Eftirlaunasjóðir einstaklinga
Mánudaginn 29. janúar 1990


     Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég verð nú að segja það strax í byrjun að ég er mjög ósammála hv. 5. þm. Suðurl. um málefni lífeyrissjóðanna. Að vísu er ég gamall baráttumaður fyrir því að breyta lífeyrissjóðakerfinu og ég er ákaflega óánægð með það hve langan tíma það hefur tekið að koma því í eitthvert viðunandi horf. Ég sé ekkert vit í því að vera með alla þessa lífeyrissjóði í landinu. Mín skoðun var sú og er enn að við eigum að hafa einn sameiginlegan lífeyrissjóð þar sem eftirlaunamenn fá greidd sómasamleg eftirlaun. Fyrir þessu hefur ekki verið hljómgrunnur en þetta má bæta. Það er ekkert vafamál.
    Mér finnst þessi lýsing hans á kostnaðinum við lífeyrissjóðina afar hæpin. Þar tekur hann það alversta til viðmiðunar. Kostnaður við lífeyrissjóðina frá 4% til 41%. Ég hef gaman að sjá hvað þeir eru margir sem eru með 40--41% í kostnað. Ég átti hlut að stórum lífeyrissjóði, starfsmannafélagsins Sóknar. Við vorum líklega alltaf lægstar, með einna lægst hlutfall í kostnaði, og var þó okkar lífeyrissjóður inni á endurskoðunarskrifstofu hjá Gunnari Zoega þar sem nokkrir fleiri lífeyrissjóðir eru og ég held að hann hafi haldið þessum kostnaði mjög í lágmarki fyrir þá alla. Þarna eru stórir lífeyrissjóðir svo sem Lífeyrissjóður Iðju í Reykjavík og einhverjir fleiri sjóðir. Ég sé það á síðustu skýrslu frá lífeyrissjóðunum að þar er lífeyrissjóður sem heitir Lífeyrissjóður Dagsbrúnar og Framsóknar og hann er kominn á svipað ról og þessi.
    Mér fannst það ákaflega skemmtilegt sem hv. þm. sagði um jafnréttið vegna þess að í okkar sjóði, Sóknar, nutu karlmenn algjörs jafnréttis. Það var öllum ekklum og ekkjum greitt jafnt. Og ég vona að svo sé enn þá þó að ég viti það ekki alveg fyrir víst því að nokkur ár eru síðan ég kom þarna að síðast. Ég barðist mjög fyrir því í verkalýðshreyfingunni að þetta væri tekið upp alls staðar vegna þess að ég sé tæplega fólk sem er verr komið en t.d. tiltölulega
ungur maður sem stendur uppi ekkjumaður með ung börn. Hann þarf sannarlega þá aðstoð sem hægt er að veita honum og hann ætti sannarlega að fá aðstoð úr sínum lífeyrissjóði. Það voru hins vegar karlmennirnir í verkalýðshreyfingunni sem ekki vildu þessi réttindi. Þeir vildu það ekki nema þeir væru skráðir öryrkjar eða einhvern veginn vanhæfir til að sjá fyrir sínu heimili. Og ef þetta er komið yfir mitt gamla, góða félag er það ábyggilega fyrir tilstuðlan þeirra karlmanna sem stjórna SAL. Þetta hefur alltaf valdið mér miklum heilabrotum, hvernig standi á því hvað þeir eru þarna mikið á móti sjálfum sér.
    Ég ætla ekki að hafa mjög mörg orð um þetta. Ég er orðin langeyg eftir því að tekið verði upp betra skipulag á lífeyrissjóðunum. Ég sé ekkert vit í að við séum með kannski um 90 lífeyrissjóði á þessu litla landi, einhvern kostnað við hvern einasta þeirra og ég vænti þess og tel að verkalýðshreyfingin í landinu leggi mikla áherslu á það að frv. að lífeyrissjóði komi sem fyrst fyrir Alþingi svo að við fáum a.m.k. að gera okkur grein fyrir hvað er verið að hugsa, hvernig

á að bæta þetta kerfi og hvernig á að breyta því.
    Ég sé að hv. 5. þm. Norðurl. v. horfir nokkuð stíft á mig. Það vill nú svo til að mér geðjaðist mjög vel að þeirri tillögu sem hann hefur komið fram með, ég heyrði hann fyrst mæla fyrir henni í útvarpi, þ.e. um gegnumstreymi lífeyrissjóðanna. Það ætti að tryggja það að allir fengju sómasamlegar bætur að starfsdegi loknum. Ég geri hins vegar ekki ráð fyrir að þetta felist í þeim tillögum sem meiningin er að leggja fyrir. Ég vil þó sjá þær áður en ég fer að leggja einhvern dóm á þær. En alla vega vildi ég hvetja til þess að þetta frv. sjái sem allra fyrst dagsins ljós og það verði lagfærðir þeir ágallar sem eru á núverandi lífeyriskerfi. Það er alveg rétt hjá hv. 5. þm. Suðurl. að misréttið í lífeyriskerfinu er mjög mikið og það er eitt af því sem þarf að laga. Það er nú svo að þegar einhver hefur náð einhverju til sín er hann ekki mjög fús til að sleppa því, en það nær náttúrlega ekki nokkurri átt hvað misréttið er mikið. Ég bíð eftir því að þetta nýja lífeyrissjóðafrv. verði lagt fram, sem fyrst, og vona að ég sjái það verða að lögum.