Eftirlaunasjóðir einstaklinga
Mánudaginn 29. janúar 1990


     Flm. (Guðni Ágústsson):
    Hæstv. forseti. Vegna ummæla hv. 14. þm. Reykv. hér áðan þar sem hann sagði að þessi þáltill. okkar væri hámark auðhyggju þar sem öllum félagslegum sjónarmiðum væri kastað fyrir borð. Ég mótmæli þessum orðum og vitna hér í 7. gr. hjá okkur þar sem við segjum og viðurkennum að hlutverk lífeyrissjóðanna er tvenns konar. Annars vegar söfnunarþátturinn, hins vegar tryggingarþáttur sem við ætlum að fara með inn í Tryggingastofnun ríkisins. Að örorkan, makalífeyrisgreiðslur og barnalífeyrisgreiðslur verði greitt af Tryggingastofnun ríkisins. Þannig að við höfum hugsað um hinn félagslega þátt.
    En eitt vil ég minna Guðmund H. Garðarsson á og það hygg ég að svo sé með flesta menn, hvar sem þeir eru í pólitík, stundum er sagt að næmasta ,,líffærið`` sé veskið. Það hefur komið nýlega fram að jafnvel þeir sem hafa lægstu launin á Íslandi spara mest. Þannig að við eigum að rækta það að fólk fari vel með og spari. Í ofanálag yrðu þessir peningar varðveittir í heimabyggð.
    En ég vildi fyrst og fremst mótmæla þessum ummælum sem menn reyna nú að hafa í frammi, að þetta sé hámark auðhyggjunnar. Þetta er aftur á móti hámark fyrirhyggjunnar.
    Ég vil svo að lokum minna á það að ýmsar þjóðir eru þegar að skoða þessar leiðir og sumar hafa opnað fyrir þær í litlum mæli.