Eftirlaunasjóðir einstaklinga
Mánudaginn 29. janúar 1990


     Flm. (Guðni Ágústsson):
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. sem er 62. mál þessa löggjafarþings. Flm. auk mín eru alþm. Alexander Stefánsson og Stefán Guðmundsson. Tillögugreinin hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að skipa nefnd sem fái það hlutverk að móta reglur um eigin eftirlaunasjóði allra landsmanna og gera tillögur um hvernig hægt væri að gera upp réttindi launþega í núverandi lífeyrissjóðum.``
    Í upphafi er rétt að spyrja: Er svona tillaga flutt að ástæðulausu? Er öryggi lífeyrissjóðanna slíkt og ástand þeirra að þar megi ekki hrófla við neinu?
    Hlutverk lífeyrissjóðanna er tvenns konar: Annars vegar söfnunarþátturinn þar sem menn eiga að hafa tilfinningu fyrir því að greiðslurnar tryggi sjóðfélögum eftirlaun þegar starfsdegi lýkur, hins vegar tryggingasjóður sem við áföll eða andlát grípur inn í atburðarásina, greiðir örorkubætur og lífeyri til maka og barna við andlát.
    Áður en ég rek hugmyndirnar um eigin eftirlaunasjóði vil ég nefna nokkur atriði til að brýna þingmenn, að vakna og fara að ræða um framtíðina og þá staðreynd að lífeyrissjóðirnir verða gjaldþrota ef svo heldur fram sem nú horfir. Á mörgum sviðum lifum við um efni fram en þetta er augljóst og einfalt reikningsdæmi hvað lífeyrissjóðina varðar. Spyrja má: Erum við í dag að brenna timbrið úr björgunarbátnum sem unga fólkið trúir að verði til taks árið 2020 þegar það ætlar að njóta þess sem það hefur lagt fyrir? Hvaða ástæður kalla á uppstokkun og nýtt kerfi?
    Í fyrsta lagi er öryggi þjóðarinnar misskipt þar sem ríki og sveitarfélög, stærstu bæjarfélögin a.m.k., búa starfsmönnum sínum miklu betra öryggi að starfsdegi loknum en þekkist á almennum vinnumarkaði. Ríkisstarfsmenn komast á eftirlaun mun fyrr. Lífeyrir tekur í mörgum tilfellum mið af þeim kjarabótum sem nást fram í samningum. Almennir launþegar sem búa við lítið öryggi verða enn fremur að sæta því að vera skattlagðir sérstaklega til að greiða uppbætur svo að hægt sé að standa við alla samninga við opinbera starfsmenn. Í þessu skyni er greitt á annan milljarð í fjárlögum hvers árs og sífellt hækkandi fjárupphæðir. Við þekkjum nú þau forréttindi sem bæði alþm. og ekki síður ráðherrar njóta í hinu opinbera lífeyriskerfi. Ríkisvaldið á sinn þátt í því að sjóðirnir eru að molna innan frá, að u.þ.b. 15--20% vinnandi manna hafa þegar yfirgefið sjóðina. Þetta eru stór orð, en þetta fullyrða bæði verkalýðsleiðtogar og lífeyrissjóðamenn við mig, að 15--20% af öllum vinnandi mönnum greiði ekki gjald til lífeyrissjóðanna. Þarna er þess vegna mikill vandi fyrir höndum. Þarna er mikil áhætta tekin af þessu fólki. Þarna er um lögbrot að ræða.
    Þetta gerist af því að annaðhvort hirðir atvinnurekandinn sjálfur lífeyrisgreiðslurnar sem því miður mun vera allt of algengt í þessum tilfellum, fólk hirðir ekki um þetta, hefur ekki trú á lífeyrissjóðunum og lætur það viðgangast að atvinnurekandinn sjálfur hirði greiðslurnar eða semur

um það við hann að skipta þeim á milli sín.
    Benedikt Davíðsson vakti athygli á því fyrir stuttu að launþegar eru sviptir tekjutryggingunni ef lífeyrisgreiðslurnar ná ákveðnu marki. Tökum dæmi: Ríkið veitir tekjutryggingu, borgar síma og útvarp í ákveðnum tilfellum. Þannig getur maður sem á engan rétt í lífeyrissjóði haft tekjur upp á 45 þús. kr. meðan annar sem alltaf greiddi sín 10% í sjóðinn í áratugi er með 50--54 þús. kr. á mánuði þar sem ríkið hefur skert tekjutrygginguna vegna þess að maðurinn á lífeyrissjóð á bak við sig. Ríkið græðir í þessu tilfelli 8--11 þús. kr. á því að maðurinn fór að landsins lögum. Hinn er verðlaunaður fyrir að brjóta settar reglur og situr næstum við sama borð og sá sem greiðir ávallt sitt í sjóðinn.
    Staða lífeyrissjóðanna er á reiki. Yfirlit til sjóðfélaga um greiðslustöðu þeirra hafa ekki verið send um árabil í mörgum tilfellum. Erfitt hefur reynst fyrir einstaka sjóðfélaga að fá upplýsingar um réttindi sín í sjóðnum. Rekstrarkostnaður sjóðanna er slíkur að ófært er, en þó mjög misjafn, frá 4 og upp í 40% af innkomufé fer í að reka hítina. Hugsið ykkur það að fólk er að greiða í fullri trú þess að það sé að leggja til hliðar í ellinni, og svo eru strax tekin 40% af greiðslunum til að standa undir rekstrarkostnaði sjóðsins sem það greiðir í. Fyrir þessu fólki mun fara eins og ég sagði hér áðan. Það verður búið að brenna björgunarbát þess þegar það heldur að það geti gripið til hans í ellinni.
    Bókhaldsóreiða hefur kostað ýmsa sjóði og sjóðfélaga verulega fjármuni í greiðslur til endurskoðanda umfram það sem eðlilegt má telja. Ég hygg að hv. alþm. kannist við það að á síðustu árum hefur því miður komið upp hvað eftir annað mikil óreiða í rekstri lífeyrissjóðanna sem er full ástæða til að taka á. Ársreikningar sumra sjóðanna hafa ekki legið fyrir jafnvel árum saman. Slíkt yrði ekki liðið í litlu fyrirtæki, og auðvitað ætti það enn síður að líðast hjá lífeyrissjóðum sem eru eign sjóðfélaganna að ársreikningar þeirra
liggi ekki fyrir árum saman.
    Fleiri ástæður koma til. Við skulum líta á eina. Aldursskipting Íslendinga mun breytast á næstu 20--30 árum og stuðla enn frekar að gjaldþroti sjóðanna. Í dag eru 26 þús. Íslendingar 65 ára og eldri eða 10% þjóðarinnar. Árið 2020 er því spáð að um 50 þús. manns verði 65 ára og eldri, eða 16--18% af þjóðinni, en hlutfallslega sami fjöldi á vinnualdri og nú, eða 15--64 ára. Þessi ástæða ein nægir til þess að við verðum að finna nýjar leiðir í þessum efnum. Við verðum að þora að líta á þennan vanda og finna ráð sem geta leyst hann. En hinar ástæðurnar vega auðvitað mjög þungt í mínum huga, hversu misskipting þjóðarinnar er mögnuð í lífeyrismálum í dag. Á þessu sviði eru sannarlega tvær þjóðir í þessu landi. Og ríkisvaldið brýtur rétt á almennu launafólki eins og ég hef hér rakið.
    En lífeyrissjóðirnir brjóta einnig lög og reglur. Þannig hafa t.d. SAL-sjóðirnir jafnréttislögin að engu og það er látið viðgangast. Þar á t.d. ekkja rétt á

makalífeyri ef maki hefur greitt iðgjöld í 6 mánuði á undanförnum 12 mánuðum fyrir andlátið. En verði karlmaður fyrir þeirri raun að missa konu sína er heimilt að greiða ekkli sambærilegan makalífeyri og ekkja ætti rétt á, þ.e. hafi ekkill skerta starfsorku. Að öðru leyti skal greiða ekkli lífeyri í aðeins tvö ár. Þarna eru jafnréttislögin höfð að engu. Þarna er gerður munur á því hvort karl eða kona á hlut að máli. Aftur á móti greiðir Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins makalífeyri án skilyrða um lágmarksiðgjaldatíma og þar er makalífeyrisréttur gagnkvæmur. Ein mismunun enn, eitt dæmi sem sýnir að þjóðirnar eru tvær í þessu landi á mörgum sviðum.
    Ég fer nokkrum orðum um hvern lið í greinargerð þáltill. til að skýra hvernig við hugsum okkur hið nýja kerfi sem hér er lagt til að stofna.
    Fyrsti liðurinn fjallar um stofnun eigin eftirlaunasjóðs í upphafi þegar einstaklingurinn kemur út á vinnumarkaðinn. Þessi gullna bók sem yrði stofnuð yrði mikilvægasta bókin í eigu einstaklingsins. Hann sjálfur mundi halda utan um hana ásamt sínu verkalýðsfélagi og/eða lífeyrissjóði, sem þess vegna getur starfað áfram og jafnvel orðið heildarbaráttutæki í hverju kjördæmi, kannski lífeyrissjóður yfir heilt kjördæmi sem menn ættu aðild að ef menn teldu sér henta. Þess vegna er það ekki lagt afdráttarlaust til að þeir verði ekki til áfram að forminu til.
    Það yrði lögbundið að skattframtali fylgdi yfirlit um greiðslur í þessa eftirlaunasjóðsbók og sektarákvæðum beitt ef ekki yrði staðið við reglur í þeim efnum. Peningastofnunin mundi um hver áramót verða að senda yfirlitið á skattstofu einstaklingsins. En bara það eitt að einstaklingurinn ætti þessa bók sjálfur og féð væri bundið á reikningi í bankanum allt hans líf fram að eftirlaunum gerir það að verkum að menn munu krefjast þess að fyrsta greiðslan sem atvinnurekandinn innir af hendi verði greiðslan í eftirlaunasjóðsbókina. Þannig mundu viðhorfin breytast frá því sem nú er. Fólkið mundi hafa trú á þessari bók þó það hafi ekki trú á lífeyrissjóðakerfinu sem því miður er að molna innan frá.
    Annar liðurinn fjallar um verðtryggingu og ávöxtun þessara peninga. Í bankakerfinu væri eftirlaunasjóðsbókin að mörgu leyti lík venjulegri sparisjóðsbók. Þó mundi hún lúta öðrum reglum. Allar greiðslur inn á hana væru bundnar þar til eigandinn næði eftirlaunaaldri, 65--70 ára aldri. Þeir menn í bankakerfinu sem ég hef rætt þessa hugmynd við hafa verið sammála um það að aukakostnaður í bankakerfinu yrði sáralítill. Þessar bækur yrðu í sjálfu sér meðhöndlaðar eins og hver önnur bankabók með sparnaði. Þeir hafa allir talið að þetta fyrirkomulag mundi styrkja bankana og einstaklinginn innan bankans. Í dag fer í rekstrarkostnað lífeyrissjóðanna, eins og ég sagði, frá 4 og upp í 41% af greiddum iðgjöldum, en þarna yrði um sáralítinn rekstrarkostnað að ræða. Og ég er sannfærður um að þetta mundi styrkja bankana og gera þeim kleift að sinna einstaklingum á Íslandi með svipuðum hætti og bankar annarra þjóða gera við sitt fólk. Menn ættu á bak við

sig þann gullmola sem tryggði þeim meira lánsfé til lengri tíma sem er aðalatriðið innan bankakerfisins.
    Þriðji liðurinn fjallar um endurgreiðslur þegar eftirlaunaaldri væri náð. Eftirlaunasjóðurinn lyti ákveðnum lögbundnum reglum um það hvernig einstaklingurinn fengi greitt til baka og 20 ára tímabil nefnt í því sambandi, eða á 240 mánuðum 1 / 240 í hvert sinn. Hér eru einnig nefnd dæmi um það aftar í greinargerðinni hversu háar upphæðir tveir einstaklingar gætu eignast í slíkum sjóði á langri starfsævi. Þar er tekið dæmi af manni sem hefði 70 þús. kr. í mánaðarlaun og greiddi þess vegna í lífeyrissjóðsbókina sína í bankanum 7 þús. kr. á mánuði í 45 ár. Miðað við 5% vexti mundi hann að þeim tíma loknum eiga 13 1 / 2 millj. Hér er líka tekið dæmi af öðrum manni sem hefði 100 þús. kr. í laun á mánuði í 45 ár. Hann mundi því greiða í bókina sína 10 þús. kr. á mánuði. Miðað við 5% vexti mundi hann eiga 19,4 millj. Þessir tveir einstaklingar gætu greitt sjálfum sér góð eftirlaun á næstu 20 árum, 7 þús. kr. maðurinn um 90 þús. kr. á mánuði en hinn um 125 þús. kr.
    Það er eitt sem ég vil líka vekja athygli á. Ég hygg að í þessari tillögu felist miklu meira jafnræði en menn gera sér grein fyrir. Við skulum hugsa
okkur þá sem ganga langskólaveg. Þeir hafa oft hærri laun þegar þeir koma út á vinnumarkaðinn en menn sem fara beint út í atvinnulífið en þeir koma hins vegar seinna til starfa. Ég hygg að það yrði töluvert jafnræði með bókum þessara tveggja einstaklinga þegar þeir stæðu upp frá ævistarfi sínu um sjötugt.
    Menn hafa mjög rætt um þetta: Hvað ætlar maðurinn svo að gera þegar bankabókin er tæmd á 20 árum? Ég hef í fyrsta lagi litlar áhyggjur af einstaklingi sem hættir störfum og á 13--20 millj. kr. Honum er í sjálfu sér borgið. Þessar greiðslur nægðu þó fram að níræðu og ég hygg að fólk eyði nú ekki miklu eftir þann tíma.
    Fjórði liðurinn fjallar um það að þessir peningar yrðu einungis skattlagðir einu sinni, þá sem laun við útborgun, gagnstætt því sem nú gerist þar sem lífeyrisiðgjöld eru tvísköttuð í mörgum tilfellum.
    Fimmti liðurinn gerir ráð fyrir að þessi eign væri erfðafé við andlát, fyrst maka, síðan annarra erfingja. Nú eru lífeyrissjóðirnir stærstu erfingjar á Íslandi. Þetta aflafé fellur þeim oft til. Tökum dæmi af Jóni og Gunnu sem giftust um tvítugt og hafa verið á vinnumarkaði í 45 ár. Þau hafa kannski eignast þrjú börn. Segjum að heimilistekjur þeirra hafi verið 170 þús. kr. á mánuði. Þau farast síðan bæði 64 ára gömul í bílslysi. Þá verður börnum þeirra ekkert úr lífeyrissjóðnum en þangað hafa þau hjón þó greitt og eiga þar samkvæmt þessum útreikningi 35 millj. kr. sem sjóðurinn erfir.
    Sjötti liðurinn fjallar um helmingaskipti við skilnað hjóna, að þessi eign sé eins og hver önnur, húsið, bíllinn eða annað, og komi til skipta við skilnað.
    Sjöundi liðurinn gerir ráð fyrir því að tryggja eitt það mikilvægasta í hlutverki lífeyrissjóðanna, þ.e. örorkuna og aðrar lífeyrisgreiðslur. Í þessu efni yrðu

stofnaðir gegnumstreymissjóðir við Tryggingastofnun ríkisins. Það liggur ljóst fyrir hversu margir einstaklingar eru öryrkjar, einnig hve mikið þeir þurfa sér til lífsviðurværis. Gjald til þessa sjóðs yrði innheimt með sköttum og endurgreitt beint til bótaþeganna. Ég talaði um að hver einstaklingur greiddi 10% af launum í eigin eftirlaunasjóð, en til að mæta örorkuþörfinni mætti skipta þessari greiðslu þannig að í eftirlaunasjóðinn færu t.d. 8% en í örorkutryggingu 1--2% af öllum launum en þó eftir þörf gegnumstreymissjóðsins. Það mundi kenna sparsemi að stofna slíka bók og sparsemi er besti hægindastóllinn í ellinni, segir einhvers staðar.
    Ég geri mér grein fyrir því að þessi hugmynd mætir skilningi fólks á almennum vinnumarkaði og fjöldi fólks sem vinnur hjá ríkinu telur þetta betra kerfi en það öryggi sem það býr við. Einhver hluti af forustumönnum atvinnurekenda og verkalýðs- og stjórnmálamanna mun að vísu snúast öndverður við þessum hugmyndum en þó ekki allir. Ég treysti því á hinn skynsama Íslending, að hann ryðji með baráttu sinni farveg fyrir þessar hugmyndir. Umbæturnar koma alltaf neðan frá grasrótinni. Sá sem hefur fjóra ása á hendi kærir sig ekki um að gefa spilin á ný.
    Að þessari umræðu lokinni legg ég til að málinu verði vísað til hv. félmn. Sþ. og til síðari umr.