Eftirlaunasjóðir einstaklinga
Mánudaginn 29. janúar 1990


     Alexander Stefánsson:
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins koma inn í þessar umræður sem meðflm. að þessu frv. Ég bendi á og undirstrika það sem hv. frsm. sagði hér áðan og lagði áherslu á, að kominn væri tími til fyrir hv. alþm. að vakna af svefni í sambandi við lífeyrissjóðsmálin. Þetta vil ég sérstaklega taka undir um leið og ég get vottað að hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson vakti athygli mína þegar ég kom fyrst inn á þing, fyrst sem varamaður og síðan sem aðalmaður 1978. Hann var að berjast fyrir nýjung sem þá var virkilega réttur tími til að taka til alvarlegrar íhugunar og koma í lög. En því miður var myndaður varnarmúr um leið og frv. kom fram, ekki aðeins hér á hv. Alþingi heldur einnig hjá aðilum vinnumarkaðarins, hvoru megin við borðið sem þeir voru, til að koma í veg fyrir að slíkt gerræði yrði framkvæmt, að stofna einn gegnumstreymislífeyrissjóð fyrir alla landsmenn. Þetta var mjög slæmt og hefur gengið eiginlega alla tíð síðan. Það hefur mætt meiri mótspyrnu með hverju árinu sem líður að koma þarna á breytingu enda eru lífeyrissjóðir í landinu nú orðnir einhverjar öflugustu fjármagnsstofnanir landsins sem heild þar sem ég hygg að útlán þeirra séu núna nálægt 67--70 milljörðum kr.
    Sú tilraun sem við flm. þessarar þáltill. erum að gera er fyrst og fremst að benda á nýjar leiðir að því er varðar eftirlaun eða tryggingu í sambandi við eftirlaun. Það má vel vera að mönnum finnist þetta djarft til tekið. Hér eru opnaðar nýjar leiðir án þess að skerða nokkurn skapaðan hlut hjá því kerfi sem fyrir er og má deila um það að sjálfsögðu.
    En ég get tekið undir það sem kjarnaatriði hjá hv. þm. Ásgeiri Hannesi Eiríkssyni, 16. þm. Reykv., að það er náttúrlega löngu orðið tímabært að menn spyrji sig að því hversu háan lífeyri lífeyrisþegar fái í núverandi kerfi þegar á þarf að halda eða við verklok. Það er þessi spurning sem er e.t.v.
aðalatriðið þegar ýmis önnur grundvallaratriði eru skoðuð, að það skuli vera 15--20% af vinnandi fólki á Íslandi sem hefur engan lífeyrisrétt, engan, nema það sem kemur í gegnum almannatryggingakerfið. Þar af leiðandi er það mitt mat að svona þáltill. sé fyrst og fremst til að vekja menn upp til raunhæfrar umræðu um þetta stóra, alvarlega mál. Alþingi Íslendinga getur ekki áfram gegnum árin látið sem þetta mál sé ekkert aðalatriði í þjóðfélaginu, því það er það. Eins og hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson sagði réttilega hér áðan er það aðeins lífeyrissjóður opinberra starfsmanna sem tryggir lífeyrisréttindi. Og hann gerir það með því að Alþingi, í gegnum fjárlög, verður árlega að láta hundruð milljóna, nú síðast þurfti 1,2 milljarða, til þess að tryggja að öryggi fylgi þessu kerfi frá ári til árs.
    Ég held að ástæða sé til þess að menn hugsi um þetta í alvöru. Við þurfum betra kerfi. Og auðvitað get ég tekið undir það og hef oftar en einu sinni lagt það til í mínum flokki, bæði í þáltill. og í umræðum um stjórnarsamstarf o.s.frv., að hrinda því í verk að

koma á löggjöf um einn lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn. En við megum ekki loka augunum fyrir því að gegn þessu er mjög hörð andstaða og er ekki að undra þegar við lítum á það að hér á landi eru starfandi um 85--90 lífeyrissjóðir.
    Ég vil benda á það í leiðinni að sl. haust lagði ég fsp. fyrir hæstv. fjmrh. um hvernig háttað væri opinberu eftirliti með starfsemi og fjárreiðum lífeyrissjóða. Og hvað kom í ljós? Það er ekkert slíkt opinbert eftirlit til. Einu ákvæðin varðandi lífeyrissjóði landsins eru þau að fjmrh. þarf að samþykkja stofnun lífeyrissjóðs. Þeir eiga að vísu að senda ársreikninga eða upplýsingar um ársreikning til Seðlabankans sem hefur það sem viðmiðunartölur í sínum skýrslum. En það er ekkert opinbert eftirlit með lífeyrissjóðum á Íslandi. Þegar maður skoðar löggjöf lífeyrissjóða í löndunum í kringum okkur, bæði að því er varðar Norðurlönd og Evrópulöndin almennt, kemur í ljós að alls staðar er haft eftirlit með lífeyrissjóðunum. Þar er það skylda, lögboðin skylda, hér á Íslandi ekki. Þetta eitt sér var einn tilgangurinn með þessari fsp., að fá þetta fram og hæstv. fjmrh. viðurkenndi þetta og jafnframt að það væri löngu kominn tími til að setja löggjöf um þetta atriði. En slík löggjöf tekur ekki á því sem við erum að tala um þó hún sé nauðsynleg. Þegar litið er til þess að lífeyrissjóðirnir eru kannski með 20--30 milljarða á ári í ráðstöfunarfé er náttúrlega fullkomin ástæða til að það sé skoðað niður í kjölinn hvort þeir eiga að fara sínu fram án þess að ákveðnar reglur séu fyrir hendi og tryggi í öllu öryggi sjóðfélaga.
    Að lokum, virðulegi forseti, þar sem ekki er tími til að tala mikið um þetta mál, vil ég undirstrika gildi þess að fram komi svona róttæk þáltill. sem fer nýjar leiðir, eins og ég sagði áðan, opnar möguleika á því að tryggja þessi réttindi með því að fara með þetta í gegnum bankakerfið og því verði stillt upp eins og þáltill. gerir ráð fyrir. Ég vona að hún verði til þess að hér á hv. Alþingi fari fram alvarlegar umræður og það herði á stjórnvöldum. Ég tek undir með hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni, það er löngu kominn tími til þess að ríkisstjórn, hver sem hún er, hún taki á sig rögg og láti Alþingi fá málið með formlegum hætti, þ.e. með því að bera fram það frv. sem stjórnskipuð nefnd
í gegnum áraraðir hefur komið sér saman um að leggja fram. Það er lágmark.
    Ég tel að þessi þáltill. eigi fyllilega rétt á sér. Hún setur fram nýjar hliðar á þessum málum sem eiga fullkomlega rétt á sér í þessari umræðu. Þess vegna vorum við sammála um að leggja þessa þáltill. fram, til þess, eins og hv. flm. lagði áherslu á, að vekja þingmenn af áratuga svefni í sambandi við þessi mál.