Skoðanakannanir
Fimmtudaginn 25. janúar 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Ég vil láta það koma hér fram að það sem vakir á bak við hugmyndir um nefndarskipun menntmrn. í þessu efni, varðandi skoðanakannanir, er þrennt. Það er í fyrsta lagi að kannað verði hvort unnt er að setja almennar reglur um öflun efnis, þ.e. um öflun upplýsinga um skoðanir fólks, í öðru lagi hvort hugsanlegt er að setja eða ná samkomulagi um reglur varðandi birtingu þess efnis. Þetta tvennt fyrstnefnda er vafalaust erfitt, en í þriðja lagi, og það er mikilvægast í mínum huga og þess vegna er auðvitað sjálfsagt að dómsmrn. sé aðili að þessu máli, verður að setja um það reglur hvernig farið er með efnið og upplýsingarnar sem koma frá hverjum einstaklingi.
    Dómsmrn. hefur með að gera lög um verndun einstaklinga varðandi upplýsingasöfnun og fleira og í raun og veru er mikilvægasti þátturinn í þessu máli það hvað verður um þessi gögn þegar skoðanakannanaaðilarnir eru búnir að vinna úr þeim. Hvert fara þau? Hvað varð um þessi gögn? Hvar eru gögnin sem DV hefur í þessum málum? Hvar eru gögnin sem Gallup á Íslandi hefur í þessum efnum? Hvar eru gögnin sem Hagvangur hefur unnið? Um það eru engar reglur til og það er alvarlegt mál, og það er í meginatriðum og fyrst og fremst þess vegna sem ég taldi nauðsynlegt, fyrir mitt leyti, að undirbúnar yrðu reglur um þetta efni en það er ekki einfalt að finna flöt á því að setja slíkar reglur.
    Þeir aðilar sem beðnir voru að tilnefna í þessa nefnd hafa allir tilnefnt nema félagsvísindastofnun Háskólans. Gallup á Íslandi hefur tilnefnt í þennan hóp, dóms- og kirkjumrn. hefur tilnefnt, heimspekideild Háskóla Íslands hefur tilnefnt, en ég hygg að félagsvísindastofnun eigi eftir að tilnefna í hópinn. Ég vænti þess að hópurinn verði skipaður núna alveg næstu dagana eða strax og tilnefningar hafa borist og ég vil þakka hv. 18. þm. Reykv. fyrir að vekja athygli á þessu mikilvæga máli hér á hinu virðulega Alþingi.