Útgerð Andra BA
Fimmtudaginn 25. janúar 1990


     Skúli Alexandersson:
    Virðulegi forseti. Aðeins til þess að benda á nokkur atriði í sambandi við þátt stjórnvalda í þessu máli og upplýsingar þeirra. Í sambandi við umræður um leyfi til að kaupa skip, eldra en 12 ára, í Ed. sl. vor upplýsti ég að okkur í nefndinni hefði ekki tekist að fá fullnægjandi upplýsingar um það hvernig skip þetta væri. Hvort þetta væri eingöngu vinnsluskip, eins og nú kemur á daginn að er, eða hvort það væri skip sem ætti að stunda bæði veiðar og vinnslu. Við vorum ekki upplýst í deildinni um það að hið íslenska skip væri útilokað frá veiðum. Við vorum látin sitja í óvissu um það hvernig skipið væri. Og ekki aðeins það, og samgrh. kom reyndar inn á það, við höfðum heyrt ákveðið nafn á skipi sem væri verið að kaupa. Síðan, meðan málið var til umfjöllunar í Ed., fóru að koma önnur nöfn, svona svífandi yfir umræðuna. Ég sagði frá því í Ed. að ég hefði átt von á að fá afrit af því bréfi sem nafn skipsins kæmi fram í, Romano, Romanoff, eða eitthvað slíkt. Stjórnvöld höfðu ekki betri upplýsingar fram að færa þegar var verið að fjalla um þetta mál hér á hv. Alþingi en lögðu mikla áherslu á það að málið fengi hér alveg sérstaka hraðafgreiðslu. Ég held að það hafi verið afgreitt á þann veg að 2. og 3. umr. í Ed. áttu sér stað sama dag og 1. umr. í Nd., ef ekki 2. og 3. umr. þar líka. Þannig að hraðinn og þrýstingurinn við að koma þessu máli í gegn var þetta mikill, á þeim grunni að við gætum nýtt okkur veiðiheimildir við Alaska. Það voru þær upplýsingar sem hv. Alþingi voru gefnar.
    Ég tek undir með hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni að það er mjög æskilegt að hæstv. ríkisstjórn leggi fram skýrslu um undirbúning og vinnu að þessu máli og hvernig að framkvæmd hefur verið staðið.
    Hæstv. utanrrh. sagði hér áðan í fyrstu ræðu sinni að utanrrn. kæmi lítið að þessu máli öðruvísi en með frímerkjum og stimpli. Hann hefur reyndar upplýst að það sé skylda ráðuneytisins að styðja íslenska aðila til þess að ná rétti
sínum. Það er gott að heyra það. En ég held, og við höfum fundið fyrir því, að ráðuneytið --- og ekki er ég að sjá eftir því --- hafi lagt sig mjög mikið fram í því að vinna að þessu máli, eins og ég nefndi hér áðan, með sendiráðinu í Washington og útgerðarmönnunum og er ekkert nema gott um það að segja. En vitaskuld hljóta aðrir aðilar sem fara í einhver viðskipti erlendis að eiga von á slíkri fyrirgreiðslu frá utanrrn. eins og hér hefur verið lögð fram á komandi tímum. Gott fordæmi þetta.
    Og í lokin aðeins í sambandi við það sem báðir ráðherrar hafa fullyrt hér, að fyrir hafi legið kvótaheimild eða úthlutun á síðasta ári, þ.e. á árinu 1989. Það virðist svo sem einhver misskilningur sé tengdur því líka vegna þess að samkvæmt fréttum í fjölmiðlum hafa aðilar, fiskveiðiráðið í Alaska og jafnvel utanríkisviðskiptaráðherra Bandaríkjanna, haft aðra skoðun á því máli, að þar hafi ekki verið um neina heimild að ræða aðra en þá að vitað var

samkvæmt samningnum að hægt var að koma með skip inn á Kyrrahafið og það fengi stimpil um að það væri vinnsluhæft. Gott og vel. Það virðist ekki vera mikið meira sem Andri BA hefur út frá þessum samningi en það að geta keypt sér stimpil á eitthvert plagg um að skipið sé þannig útbúið að það sé vinnsluhæft og um borð í því skipi megi vinna fisk.