Eftirlaunasjóðir einstaklinga
Mánudaginn 29. janúar 1990


     Ásgeir Hannes Eiríksson:
    Virðulegi forseti. Ég er hingað kominn í pontuna til þess að styðja við þetta frv. frá hv. 5. þm. Suðurl. Mér sýnist margt í þessum drögum horfa til bóta. Ég veit að öll umræða um lífeyrismál er af hinu góða vegna þess hvernig gamla kerfið hefur gengið sér til húðar, og væntanlega verður þetta mál til þess að flýta fyrir því að við fáum einn stóran sanngjarnan lífeyrissjóð hvernig svo sem að honum verður staðið.
    Menn hefur greint á um það hér í pontu hvort lífeyrissjóðir landsins séu gjaldþrota eða ekki gjaldþrota. Séu þeir gjaldþrota er það eingöngu eðlilegt framhald af örlögum annarrar starfsemi í landinu sem er um það bil að verða gjaldþrota. Séu þeir ekki gjaldþrota er full ástæða til þess að óska þeim til hamingju og jafnframt að fara fram á það að þeir láti þá eitthvað meira af sínum peningum til þeirra sem nú lepja dauðann úr skel. Lífeyrissjóðirnir, ef þeir eru þá aflögufærir, hjálpi þannig atvinnulífinu aftur á réttan kjöl.
    Kjarni málsins í lífeyrissjóði hlýtur að vera: Hvernig nýtast iðgjöldin fólki í lífeyri þegar að því kemur? Hversu háan lífeyri fær hver sjóðfélagi þegar upp er staðið og hann fer að taka lífeyri úr þeim sjóði sem hann hefur safnað til allt sitt líf? Þetta er kjarni málsins. Mér finnst það mikilvægast í þeim tillögum sem hér eru lagðar fram að innlegg hvers sjóðfélaga verður hans eigin eign eða erfingja hans að lokum en heldur ekki áfram að vera eign sjóðsins sem enginn sérstakur maður á í rauninni. Sjóðurinn heldur áfram að vera bákn. Einhverjir menn eru valdir til þess að stjórna sjóðnum og hafa þar með undir höndum óhemjumikinn pening og óhemjumikið vald sem þeir geta síðan notað eftir eigin geðþótta. Það er miklu eðlilegra að þeir peningar sem eftir
eru í sjóðnum þegar maður fellur frá fari til erfingja hans og komi þeim að notum sem hverjir aðrir fjármunir úr dánarbúi. Hefur nokkurn tíma verið reiknað út hlutfallið á milli þess sem meðalsjóðfélagi borgar í lífeyrissjóð og síðan þess sem meðalsjóðfélagi fær úr lífeyrissjóðnum eftir að vinnudegi hans lýkur? Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um þetta hér inn í þessa umræðu þótt seinna verði hversu mikinn lífeyri sjóðfélaginn fær í sinn hlut af sínum iðgjöldum, framreiknuðum með vöxtum og vísitölu og öllu sem því fylgir. Það kæmi mér ekki á óvart þó lífeyrissjóðsfélaginn fengi aðeins lítinn hluta af þeim peningum sem hann hefur borgað. Hinir peningarnir eru áfram inni í sjóðnum, einskis manns eign og undir höndum þeirra manna sem ráða svona sjóðum.
    Virðulegi forseti. Ég tel að þetta sé kjarni málsins og ég lýsi því yfir fullum stuðningi við þessa þáltill. og vona svo sannarlega að hún eigi eftir að leiða til góðs í umræðunni um lífeyrissjóðsmál.