Eftirlaunasjóðir einstaklinga
Mánudaginn 29. janúar 1990


     Alexander Stefánsson:
    Virðulegi forseti. Það eru aðeins örfá atriði. Mér finnst ekki ástæða til að taka hér upp efnisumræður þar sem ræðutíminn er takmarkaður og menn hafa ekki rétt til að taka oftar en tvisvar til máls. En ég vil leggja áherslu á að þetta mál fái þinglega meðferð og í þeirri nefnd sem fær það til umfjöllunar verði það sent út til umsagnar til sem flestra aðila svo að hægt sé að fá raunverulegan þverskurð af þeirri umræðu sem nú fer fram í þjóðfélaginu um lífeyrismálin almennt. Ég held að þetta sé miklu meira rætt núna en nokkurn tíma áður. Sem betur fer er almenningur hér á landi búinn að átta sig á því betur en áður hvað þetta er þýðingarmikið atriði í sambandi við almenn lífskjör í landinu. Þess vegna held ég að svona þáltill. eða umræður í kringum hana hljóti að hafa mikla þýðingu til þess að menn fari að tjá sig meira um þessi mál en áður hefur verið.
    Ég ætla ekki að ræða þær fullyrðingar sem komu hér fram hjá hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni, 14. þm. Reykv., sem finnur þessu allt til foráttu. Ég vil aðeins segja við hv. þm. að hann veit auðvitað betur, hann veit gallana á þessu kerfi sem við búum við, hann veit að það getur ekki staðið lengur óbreytt. Hann er einn af þeim mönnum sem hafa bent á það í áraraðir að hér þurfi að gera á mikla breytingu þannig að þetta kerfi skili sér. Það er náttúrlega hörmuleg staðreynd, ef við bara horfum á það eitt sér, þær fullyrðingar sem núna koma fram frá tryggingafræðingum sem fjalla, við skulum segja með mestri þekkingu um þessi mál, að það skuli liggja fyrir að ef þessir sjóðir eigi að standa undir því sem er þeirra aðalhlutverk, að tryggja öryggi sjóðfélaga, þá skuli þurfa að hækka iðgjöld úr 4 + 6% í 15--18%. Þetta er náttúrlega enginn smáskattur sem mundi bætast við inn í þetta kerfi þannig að fullkomin ástæða er til þess fyrir Alþingi að átta sig á alvöru þessa máls.
    Ég er ekkert að taka til umræðu hér hvaða kerfi er best. Ég lýsti yfir fylgi mínu við það frv. sem Guðmundur H. Garðarsson flutti þegar ég kom fyrst hérna inn á þing. Því miður, þrátt fyrir heitstrengingar í stjórnarsáttmálum undangenginna áraraða og þrátt fyrir umræður hér við ýmis tækifæri um þáltill. um heildarendurskoðun o.s.frv., þá hefur þessu máli ekki skilað fram. Ég segi fyrir mig að ég batt vonir við þá stóru, miklu nefnd sem var sett í að endurskoða lífeyrissjóðsmálin almennt og skilaði um það áliti. Þó að einhver klofningur eða mismunandi skoðanir væru í því áliti vonaði ég að það mundi verða til þess að lífeyrismálin yrðu tekin föstum tökum. En ekkert hefur skeð, því miður. Þess vegna er fullkomin ástæða til að taka upp harðar umræður um þetta mál einmitt nú á yfirstandandi þingi, hvort sem það leiðir til að þessi leið verði valin, sem við flm. köllum nýja leið í þessum málum eða farið yrði í að ræða þessi mál almennt, þyrfti niðurstaðan að vera breyting á núverandi kerfi. Það er alveg öruggt mál því framtíð þúsundanna á Íslandi sem eru í lífeyrissjóðum, og

þurfa að vera í lífeyrissjóðum, er í húfi. Þess vegna þarf að taka þetta mál réttum tökum og ræða það í fullri alvöru hvaða leiðir menn leggja til. Niðurstaðan verður að vera ein og sú sama, að við sköpum það öryggi sem lífeyrissjóðakerfið almennt á að vera Íslendingum í nútíð og framtíð.