Lánskjör og ávöxtun sparifjár
Miðvikudaginn 24. janúar 1990


     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Ég var búinn að ræða lauslega um þetta frv. í gær en ætlaði nú að brýna hér aðeins á nokkrum atriðum af því að einn af þeim hæstv. ráðherrum er hér viðstaddur og hefði ég óskað eftir því að hæstv. forsrh., sem aðaltalsmaður um vexti og fjármálakostnað, ætti að geta látið svo lítið að vera hér þegar verið er að ræða þetta hans hjartans mál. Ég verð að spyrja hæstv. forseta hvort það sé ekki mögulegt að bæta úr því. ( Forseti: Það mun hafa verið gert samkomulag hér fyrr á fundinum milli aðalforseta deildarinnar og forsrh. um að forsrh. þyrfti ekki að vera hér. Hann hefur öðrum hnöppum að hneppa sem stendur. Hins vegar er starfandi viðskrh. mættur og ég vænti þess að það fullnægi óskum ræðumanns.) Það verður víst svo að vera.
    Út af orðum síðasta ræðumanns, hv. 3. þm. Norðurl. e. og forseta þessarar hv. deildar, verð ég að segja það að margt af því sem hann kom inn á er alveg rétt. Vextir eru mikill örlagavaldur fyrir íslenskt atvinnulíf. En er það bara vöxtunum að kenna? Af hverju eru vextirnir svona háir? Er ekki kominn tími til þess að fara að ræða það og vera ekki að hoppa alltaf í kringum tréð þegar efnahagsmál eru hér til umræðu og tala um að allt sé vöxtunum að kenna? Er það ekki frekar efnahagsstjórnin sem hefur áhrif á vextina og stjórn ríkisfjármála, stjórnun peningamála? Auðvitað hefur hún bein áhrif á vexti.
    Hv. þm. talaði um það að taka skatta út úr vísitölunni til þess að lækka vexti, alla þessa skatta sem þeir hafa dengt yfir þjóðina sl. tvö ár. Nú á að fara að taka afleiðingarnar út úr kerfinu. Ég verð nú að segja það --- og óska ég þess nú mikið að verðbólga og peningaleg óstjórn í landinu geti komist í vitrænt horf --- en ná menn árangri ef menn keyra á 100 km hraða með því að skipta um spjald í hraðamælinum, setja bara míluskala og skrifa km? Er það árangur? Hefur bíllinn eitthvað hægt ferðina? ( ÞP: Sumir hafa náð árangri þannig.) Og stefnt að því að afnema vísitölukerfið eins fljótt og unnt er, var
hv. 3. þm. Norðurl. e. að segja að stæði í stjórnarsáttmála núv. ríkisstjórnar. Stefnt að því sem sagt að taka hraðamælinn úr sambandi svo að enginn sjái á hvílíkri ógnarfart þessir menn eru að keyra. Það þarf engan hraðamæli. Þá geta menn bara ákveðið sjálfir hvaða hraða þeir eru á. ( Utanrrh.: Það eru náttúrlega aðrar þjóðir sem ekki hafa vísitölutryggingu og engan hraðamæli.) Þær hafa frjálst efnahagslíf og frjálsa vexti, frjáls gjaldeyrisviðskipti sem er hinn raunverulegi mælikvarði, þá eru þeir borgarar sem skipta við markaðinn. Þeir eru nokkurs konar kviðdómur á efnahagsstjórn í viðkomandi landi. Það er akkúrat það sem vantar hér. Það vantar svoleiðis kviðdóm. Það vantar frjálsa gjaldeyrisverslun til þess að kveða upp úr um efnahagsstjórn þessarar ríkisstjórnar. Þá kæmi sannleikurinn í ljós og það væri nú óþægilegt fyrir einhvern ef sannleikurinn kæmi nú allt í einu í ljós, t.d. á morgun. Hvað mundu þessir háu herrar geta gert annað en að segja af sér í

hvellinum? Þá kæmist upp um strákinn Tuma. Þess vegna vilja sjálfstæðismenn gefa gjaldeyrisverslunina frjálsa svo framkvæmdarvaldið komist ekki upp með að blóðmjólka íslenska atvinnuvegi í gegnum falska gengisskráningu. Þá segja þessir háu herrar: Við viljum enga gengiskollsteypu. Það má ekki skrá gjaldmiðilinn í samræmi við seðlaprentunina á hverjum tíma. Það á líka að fela það. Ég held einmitt að tími sé kominn til þess, eins og ég sagði áðan, að hætta að hoppa í kringum tréð og fara að tala á mannamáli um þessa hluti.
    Það er alveg rétt að fjármagnskostnaður, sem afleiðing af peningalegri óstjórn, fer illa með íslenska atvinnuvegi og unga fólkið sem er að byggja. En eins og ég sagði áðan, við læknum ekkert hjá þessu fólki með því að kippa hraðamælinum úr sambandi eða skipta um spjald. Það er sjálfsblekking og blekking gagnvart öðrum og ekkert annað. Og ætla menn að fara að ráðast aftur á eldra fólkið, á spariféð? Einu sinni var sú tíð að milljarðar voru millifærðir með dulbúnum hætti frá sparifjáreigendum yfir til einhverra annarra. Nú hin síðari ár hafa milljarðar flogið úr undirstöðuatvinnuvegum landsmanna yfir til einhverra annarra. Vegna hvers? Vegna þess að okkur vantar hér frjálsa gjaldeyrisverslun til þess að þeir sem skipta með gjaldeyri geti fylgst með efnahagsstjórn og seðlaprentun og ákveðið verðgildi gjaldmiðilsins í samræmi við það. Það er ekki flóknara en svo. Það er spurning hvort ekki væri hægt að senda hæstv. ráðherra á námskeið í peningastjórn hjá Alþjóðabankanum. ( Gripið fram í: Sumir hafa verið þar.) Og virðast ekki hafa lært mikið. Það er allsvakalegt að hafa orðið vitni að því núna sl. tvö haust að menn tala um að bjarga atvinnuvegunum og geta svo ekki gert annað en að hækka skatta á atvinnuvegina. Lána þeim meiri pening til þess að plata sjálfa sig og aðra. Lána þeim erlendan gjaldmiðil á kolvitlausu gengi og prenta seðla fyrir þessum sömu erlendu lánum sem er nákvæmlega eins og að dæla vatni inn í gufuketil og halda að þrýstingurinn hækki ekki. Við erum því miður bara komnir hálft skref í áttina að frjálsu efnahagsfyrirkomulagi með því að hafa vextina frjálsa. Þannig sjáum við hver hin peningalega óstjórn er á hverjum tíma, svo ekki sé hægt að stela peningum af gamla fólkinu, því eldra fólk á stærstan hluta sparifjár og hinn almenni launþegi. Hvað var t.d. fyrsta verk þessara
hæstv. ráðherra árið 1988? Það var að taka stórkostleg erlend lán og lána þessum fyrirtækjum, sem áttu erfitt, á kolröngu gengi. Svo kom árið 1989 og menn neyddust til þess smám saman að viðurkenna eigin seðlaprentun og þá fengu fyrirtækin allt framan í sig, og eigið fé hálfu minna en áður. Þetta voru nú gjafirnar. Og hver er sínum gjöfum líkastur. Það er ekki hægt að færa, hvorki unga fólkinu, undirstöðufyrirtækjunum né öðrum neitt betra en heilbrigða efnahagsstjórn. Menn tala hér um fjöldagjaldþrot og hrun og vilja svo ekki sjá hvað hefur verið að gerast í kringum þá. Það sást skilti í sjónvarpinu þegar frjálsræði var að aukast í

Austur-Berlín seint á síðasta ári og á skiltinu stóð: Öreigar allra landa, afsakið. Karl Marx. Mér hefur dottið í hug hvort hæstv. forsrh. þyrfti ekki að koma sér upp einhverju skilti þar sem stæði ,,Undirstöðuatvinnuvegir, afsakið. Steingrímur.``
    Einhvern tímann var talað um tékkneska gátu sem var svo: Hvað er þriggja kílómetra langt og borðar kál? --- Það er biðröð við tékkneska kjötverslun. En hvað er það á Íslandi sem er hálfgjaldþrota og þiggur lán? Það eru fórnarlömb sósíalisma á Íslandi. Því þetta handstýrða og miðstýrða kerfi er sósíalískt og það er það sem þarf að laga, fyrr fer efnahagslífið ekki að lagast.
    Það er ekki hlutverk ríkisstjórnar, framkvæmdarvalds og löggjafarvalds að vera með atvinnulífið allt saman í einhverjum öndunarvélum og gjörgæsludeildum einhverra sjóða. Þykjast vera að redda hinu og þessu og sprauta bara í það meira morfíni í formi lánsfjár.
    Ég er sammála markmiði þessa frv. sem hér er lagt fram um stöðugleika og jafnvægi í efnahagsmálum, en þetta er bara ekki svona einfalt. Eigum við ekki að fara að skoða seðlaprentun framkvæmdarvaldsins umfram heimildir á fjárlögum ár eftir ár? Hvað ætli seðlaprentunin hafi verið mikil árið 1988 eftir að þessi hæstv. ríkisstjórn tók við eða fyrrv. ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar? Hvað skyldi það hafa verið mikil seðlaprentun?
    Ég vil spyrja þann hæstv. ráðherra sem hér er staddur fyrir hönd þessarar stjórnar: Hver er ábyrgur fyrir þessari seðlaprentun? Hvern telur hann vera ábyrgan fyrir því að prenta seðla fyrir erlendum lánum og finna út gjaldmiðil landsins og segja síðan: Við viljum enga gengiskollsteypu? Verður ekki gjaldmiðillinn alltaf að vera verðlagður í samræmi við prentunina? Annað er bara þjófnaður á fé undirstöðufyrirtækja, þannig gerast þessir hlutir. Hver er ábyrgur fyrir seðlaprentuninni? Hvaða hæstv. ráðherra er stjórnarfarslega ábyrgur fyrir seðlaprentuninni? Og ef ráðherra má vera ábyrgur fyrir því að prenta seðla, má þá ekki bara Jón Jónsson úti í bæ prenta líka? Það er líka spurning, má koma upp peningaprentvél í hverjum landshluta í jafni jafnréttis og félagshyggju? Mundi það leysa einhvern vanda?
    Ég óska þess að fá svar við því, í fyrsta lagi: Eigum við ekki að fara að ræða þessa seðlaprentun í alvöru, tala hreint út um þessa hluti? Og: Hvaða ráðherra er ábyrgur fyrir þessari seðlaprentun? Ég geri nú ekki ráð fyrir að hægt sé að svara því hvað hún var mikil haustið 1988 og 1989. Þetta er upp á marga milljarða. Svo eru menn að gera stóra og mikla hluti og leggja fram fjáraukalög sem eru öll fjármögnuð með erlendu lánsfé meira og minna og seðlaprentun.
    Ég held að það þurfi að endurskoða samskipti löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og löggjafarvaldið þurfi að fara að stíga á tærnar á framkvæmdarvaldinu, a.m.k. hvað varðar seðlaprentun.