Úrskurðir Jafnréttisráðs
Fimmtudaginn 25. janúar 1990


     Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. Þetta var afar einkennileg ræða sem hæstv. menntmrh. hélt hér áðan og þessar sérstöku lögskýringar sem hann vill beita í þeim tilvikum þar sem hann hefur brotið jafnréttislögin. Hann telur að sú lögskýring eigi að gilda að litið sé á stöðuna í heild, þ.e. hvernig jafnrétti sé háttað í viðkomandi starfsgrein þegar slíkar stöður eru veittar. Þar sem hlut kvenna í stöðum skólastjóra og kennara sé sæmilega vel fyrir komið sé í lagi að brjóta jafnréttislögin í einstökum tilvikum. Þetta er afar einkennileg lögskýring, ekki síst þegar það er haft í huga að hún er flutt hér af fyrrv. formanni Alþb., þingmanni hans og ráðherra sem hefur á tyllidögum hvað eftir annað lýst því yfir að hann og hans flokkur hafi sérstakan áhuga á jafnréttismálum. Og ef ég man rétt hélt hæstv. menntmrh. blaðamannafund í vetur til að lýsa fyrir alþjóð hvað hann væri mikill áhugamaður um jafnréttismál. Þegar kemur að framkvæmdinni er þetta eini ráðherrann í Íslandssögunni sem hefur hlotið úrskurð í Jafnréttisráði í þá átt að hann brjóti jafnréttislögin, --- ekki einu sinni, ekki tvisvar, heldur þrisvar. Tvisvar sem menntmrh. og einu sinni sem heilbrrh.
    Virðulegi forseti. Ég lýk máli mínu. Ég vil hins vegar láta í ljós mikil vonbrigði yfir svari hæstv. félmrh. Hún las hér upp lagareglur og gerði grein fyrir hver væri formleg staða félmrh. í málum eins og þessum. Það var auðvitað ekki það sem um var spurt eins og hv. fyrirspyrjandi hefur bent á. Hæstv. félmrh. hefur áðið staðið í ræðustól út af svipuðum málum. Þá var ekki ræðan um formlegan rétt ráðherra eða hvað lög segðu í þessu tilviki. Þá barðist hæstv. ráðherra fyrir sínum áhugamálum af hörku. Það gerir hún ekki nú. Og hæstv. ráðherra verður auðvitað að átta sig á því að hún ber stjórnskipulega ábyrgð á þessum gerðum jafnt og menntmrh. ef hún aðhefst ekki neitt.