Útgerð Andra BA
Fimmtudaginn 25. janúar 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hæstv. forseti. Þegar samgrn. bárust um það óskir að skrá á Íslandi skip sem Íslenska úthafsútgerðarfélagið hf. óskaði að skrá og síðan nýta til að vinna fisk í fiskveiðilögsögu Bandaríkjanna við Alaska fór það mál venjubundna leið, þ.e. í fyrsta lagi var haft samráð við Siglingamálastofnun og Siglingamálastofnun gerði innflytjendunum væntanlegu grein fyrir þeim skilyrðum sem fullnægja þyrfti áður en af skráningu skipsins gæti orðið. Hér var á ferðinni skip eldra en 12 ára og þegar þannig háttar til hefur samgrn. jafnan aflað heimildar fyrir skráningunni með sérstökum lögum á Alþingi. Og í leiðinni var reyndar aflað heimilda fyrir innflutningi á nokkrum öðrum skipum, björgunarskipum, dýpkunarprömmum og fleiri slíkum sem af sérstökum ástæðum þótti ástæða til að leyfa innflutning á þó að eldri væru en 12 ára.
    Varðandi það atriði hvort ástæða væri til að heimila skráninguna þannig að unnt yrði að nýta þennan nefnda fiskveiðisamning, samning við Bandaríkjamenn um fiskveiðar í þeirra landhelgi, þá óskaði samgrn. eftir umsögn utanrrn. og sjútvrn. um það mál og byggði alfarið afstöðu sína til málsins á þeim umsögnum, enda í sjálfu sér ekki í hlutverki samgrn. að leggja mat á slíkt. Ég vil því leyfa mér að lesa þær umsagnir sem bárust samgrn. þegar óskað var afstöðu þessara tveggja ráðuneyta gagnvart því hvort ætti að skrá skipið. Sjútvrn. svaraði með svohljóðandi bréfi, sem ég vona að forseti leyfi mér að lesa því að það á erindi við þetta mál. Efni bréfsins er skráning á verksmiðjuskipinu Aramó.
    ,,Á árunum 1983 og 1984 lagði ráðuneytið í allverulegan kostnað til þess að koma á samningi milli ríkisstjórna Íslands og Bandaríkjanna um nýtingu fiskveiði- og fiskvinnsluheimilda í bandarískri fiskveiðilögsögu. Samningar tókust en því miður hafa íslensk skip ekki nýtt sér þá möguleika sem þessi samningur opnaði eins og menn höfðu þó gert sér vonir um. Sl. tvö ár hafa nýir aðilar tekið málið upp að nýju og reynt að koma af stað útgerð verksmiðjuskips undan ströndum Alaska. Á síðasta ári fengu þessir aðilar úthlutað 40 þúsund tonna þorskkvóta af fiskveiðiráði Alaska. Þessa úthlutun reyndist ekki unnt að nýta þar eð áform um viðeigandi vinnsluskip brugðust. Nú hefur samsvarandi kvótaúthlutun verið endurnýjuð fyrir árið 1989 sem er síðasta gildisár fyrrgreinds rammasamnings. Sjútvrn. hefur veitt lítils háttar styrk til þessa verkefnis auk þess sem ráðuneytið hefur leitast við að greiða fyrir framgangi þess, m.a. í samvinnu við sendiráð Íslands í Washington. Ráðuneytið telur því mjög þýðingarmikið að Íslendingar reyni að nýta sér þá möguleika sem þarna eru fyrir hendi með samstarfi við bandaríska aðila og skapi sér þannig einhverja reynslusögu áður en samningurinn rennur út og kemur til endurskoðunar.
    Ráðuneytið mælir því eindregið með því að flutt verði frv. um að heimilt verði að taka Aramó á

íslenska skipaskrá, enda fullnægi það þeim reglum sem gera þarf til búnaðar skipsins. Ráðuneytið vill þá jafnframt leggja áherslu á að skip þetta mun aldrei undir nokkrum kringumstæðum fá leyfi til veiða til vinnslu sjávarafla í íslenskri fiskveiðilögsögu.``
    Og utanrrn. svaraði um svipað leyti í janúar 1989:
    ,,Utanríkisráðuneytið fyrir sitt leyti styður eindregið að stuðlað verði að því að Íslendingar nýti sér samningsbundin réttindi til veiða í bandarískri fiskveiðilögsögu. Við teljum mikilvægt að úr því fáist skorið hvort hagkvæmt reynist að nýta þær heimildir sem samið var um og að áhugi Íslendinga verði staðfestur. Því leggjum við til að skráning verði heimiluð enda sé tryggt að skipið verði notað eingöngu til vinnslu afla sem veiddur er utan íslenskrar lögsögu og verði ekki til aukningar á fiskiskipaflota sem sækir á okkar mið.``
    Í framhaldi af þessum umsögnum tveggja ráðuneyta lagði samgrh. sem hér talar fram frv. á Alþingi sem heimilaði skráningu skipsins, sem reyndar þegar til kom hét ekki Aramó heldur Roman I. Buki, og með því að sú skráning var heimiluð með bréfi 29. júní 1989 lauk afskiptum samgrn. af þessu máli.