Skoðanakannanir
Fimmtudaginn 25. janúar 1990


     Fyrirspyrjandi (Þórhildur Þorleifsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég ber hér fram fsp. þess efnis hvað líði framkvæmd þál. um setningu laga eða reglna um skoðanakannanir sem samþykkt var á Alþingi 11. maí 1988. Það mál hafði þá áður borið á góma hér á Alþingi og virtist mönnum koma saman um það að brýnt væri að setja einhvers konar lög eða reglur um skoðanakannanir. Í raun er ekki með því verið að halda fram að þannig sé að málum staðið í dag að til vansa sé en vegna þess hversu sterkt og áhrifaríkt tæki þetta er og vegna þess hve þarna eru oft viðkvæmar upplýsingar sem verið er að handfjalla er mjög nauðsynlegt að um þetta ríki einhverjar almennar starfsreglur. Svo langt hefur verið gengið sums staðar í notkun skoðanakannana að menn hafa haft af því áhyggjur að þær væru í rauninni teknar við af stjórnmálamönnum og stjórnmálamenn væru farnir að hlýða skoðanakönnunum. Þannig væru þær í rauninni farnar að móta skoðanir stjórnmálamanna en ekki öfugt.
    Hér heima þekkjum við vissulega dæmi um það að þegar gerðar eru skoðanakannanir og fólk er spurt álits á einhverju kemur það fyrst upp í hugann sem hæst ber á þeim sama tíma í fréttum eða í umræðum. Þannig geta skoðanakannanir staðfest eða a.m.k. skjalfest skoðanir sem mótaðar eru af fréttamati fjölmiðla.
    Alvarlegt er einnig þegar verið er að gera skoðanakannanir um málefni sem greinilega vantar upplýsingar um. Skemmst er að minnast skoðanakönnunarinnar sem gerð var um afstöðu Íslendinga til EFTA og EB þar sem stóð ekki á því að menn tækju afstöðu, en þegar spurt var um hvað málið snerist fór nú að kárna gamanið og í ljós kom ótrúleg vanþekking á því sem um var spurt. Ef slíkri vanþekkingu er ekki mætt með fræðslu geta óprúttnir menn e.t.v. nýtt
sér slíkar niðurstöður, máli sínu til stuðnings, og jafnvel séð sér hag í því að forðast að upplýsingar komist til fólks í von um að þeir geti siglt í skjóli vanþekkingar. Ég vil því spyrja hæstv. forsrh. hvort ekki sé von á einhverjum úrbótum í þessum efnum.