Úrskurðir Jafnréttisráðs
Fimmtudaginn 25. janúar 1990


     Fyrirspyrjandi (Geir H. Haarde):
    Virðulegi forseti. Það er athyglisvert að hæstv. menntmrh. sem er óbeinn aðili máls sér ekki ástæðu til þess að tjá sig um þessa fsp. En ég vil þakka hæstv. félmrh. fyrir svörin. Þau eru auðvitað öll formlega eðlileg og rétt og ráðherra hefur hér gert grein fyrir hinum formlegu og lagalegu hliðum málsins. Það er alveg ljóst að það er ekki mikið um úrræði á þeim vettvangi sem ráðherra getur gripið til í sambandi við ráðstafanir gegn lögbrjótum á þessu sviði, jafnvel þó að þeir sitji í sömu ríkisstjórn og viðkomandi ráðherra.
    Málið er hins vegar að mínum dómi ekki eingöngu lagalegs og formlegs eðlis heldur er spurningin kannski ekki síður sú: Hvað hyggst ráðherrann gera pólitískt til að sporna gegn valdbeitingu af þessum toga? Ráðherrann hefur verið þekktur fyrir ýmislegt annað en að láta vaða yfir sig á hinu pólitíska sviði og hefur, eins og kunnugt er, gripið til ýmissa úrræða þegar henni hefur verið misboðið eins og t.d. þeirra að mæta ekki á ríkisstjórnarfundum og ýmissa annarra úrræða sem hvergi er getið um í lögum eða reglum heldur eru pólitísks eðlis. Og ég hefði nú satt að segja átt von á því að fá einhver slík viðbrögð frá hæstv. ráðherra um það hvernig hún hygðist bregðast við síendurteknum brotum hæstv. menntmrh. á þessari löggjöf.
    Það er greinilegt að ráðherrann ætlar ekki að knýja dyra á hinum pólitíska vettvangi með þessi mál, heldur ætlar hún að una því pólitískt að sitja í ríkisstjórn með manni sem hvað eftir annað brýtur lög sem hæstv. félmrh. er kunnur áhugamaður um og hefur kynnt hér sérstakar breytingar á sem allar ganga í þá átt að efla framkvæmd og væntanlega auka jafnrétti með ýmsum úrræðum sem ekki eru í núgildandi lögum.
    Um leið og ég fagna því svari sem fram kom svo langt sem það nær hlýt ég auðvitað að harma það að ráðherrann skuli ekki hugsa sér til hreyfings pólitískt gegn samráðherra sínum af þessu margítrekaða tilefni.