Útgerð Andra BA
Fimmtudaginn 25. janúar 1990


     Guðmundur H. Garðarsson:
    Ég tek undir orð hv. þm. Skúla Alexanderssonar varðandi það atriði að þegar verið var að fjalla um þetta mál fyrir ári síðan stóð ég í sömu trú og hv. þm. Skúli Alexandersson, að við værum að fjalla um mál sem væri þess eðlis að þeir sem hygðust nýta sér þá möguleika sem umrædd löggjöf gerði ráð fyrir, væri þess eðlis að útgerðaraðilar gætu gert út sitt skip með þeim hætti sem efnt hefur verið til. Sú fullyrðing hv. þm. Skúla Alexanderssonar að ábyrgð íslenskra stjórnvalda, núv. hæstv. ríkisstjórnar, sé mikil í þessum efnum er því rétt. Það hlýtur að vera krafa þingheims að þetta mál sé betur upplýst, það sé betur upplýst á grundvelli hvaða gagna eða samninga núv. hæstv. ríkisstjórn hefur unnið að þessum málum, og í öðru lagi hljótum við hv. þm. að gera kröfu til ríkisstjórnarinnar um það að þeir aðilar sem eru þolendur í þessu, sem eru útgerðaraðilar, fái þær bætur sem greinilega liggur fyrir að íslenska ríkið verður að greiða þessum aðilum.
    Það liggur í augum uppi að ábyrgir útgerðaraðilar --- og nú duga engin hreystiyrði, hæstv. utanrrh., eða stóryrði eða persónulegar árásir á menn hér úr ræðustóli. Nú stendur hæstv. ráðherra frammi fyrir því ... (Gripið fram í.) Ég er að tala við hæstv. utanrrh. ( Utanrrh.: Já, ég heyri það.) Nú dugar ekkert að koma hér með stráksskap upp í ræðustól eins og hæstv. ráðherra hefur gert hér æ ofan í æ. Nú stendur hæstv. ráðherra frammi fyrir því ... ( Forseti: Forseti hlýtur að benda hv. þm. á að hæstv. utanrrh. hefur ekki haft í frammi hin minnstu stóryrði hér í ræðustól.) Virðulegi forseti. Maður er svo vanur því þegar talað er um alvarlega hluti hér, sérstaklega sem varða þriðja aðila, utan þingsala, að ráðherrar séu ýmist með skæting eða svari út úr að maður gefur sér það fyrir fram að þeir geri það og haldi viðtekinni venju. Ef hæstv. utanrrh. ætlar að breyta til í þeim efnum er það ágætt. Ef hann ætlar að vera ábyrgur og standa frammi fyrir því sem hér er um að ræða, þá er það gott,
virðulegi forseti. Það er tímabært að þessir ráðherrar sýni þingheimi og öðrum þá kurteisi. En sleppum því.
    Ég vil segja það við hæstv. ráðherra að hér hefur einn af stjórnarþm. fullyrt að núv. ríkisstjórn hafi vísvitandi blekkt þingheim, og hafi hún blekkt þingheim hefur hún einnig blekkt þann útgerðaraðila sem hér um ræðir. Þess vegna hlýtur það að vera krafa okkar að þessir hæstv. ráðherrar sem hér eru viðstaddir og bera ábyrgð á þessari stjórn, á þessu sem hér er um að ræða, stjórnarfarslega, geri okkur grein fyrir hvernig þessum málum er raunverulega háttað því að ég sé ekki annað, eins og ég sagði áðan, en að útgerðaraðilar hljóti að eiga háar kröfur á hendur íslenska ríkinu fyrir það hvernig hefur verið haldið á þessum málum eða réttara sagt ekki haldið á þeim.