Árni Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. Ég vildi gjarnan leggja orð í belg um þetta ágæta mál sem hér hefur verið flutt og mælt fyrir. Það eru nokkur atriði þessu til viðbótar sem ég hygg að gæti verið gott að taka inn í þessa umræðu, hefur lítið verið rætt um en þarfnast bæði eftirlits og reglna. Þá á ég sérstaklega við flutning á bílum erlendra manna hingað til lands.
    Það hefur orðið gjörbreyting á ýmsum þáttum ferðamála hér á Íslandi eftir að fólks- og bílaflutningaskipið Smyrill hóf ferðir til og frá Íslandi. Erlendir ferðamenn hafa komið með eigin bíla til Íslands, oft stóra, mikla, þunga og öfluga torfærubíla sem þeir hafa á heimaslóðum, vegna þess hve matvæli og bensín og olía eru dýrt hér á landi, fyllt af matvælum áður en þeir hafa komið hingað til lands og haft meðferðis mikið magn af bensíni og olíum, þannig að þeir hafa ekki þurft að eyða sínum peningum, sínum gjaldeyri, til að festa kaup á þessum varningi hér.
    Mín skoðun er sú að það sé til lítils fyrir okkur að fá slíka ferðamenn í heimsókn. Þeir greiða raunverulega enga fjármuni hér á landi fyrir að fá að ferðast um Ísland. Eftirlitið með því hvað þeir taka með sér í þessum bifreiðum hingað til lands er sáralítið og mér segja ferðaskrifstofumenn að það eftirlit hafi farið mjög minnkandi á undanförnum árum og sé nánast ekkert núna. Það er ekki bara að flutningurinn á eldsneyti í miklum mæli í bílum yfir hafið í skipum eins og Smyrli er stórhættulegur, heldur er það svo að þessir ferðamenn fara oft líka með lítilli gát um landið okkar. Núna starfar nefnd sem fjallar um akstur utan vega og mun væntanlega skila niðurstöðum í lok febrúarmánaðar eða í byrjun mars og gera tillögur um nýjar reglur um akstur utan vega hér á landi. Í þessari nefnd hafa komið fram upplýsingar um að erlendir ferðamenn á stórum og miklum torfærubílum hafi valdið umtalsverðum
skemmdum en séu þó að mörgu leyti mun skárri í þessum efnum en íslenskir ferðamenn. Þeir hafi meiri aðgát á ferðum sínum og hvar þeir aka en engu að síður hafi orðið umtalsverð náttúruspjöll vegna ferða þeirra.
    Ég tel að nauðsynlega þurfi að setja strangar reglur um innflutning hingað til lands á hvers konar matvælum sem þetta fólk kemur með til landsins og það verði mjög að takmarka það magn af bensíni og olíu sem það fái að koma með til landsins.
    Ég er líka þeirrar skoðunar að mjög skorti á upplýsingar til þessara ferðamanna áður en þeir leggja af stað til Íslands um hvað sé heimilt og hvað sé óheimilt. Við umræður um þessi mál í nefnd þeirri sem ég gat um áðan, sem fjallar um umferð utan vega eða akstur utan vega, hefur það komið ljóslega fram að margt af þessu fólki kemur til Íslands án þess að hafa í fórum sínum nokkrar upplýsingar frá erlendum ferðaskrifstofum um það hvernig því beri að haga sér í umgengni við landið, hvar það megi ferðast og hvernig það á yfirleitt að haga sér gagnvart íslenskri

náttúru.
    Þetta er einn þátturinn í þeirri heildarstefnu sem þarf að móta hér á landi. Það hefur komið allt of oft fyrir, eins og ég hygg að frsm. hafi komið að, að erlendir aðilar hafi flutt hingað til lands fólksflutningabifreiðir, þeir hafa ekki einu sinni tekið á leigu íslenskar fólksflutningabifreiðir. Erlendir bílstjórar hafa verið á þessum bílum og þeir hafa um leið verið fararstjórar fyrir þessa hópa. Og það er nú svo komið að umtalsverður hluti af því fólki sem kemur hingað til lands, erlenda fólkinu sem kemur hingað til lands með Smyrli í skipulögðum ferðum, kemur á vegum erlendra ferðaskrifstofa og ferðast á þeirra vegum hér um landið.
    Ég er ekki tilbúinn til að lána landið mitt erlendum ferðamönnum sem greiða ekkert fyrir lánið. Ég held að þetta þurfi að stöðva, það þurfi að setja strangar reglur um þennan innflutning og það þurfi að vera liður í þeirri endurskipulagningu og heildarstefnu sem snertir þessa atvinnugrein. En ég fagna þessari umræðu sem hefur orðið um ferðamál. Ferðamálaumræða á Alþingi hefur verið af ákaflega skornum skammti á undanförnum árum og þessi veigamikla atvinnugrein hefur engan veginn fengið þá athygli hins háa Alþingis sem henni ber.