Útgerð Andra BA
Fimmtudaginn 25. janúar 1990


     Ásgeir Hannes Eiríksson:
    Virðulegi forseti. Það er einkum eitt atriði í þessu máli sem veldur mér heilabrotum og sannast að segja nokkrum áhyggjum. Við höfum áður staðið frammi fyrir því að þurfa að semja við Bandaríkjamenn um hina ýmsu hluti, fisksölu, vöruflutninga hingað til lands, lendingarleyfi flugvéla, hljóðkúta á þotur o.s.frv. Við höfum jafnan náð hinum bestu samningum þegar við höfum minnt Bandaríkjamenn á að við erum báðir aðilar í hinni miklu fjölskyldu þjóðanna á Norður-Atlantshafi, Atlantshafsbandalaginu, og því sé annað að eiga samskipti við okkur, það sé eins og að gera hlutina innan fjölskyldunnar, en að vera að eiga við fjarskyldar þjóðir sem eru svona eins og fólk utan úr bæ.
    Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. utanrrh. hvort þíðan í Austur-Evrópu sé orðin það mikil að varnarstöðin komi til með að reynast okkur gagnslaus í þessum samningum, eða hvort með nýrri ríkisstjórn sé verið að taka upp ný vinnubrögð og standi ekki til að nota varnarstöðina sem skiptimynt í þessu máli eins og hingað til hefur verið gert.