Eftirlaunasjóðir einstaklinga
Mánudaginn 29. janúar 1990


     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Allir hv. þm. sem hér hafa talað hafa rætt um nauðsyn þess að bæta lífeyristryggingarkerfi þjóðarinnar. Ég vil þess vegna, virðulegi forseti, fá að segja þetta: Ég legg áherslu á að hv. stjórnarþingmenn sem hafa nú valdið hér á hinu háa Alþingi, í skjóli meiri hluta, tryggi að hæstv. ríkisstjórn leggi fram frv. til laga um starfsemi lífeyrissjóða eins og það liggur fyrir hjá hæstv. fjmrh. Með því móti mundum við hv. þm. vissulega tryggja betur stöðu þeirra lífeyrisþega sem hér hafa verið til umfjöllunar.