Úrskurðir Jafnréttisráðs
Fimmtudaginn 25. janúar 1990


     Fyrirspyrjandi (Geir H. Haarde):
    Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að bera fram svofellda fsp. við hæstv. félmrh.:
    ,,Til hvaða ráðstafana hyggst félmrh., sem ráðherra jafnréttismála, grípa í framhaldi af því að Jafnréttisráð hefur tvívegis á stuttum tíma kveðið upp þann úrskurð að menntmrh. hafi brotið ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla?``
    Þannig háttar til, virðulegi forseti, að hæstv. núv. félmrh. er kunnur áhugamaður um jafnréttismál en þannig háttar jafnframt til að samráðherra hennar, hæstv. menntmrh., er sennilega sá valdsmaður á Íslandi sem hvað oftast hefur gengið á svig við ákvæði nefndra jafnréttislaga. Það er í sjálfu sér athyglisverð staðreynd sakir þess að hér er á ferðinni fyrrverandi formaður Alþb. en í þeim flokki eru sem kunnugt er margir sem tala hátt um jafnrétti kynjanna.
    Þegar hæstv. núv. menntmrh. var á sínum tíma ráðherra heilbrigðismála sætti hann mikilli gagnrýni og var talinn hafa brotið þágildandi jafnréttislög vegna veitingar lyfsöluleyfis á Dalvík.
    Núv. hæstv. félmrh. tók það mál upp hér á Alþingi hinn 5. febr. 1981 og gagnrýndi þáv. heilbrmrh. mjög harðlega vegna þeirrar embættisveitingar. Nú er sá þm. félmrh. í núv. ríkisstjórn og æðsti yfirmaður jafnréttismála. Sá sem þá var heilbrmrh. er hins vegar nú menntmrh. og hefur á stuttum valdaferli í því embætti þegar fengið á sig tvo úrskurði Jafnréttisráðs þar sem hann er talinn hafa brotið ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Annað þeirra mála varðar veitingu embættis skólastjóra í einum af skólum
Reykjavíkurborgar, hitt varðar embætti yfirkennara við skóla nokkurn í Hafnarfirði.
    Ég vil taka það fram að ég er ekki með þessari fsp. að hnjóða í einn eða neinn sem þessum málum tengjast eða þá einstaklinga sem þar koma við sögu eða þá einstaklinga sem þau embætti hafa fengið sem hér er um að ræða. Mál þetta snýst að mínum dómi í fyrsta lagi um vinnubrögð hæstv. menntmrh. fyrr og síðar varðandi þessa löggjöf og hans brot á þeirri löggjöf og í öðru lagi hver viðbrögð hins kunna áhugamanns um jafnréttismál, hæstv. núv. félmrh., sem nú er í þeirri einstöku stöðu að vera jafnframt æðsti yfirmaður jafnréttismála á Íslandi, eru. Hvernig hyggst hún, virðulegur ráðherra, bregðast við síendurteknum brotum samráðherra síns á þessari löggjöf?
    Þessi fsp. er flutt í þeim tilgangi að fá svör við þessum spurningum.