Lánskjör og ávöxtun sparifjár
Miðvikudaginn 24. janúar 1990


     Alexander Stefánsson:
    Herra forseti. Ég gat því miður ekki verið hér við umræður í gær en varðandi það frv. sem hér liggur fyrir frá hv. 3. þm. Suðurl. vil ég segja að ég tel þá viðleitni virðingarverða sem hv. þm. sýnir þing eftir þing í sambandi við þessi mikilvægu mál, þ.e. lánskjör og ávöxtun sparifjár. Margt er jákvætt í þessu frv. sem ég get tekið undir. Hins vegar eru því miður nokkur atriði sem eru vafasöm og gera það að verkum að breyta þarf frv. til þess að ég gæti sýnt því stuðning í heild.
    Ég ætla ekki að ræða þetta efnislega hér af því að ég gat ekki verið við 1. umr. málsins. En ég vil aðeins geta þess að þetta er vissulega eitt af stærri og þýðingarmeiri málum í sambandi við efnahagsástandið og þá stefnu sem við gerum ráð fyrir að sú ríkisstjórn sem nú er við völd í landinu eigi að ná fram. Ég get vitnað í stjórnarsáttmálann eins og hér er gert raunar í grg. með þessu frv. sem gerir ráð fyrir ákveðnum aðgerðum að því er þessi mál varðar, þ.e. að koma í veg fyrir víxlhækkanir verðlags og lánskjara. Og við vitum að vaxtamálin eru þar viðamest.
    Ég vil aðeins geta þess hér, af því að ég er kominn í þennan ræðustól, að á vegum Framsfl. hefur verið mjög mikið fjallað um þessi mál sem við erum sammála um að séu þýðingarmestu málin í efnahagskerfi þjóðarinnar í dag. Er allt of lengi búið að ganga á öfugan veg miðað við það sem hefði verið eðlilegt að stefnan væri á hverjum tíma. Við vorum skipaðir, nokkrir þingmenn, í efnahagsnefnd flokksins og skiluðum ítarlegu áliti. Við færðum rök fyrir því að við Íslendingar erum á tímamótum og það er kominn tími til að stokka upp þá efnahagsstefnu sem hér hefur verið fylgt í áraraðir og allir vita hvernig niðurstaðan hefur verið. Það hefur verið vítahringur sem hefur alltaf endað á sama veg, þjóðin hefur staðið frammi fyrir efnahagsvanda sem var ekki hægt
að leysa og er ekki hægt að leysa nema með gífurlegum álögum og kollsteypum sem hafa raunverulega aldrei verið teknar þeim tökum sem þurft hefði vegna þess að sama sagan hefur alltaf endurtekið sig ár eftir ár.
    Í þessum efnahagstillögum gerum við mjög róttækar tillögur um nýjar leiðir í sambandi við fjármagnið og meðferð fjármagns og þar með vexti og allt sem þeim fylgir. Við gerum mjög ítarlegar og ákveðnar tillögur um meðferð peningamála. Við leggjum til að vísitölubinding verði afnumin og verðtrygging krónunnar, miðað við lánskjaravísitölu eða aðrar vísitölur, verði bönnuð. Hins vegar viljum við að lögleiddur verði réttur til að endursemja um eldri lánasamninga í sambandi við þessi mál. Við teljum að aðalforsendur fyrir heilbrigðu lífi í landi okkar sé að verðbólga verði svipuð og ekki meiri en í helstu viðskipta- og samkeppnislöndum þjóðarinnar. Við viljum að gjaldmiðillinn sé skráður á sem réttustu gengi á hverjum tíma. Við teljum að fjármagnsmarkaður verði að vera samkeppnishæfur við það sem gerist í viðskiptalöndunum í kringum okkur

og við teljum að vextir verði að lækka og vísitölur aflagðar.
    Það er alveg ljóst að þetta eru í raun og veru aðalatriðin í þeim átökum sem nú fara fram og ég hlýt að undirstrika það, fyrst ég er á annað borð kominn upp í ræðustól, að þetta er eitt af því sem er til umræðu í þingflokki Framsfl. núna, bæði á síðustu mánuðum og er enn. Við viðurkennum það að verðbólga og röng gengisskráning og okurvextir og óarðbærar fjárfestingar, ásamt miklum halla á ríkissjóði, hafa skekkt undirstöðu atvinnulífsins þannig að ekki dugi annað en róttækar aðgerðir til þess að vinna sig upp úr þessu.
    Menn hljóta að fagna þeirri viðhorfsbreytingu sem orðið hefur hjá aðilum vinnumarkaðarins og kemur fram í viðræðum þeim sem þessir aðilar hafa átt í og eiga nú í, bæði á undanförnum vikum og nú á þessum dögum. Það verður að fagna því að menn vilja fara hér nýjar leiðir. Það er málið. Þess vegna hlýtur það að valda miklum vonbrigðum, svo ekki sé meira sagt, að áform sem eru í öllu þessu dæmi um það að sameina bankakerfið, eða stærri heildir. Til hvers? Til þess að ná betri tökum á þessum málum og til þess að lækka kostnaðinn, kostnaðinn fyrir atvinnureksturinn, kostnaðinn fyrir einstaklingana með því að stórar heildir hljóti að verða reknar á hagkvæmari hátt en minni. Þess vegna er það sorglegt, ég held að óhætt sé að nefna það því nafni, að núna skuli birtast fréttir og auglýsingar frá sameiningu fjögurra banka í einn og árangurinn er sá að þessi banki gengur á undan með hækkun vaxta á sama tíma og allir viðurkenna að við stöndum á viðkvæmasta punkti í efnahagsumræðunni, þ.e. í sambandi við þær kjaraumræður sem nú fara fram. Þetta finnst mér alvarleg staðreynd sem hlýtur að kalla fram þá skoðun að það er ekki út í bláinn þegar menn hafa haldið því fram að bankakerfið og verðbréfakerfið í landinu, sem hefur átt að þróast á jákvæðan hátt ef rétt er að stefnt, hafi slík kverkatök á þróun vaxta og fjármagnskostnaðar í landinu sem raun ber vitni. Þess vegna er það náttúrlega alveg ljóst að Alþingi með ríkisstjórn í fararbroddi verður að gera atlögu gegn þessari þróun. ( Gripið fram í: Hvað með prentunina?) Og það þýðir ekkert annað en að taka það í alvöru. ( Gripið fram í: Hvað með seðlaprentunina?) Þegar ég tala um bankakerfið þá tala ég auðvitað einnig um Seðlabankann og yfirstjórn þessara mála. Hún er ekki eins og hún þarf að vera.
Ég þarf ekkert að eyða tímanum í að ræða það hér frekar því allir þeir sem hér eru inni eiga að vera það upplýstir að þeir viti hvað um er að ræða. Og ég verð að segja það, fyrst starfandi viðskrh. er hér í salnum eða í húsinu alla vega, að það er kominn tími til að þeir menn sem hafa yfirstjórn peningamála í landinu, þeir ráðherrar, ef við tölum um þetta fjölskipaða vald sem ríkisstjórnin virðist vera, að alveg er óhætt að ætlast til þess og gera þá kröfu að þeir hafi forystu um það að átta sig á því að hér er ekkert lítið alvörumál á ferðum. Hér er grundvallaratriði, eins og raunar hefur komið hér fram áður, það er

grundvallaratriði í efnahagsmálunum, í atvinnumálunum, fyrir atvinnureksturinn í landinu og fyrir heimilin í landinu. Og þess vegna, af því að ég tók þá ákvörðun að koma hér aðeins inn í þessar umræður, fyrst og fremst til þess að gefa 3. þm. Suðurl. hrós fyrir viðleitni hans í erfiðri stöðu á undanförnum þingum, tel ég ástæðu til að undirstrika þörfina á því að ríkisstjórn og Alþingi fari að átta sig á því að ekki þýðir lengur að fara þær leiðir sem áður hafa verið farnar, hvort sem íhaldsmenn, framsóknarmenn, kratar eða kommar eru við stjórn, það hefur alltaf mistekist. Þar af leiðandi er a.m.k. ástæða til að taka tillit til þeirra stefnubreytinga sem hafa orðið í viðræðum aðila vinnumarkaðarins og átta sig á opinberum aðgerðum sem þarf að gera til þess að árangur geti orðið af þeirri niðurstöðu sem þar verður tekin. Það ætti að vera hægt að hugsa sér að möguleikar verði á að ná nýjum tökum á efnahagsstjórninni almennt og þessum aðalatriðum sem eru vextir og fjármagnskostnaður. Hver einasti aðili í landinu gerir sér grein fyrir hvernig þau mál standa í dag og það verður að vera aðalatriði fyrir bankamálaráðherra, hver sem hann er á hverjum tíma og ekki síst núna þegar búið er að gera svona átak í sameiningu bankakerfisins, að bankarnir verði látnir starfa með eðlilegum hætti svo þeir komi a.m.k. ekki í veg fyrir jákvæða þróun að þessu leyti til og að við getum nálgumst það markmið að hér sé viðskiptaástand á sama veg og er í helstu viðskiptalöndum okkar. Það ætti að vera auðvelt mál.