Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hæstv. forseti. Það er spurt í fyrsta lagi hvaða landsvæði það séu á Austurlandi þar sem skilyrði fyrir notkun farsíma eru ekki fyrir hendi. Svarið er að það er Borgarfjörður, ákveðin svæði upp af Vopnafirði, Jökuldalur að hluta til, innri hluti Skriðdals og síðan svæði inni á öræfum Austurlands. Auk þess eru til lítil svæði og stuttir vegarkaflar þar sem samband er óöruggt eins og víða gerist, en oft þarf ekki að færa sig um set nema stutta vegalengd frá slíkum ,,dauðum blettum`` til þess að menn nái sambandi. Þetta þekkja þeir sem ekið hafa um og reynt hafa að nota farsímana. Vegna landfræðilegra ástæðna þá er slíkt nánast óumflýjanlegt, að lengi verða eftir slíkir bollar þar sem ekki eru brúkleg skilyrði. Einn mjög frægur staður hér í nágrenninu er í nágrenni við Auðkúlu Davíðs Oddssonar borgarstjóra. Þar eru algjörlega ómöguleg skilyrði fyrir farsíma. Þegar komið er upp á Öskjuhlíðina og ekið áleiðis í átt að Veðurstofunni eða Útvarpshúsinu munu menn gjarnan reyna miklar truflanir í farsímum sínum. Þar er einhvers konar blettur eða bolli þar sem skilyrðin eru mjög slæm. Þannig er þetta auðvitað víða úti um landið, en þetta eru sem sagt þau stóru svæði þar sem enn þá eru ekki viðunandi skilyrði.
    Í öðru lagi er spurt hvaða áætlanir séu uppi um að bæta úr þessu á þeim svæðum sem farsími nær nú ekki til. Svarið er það að það verður sett upp ný móðurstöð í Borgarfirði snemma á þessu ári, í raun og veru um leið og búnaður berst og aðstæður leyfa. Í öðru lagi er á fjárfestingaráætlun Pósts og síma fyrir árið 1990 gert ráð fyrir nýrri móðurstöð á Möðrudalsfjallgarði eystri og sú stöð mun ná til stórra svæða á öræfunum þar sem nú eru ekki skilyrði og svæða inn af Vopnafirði, svo og til hluta Jökuldals og þar með bæta, vonandi með fullnægjandi hætti, skilyrðin á flestum þessum svæðum sem ég áðan nefndi, nema í Skriðdal.
    Síðan er að síðustu ráðgert að á árinu 1991 verði settar upp nýjar stöðvar í Skriðdal og í Lóni og þar með ætti að verða lokið með sæmilega fullnægjandi hætti að farsímavæða Austurland þannig að hv. fyrirspyrjandi og aðrir góðir menn geti með viðunandi árangri nýtt þetta töfratæki í sína þágu hvar sem þeir eru staddir í fjórðungnum.