifjár
Miðvikudaginn 24. janúar 1990


     Pálmi Jónsson:
    Herra forseti. Við umræðu um þetta mál í gær kom það fram í máli ýmissa ræðumanna að það væri undrunarefni og aðfinnsluvert að enginn hæstv. ráðherra sæi sér fært að vera við umræðu um vaxtamál og ávöxtunarkjör sparifjár. Með tilliti til þessa frestaði hæstv. forseti umræðunni þangað til í dag í ljósi þess að þá kynni svo að vera að einhverjir hinna 11 hæstv. ráðherra í núv. ríkisstjórn gætu séð sér fært að vera hér viðstaddir og gegna sinni þingskyldu. Nú var hæstv. forsrh. hér fyrir skammri stundu og hann hefur án efa lesið þá dagskrá sem hér er verið að vinna eftir og ég hlýt að spyrjast fyrir um það hjá hæstv. forseta hvort hæstv. forsrh. eða aðrir úr hæstv. ríkisstjórn geti ekki séð sér fært að vera hér viðstaddir. ( Forseti: Ég vil taka það fram að það hefur þegar verið sendur sendiboði til þess að gera bæði hæstv. starfandi viðskrh., Jóni Baldvini Hannibalssyni, og hæstv. forsrh. Steingrími Hermannssyni grein fyrir því að þeirra er óskað hér í salinn og ég get þess vegna heimilað ræðumanni að gera hlé á ræðu sinni þar til þeir koma.) Ég þakka hæstv. forseta þessar upplýsingar en meðan þeir kynnu að vera á leið í salinn, þá vil ég þó segja það sem ekki er sérstakt erindi við þá hæstv. ráðherra að ég tel það virðingarvert af hv. 3. þm. Suðurl. að flytja þetta frv. nú í hið þriðja sinn. Með því er gerð merkileg tilraun til þess að koma nýrri skipan á ávöxtunarkjör og vexti af skuldum en það eru einmitt þessi mál, vaxtamál, skuldabyrði fyrirtækja og einstaklinga sem hafa ekki einungis orðið mikið umræðuefni í þjóðfélaginu nú á undanförnum árum heldur eru einnig, eins og fram hefur komið í þessari umræðu, svo þungbær hér á landi að er að sliga afkomu bæði fyrirtækja og einstaklinga. Þetta er því mjög virðingarverð tilraun af hálfu hv. þm. og þó að ég ætli ekki að fara að ræða hér frv. efnislega þá er það að ýmsu leyti athyglisvert þrátt fyrir það að í því séu sum atriði sem þarfnist a.m.k. nánari athugunar.
    Ég hefði svo kosið að geta snúið mér að því að ræða þessi mál nokkuð almennt, en vildi gjarnan fá fregnir af því hvort hæstv. ráðherrar kunni að vera á leiðinni. --- Gengur nú starfandi hæstv. viðskrh. í salinn og er honum að sjálfsögðu fagnað af þeim sem hér stendur. Við erum hér að ræða, hæstv. ráðherra, frv. til laga um lánskjör og ávöxtun sparifjár sem flutt er af hv. 3. þm. Suðurl. Eggert Haukdal.
    Ég hef lokið við að víkja örfáum orðum að frv. sjálfu en í gærdag fóru hér fram umræður sem voru mjög athyglisverðar og hefði verið mikil þörf á því að hæstv. ráðherra gæfi sér tóm til að vera viðstaddur til að hlýða á þær. Ég vitna þar sérstaklega til ræðu hv. 3. þm. Norðurl. e. Árna Gunnarssonar, hæstv. forseta þessarar deildar. Þar flutti hann mjög skarpa ræðu og skilmerkilega, ræðu sem ég get í flestum greinum tekið undir. Hann sagði þar m.a. eins og ég hafði punktað það eftir honum nokkurn veginn orðrétt að vaxtakjör og vaxtabyrði væri svo alvarleg og þrúgandi í þessu þjóðfélagi að helför íslenskra fyrirtækja væri

afleiðing af hömlulausum vaxtakostnaði. Hann sagði einnig að af þessum sökum væri atvinnureksturinn blóðmjólkaður. Með þessum hætti hefði eigin fé fyrirtækja í landinu verið stolið og við værum nú að upplifa byggðaröskun sem væri alvarlegri en nokkru sinni áður. Einnig væri stolið eignum ungs fólks sem væri að brjótast í því að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Allt væri þetta afleiðing af því hvað fjármagnskostnaðurinn væri gífurlegur í landinu, hvað vaxtakostnaðurinn væri hár og skuldabyrðin af þeim sökum væri svo hraðvaxandi sem raun ber vitni.
    Hv. þm., hæstv. forseti þessarar deildar, vék í sínu máli, sem var eins og áður sagði bæði glöggt og skilmerkilegt, að því að því væri gjarnan haldið fram að þessi staða væri vegna þess að fyrirtæki og einstaklingar hefðu reist sér hurðarás um öxl með offjárfestingu. Það er vissulega í sumum tilvikum rétt en hvergi nærri fullnægjandi skýring á því hversu þessi kostnaður í rekstri fyrirtækja og heimila, einstaklinganna, er gífurlega alvarlegur og þungbær.
    Nú er þessi ræða hæstv. forseta deildarinnar, sem ég tel að hafi lýst ástandinu með skörpum og sannferðugum orðum, mjög á annan veg heldur en þær yfirlýsingar sem hæstv. ríkisstjórn hefur verið að gefa á undanförnum vikum og mánuðum þegar hún hefur verið að lýsa því að náð hefði verið nýjum grundvelli í efnahagslífi landsmanna, nýjum grundvelli í atvinnurekstrinum og atvinnumálum landsmanna, í rekstri heimila, jafnvel nýjum grundvelli í vaxtamálum, eins og hæstv. fjmrh. hefur tekið til orða. E.t.v. er skýrast að vitna til þess sem var aðalatriði í nýársboðskap hæstv. forsrh., að nú væri þeim árangri náð í starfi ríkisstjórnarinnar að björgunarstarfi hennar væri lokið. Nú væri lokið björgunarstarfi hæstv. ríkisstjórnar í atvinnumálum landsmanna. Atvinnuvegirnir væru komnir á þann grundvöll að björgunarstarfið þyrfti ekki lengur að halda áfram.
    Þetta er nú eitthvað annað heldur en fram kom í máli hæstv. forseta þessarar deildar í gær. Þetta er eitthvað annað heldur en það sem við okkur blasir sem eigum tal við forsvarsmenn fyrirtækja, ýmsa einkaaðila, einstaklinga, ungt fólk og annað fólk sem er að sligast undan fjármagnsbyrðinni og er að leiða
til byggðaröskunar sem er með þeim hætti að heil byggðarlög eru í hættu og vandséð, ef ekki verður breyting á í afkomu undirstöðugreina atvinnulífsins hvort hægt verður að koma í veg fyrir að þau byggðarlög leggist í rúst. Þessi lýsing og lýsing hæstv. ráðherra í ríkisstjórninni, er því með allt öðrum og gagnstæðum hætti.
    Mér dettur ekki í hug að fara hér að gera neitt lítið úr máli hv. 3. þm. Norðurl. e. með því að segja það að hjá honum séu hæg heimatökin vegna þess að í hans flokki sé hæstv. viðskrh. og hann eigi aðild að ríkisstjórn. Þessi hv. þm., hæstv. forseti, skýrði það fullvel að til þess að koma fram breytingum þurfi meiri hluta og sá meiri hluti er ekki fyrir hendi í stjórnarherbúðunum. Það er þetta sem er hið alvarlega við starf þessarar hæstv. ríkisstjórnar sem enn situr að þrátt fyrir það að einstakir þingmenn stjórnarliðsins

komi auga á þá stöðu sem við er að fást í atvinnumálum landsmanna, í efnahagslífi fyrirtækja, einstaklinga og þjóðarinnar í heild, þá er þar ekki meiri hluti, ekki vilji forráðamannanna, forustumannanna til þess að taka á málum með þeim hætti að úr megi rakna. Og svo koma menn eins og hæstv. forsrh. í nýársávarpi og segja að björgunarstarfi hæstv. ríkisstjórnar sé lokið. Það sé ekki þörf á neinum slíkum aðgerðum lengur.
    Ég veit ekki af hvaða hvötum slík orð eru sögð. Maður gæti kannski sagt að það væri vegna ókunnugleika og væri þá verið að gera skóna þeim orsökum sem kannski væru vægilegastar fyrir hæstv. ríkisstjórn eða hæstv. forsrh. En þetta getur nú tæpast verið. Hér er auðvitað verið að fara með hreinar blekkingar gegn betri vitund sem þýða það, ef eitthvað er að marka þessar yfirlýsingar, að hæstv. ríkisstjórn hefur gefist upp við það að koma fram einhverjum aðgerðum sem leysa þann vanda sem við er að fást. Ella væri það ekki satt að aðgerðum væri lokið, hvort sem það kallast björgunaraðgerðir eða eitthvað annað. Ég er ekki sérstaklega að beina þessum lestri mínum að hæstv. starfandi viðskrh. sem nú hefur verið löngum stundum erlendis að fást við önnur mál þó að hann sé hér staðgengill hæstv. viðskrh., en hann er þó sá hinn eini hæstv. ráðherra sem hér kemur til þess að hlýða á mál mitt og annarra þeirra sem hér tala, þannig að honum hlýt ég að flytja þessi orð. Það hefur hvað eftir annað verið sagt á undanförnum vikum og undanförnum mánuðum að ríkisstjórnin væri að ná miklum árangri í þeirri stefnu sinni að lækka vexti. Raunvextir færu lækkandi.
    Ég tók eftir því í grg. frv. að þar er eins og hv. flm. hafi aðeins smitast af þessum yfirlýsingum hæstv. ríkisstjórnar og hæstv. ráðherra. Í grg. segir, með leyfi forseta: ,,Þó er það staðreynd að síðan frv. var lagt fram hefur verið að nokkru unnið samkvæmt því, þ.e. reynt að lækka vextina.`` --- Það segir ,,reynt að lækka vextina``. Það er þó ekki sagt annað. Vextir hafa hins vegar ekki lækkað heldur hið gagnstæða.
    Fyrir jól fékk ég þær upplýsingar hjá Þjóðhagsstofnun að raunvextir væru að meðaltali á árinu 1989 tvöfalt hærri en á árinu 1987. Tvöfalt hærri. Þetta var yfirlýsing Þjóðhagsstofnunar. Ég held að ýmsum hafi þótt þessi yfirlýsing Þjóðhagsstofnunar brjóta nokkuð í bága við yfirlýsingar hæstv. ráðherra margra hverra. En ég hef aðeins litið eftir því hvert vaxtastigið er nú og hirt m.a. Fréttabréf um verðbréfaviðskipti sem gefið er út af verðbréfaviðskiptum Samvinnubankans. Þar sést að raunvextir hafa verið ákaflega sveiflukenndir og breytilegir á síðasta ári og jafnvel farið niður í það að vera neikvæðir, t.d. á óverðtryggðum skuldabréfum. En raunvextir komust upp í það til að mynda 1. ágúst að vera 26,6% af óverðtryggðum skuldabréfum. Og þeir voru mánuði síðar eða 1. sept. 22% samkvæmt þeim upplýsingum sem gefnar eru í þessu fréttabréfi. Í árslokin höfðu þeir að vísu nokkuð lækkað frá þessum hrikalegu tölum en voru samt 15,6% af óverðtryggðum skuldabréfum og voru að meðaltali

síðari hluta ársins 13,4%, raunvextir. Nafnvextir voru á þessu tímabili um og yfir 30%, upp í 35%. Ofan á þetta bætist það sem ýmis fyrirtæki og ýmsir aðilar verða að sæta sem eru dráttarvextir. Í árslokin var raunávöxtun dráttarvaxta 21,7% ofan á 15,6% raunvexti af óverðtryggðum skuldabréfum.
    Ég talaði við forstöðumann fyrirtækis eins úti á landi sem ég talaði við hefur einnig gefið mér upplýsingar. Hann hefur verið að berjast við að laga reksturinn í sínu fyrirtæki, stóru fyrirtæki, og náð þar verulegum árangri þótt hætt sé við að þar sé enn um alvarlegan halla að ræða. Hann hefur sagt mér að tal einstakra hæstv. ráðherra um lækkun á raunvöxtum sé gjörsamlega tal út í bláinn, talað út í vindinn. Og hann hefur haft um það miklu sterkari orð. Hann segir mér að nú í ársbyrjun séu þeir raunvextir, sem hann og hans fyrirtæki þarf að sætta sig við, til að mynda á skuldabréfaviðskiptum og yfirdráttarheimildum, um 15--20% eftir einstökum lánastofnunum. Þetta eru þau kjör sem fyrirtækin í landinu þurfa að sætta sig við. Það er því allt önnur saga sem hér er sögð samkvæmt þessum upplýsingum sem ég hef hér sumpart lesið skjalfest, sumpart flutt eftir forstöðumanni fyrirtækis sem grannt þekkir þessi mál, heldur en yfirlýsingar hæstv. ríkisstjórnar gefa tilefni til.
    Það er með þetta eins og sumt annað hjá þessari hæstv. ríkisstjórn að þegar hún lýsir yfir að t.d. vextir séu að lækka, þá eru þeir að hækka. Þegar hún
lýsir því yfir að skattar séu að lækka, þá eru skattarnir að hækka o.s.frv. Það er eins og yfirlýsingar hennar séu í rauninni öfugar við það sem raunveruleikinn segir í mörgum tilvikum. Svo er það einnig um þá hástemmdu yfirlýsingu hæstv. forsrh. frá því á gamlárskvöld að hagsmunir atvinnuveganna og atvinnufyrirtækjanna í landinu væru komnir í það horf að björgunaraðgerðum ríkisstjórnarinnar væri lokið, þeirra þyrfti ekki lengur við. Þetta var gleðiboðskapur hæstv. ráðherra til þjóðarinnar í hans nýársávarpi og það var sannarlega gleðiboðskapur ef þetta hefði verið satt. Því miður var þetta ekki sannleikanum samkvæmt.
    Það er þessi staða sem er að kollkeyra þetta þjóðfélag, þessi staða fyrirtækjanna í landinu sem sumpart stafar af gífurlegum vaxtakostnaði, sumpart af því að að öðru leyti hefur hæstv. ríkisstjórn ekki náð að koma við þeim aðgerðum sem nauðsynlegar eru til að veita þessum fyrirtækjum starfsskilyrði. Og í sama mund hafa opinberar álögur á fyrirtækin vaxið og allt leiðir þetta til þess að við stöndum nú frammi fyrir því sem hæstv. forseti þessarar deildar kallaði í gær mestu byggðaröskun frá öndverðu.
    Þannig er hætt við að fari þegar ríkisstjórn situr sem ekki grípur til þeirra ráðstafana sem nauðsynlegar eru til þess að undirstöðuatvinnuvegir þjóðarinnar geti starfað og er með sífelldar yfirlýsingar um það að þetta og hitt í efnahagsstarfseminni sé komið í svo gott horf að meiri aðgerða sé ekki þörf, þar á meðal vaxtastigið.
    Ég vildi þess vegna beina því til hæstv. starfandi viðskrh. að ef ekki verður breyting á í þessum efnum,

þá held ég að hann hljóti að sjá, eins og við allir hinir, að þessi hæstv. ríkisstjórn gerði best í því að fara frá. Ef hún hefur raunverulega gefist upp, eins og lesa mátti út úr nýársorðum hæstv. forsrh., þá er það auðvitað best að hún fari frá. En vil þó um leið beina því til hæstv. ráðherra að beita sér fyrir því innan sinnar ríkisstjórnar að hæstv. ríkisstjórn hætti því að gefa út yfirlýsingar sem í sífellu hafa verið gefnar út og ekki eru sannleikanum samkvæmar, heldur taki hún upp þá hætti að þora að horfast í augu við raunveruleikann og þora að segja þjóðinni sannleikann um hvernig ástandið er. Þá væru þeir ráðherrar þó menn að meiri þó þeir hefðu gefist upp við það að finna ráð til þess að bæta úr ástandinu.
    Hæstv. starfandi viðskrh., hæstv. utanrrh., sem eins og ég sagði áðan hefur á síðustu mánuðum verið löngum stundum erlendis og ekki haft mikið tóm til þess að fást við þessi mál, gæti byrjað á því að hafa þetta sem sinn boðskap í þeirri ferð sem hann er nú að leggja upp í um landið, í nýju ljósi, þannig að þjóðin fái þá að sjá í nýju ljósi þá hæstv. ráðherra Jón Baldvin Hannibalsson og Ólaf Ragnar Grímsson, þannig að þeir þori þá að segja sannleikann um það hvernig ástandið er en vera ekki með sífelldar glansmyndir og blekkingar. Þá væru þeir menn að meiri. Ég hvet hæstv. ráðherra til þess að halda þannig á máli sínu.
    Ég held að það sé ekki ástæða til fyrir mig að hafa þessi orð fleiri. Ég tel það mjög miður að hæstv. viðskrh., sem ég virði þó fyrir að hann skuli vera hér við þessa umræðu nú í dag, ég tel það miður að hann skyldi ekki geta verið við hér í gær og hlýtt á þær merku umræður sem þá fóru fram en það haggar ekki því að það er þó örlítill vottur um lífsmark hjá hæstv. ríkisstjórn að einn hæstv. ráðherra af 11 skuli sjá sér fært að vera við þessa umræðu í dag.