Orkuskattur og kjarasamningar
Þriðjudaginn 30. janúar 1990


     Jóhannes Geir Sigurgeirsson:
    Hæstv. forseti. Ég ætla að byrja á því að biðja hv. 14. þm. Reykv. afsökunar á því að mér skyldi hafa orðið það á að --- hann sagði glotta, ég glotti ekki, ég skellti upp úr þegar hann tók þannig til orða án nokkurra frekari skýringa að það væri ruddaskapur af ríkisstjórn að leggja á skatta og lái nú mér hver sem vill. ( GHG: Með þeim hætti sem gert er, sagði ég.) Hv. 14. þm. Reykv. hafði hér stór orð um okkur stjórnarþm. og ráðherra hér. Ég ætla ekki að fara að verja ráðherra. Það væri hins vegar líka hægt að hafa hér stór orð um framkomu einstakra þm. í stjórnarandstöðu. (Gripið fram í.) Það væri ósköp vel hægt að gera það. Ég man ekki betur en að fyrir viku hafi einn stjórnarandstöðuþm. neitað að taka þátt í umræðu um ákveðið mál, neitað meðan hér væri eingöngu fjmrh. og ekki iðnrh. líka. Síðan gerist það núna að annar hv. þm. stendur hér upp og krefst þess að málið sé tekið á dagskrá og fjmrh. kallaður til ... (Gripið fram í.) Já, en þá erum við patt. Þá kemur upp sama staðan. Þá væntanlega neitar hv. 2. þm. Norðurl. e. að ræða málið út frá þeim forsendum. Og svo tala menn um vandræðagang í stjórnarliðinu. Ég held að menn ættu að skoða svolítið í eigin barm.