Orkuskattur og kjarasamningar
Þriðjudaginn 30. janúar 1990


     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Ég skil vel að hv. 5. þm. Norðurl. e. skuli vilja segja sem minnst núna í sambandi við skattana. Hann er búinn að læra af því nú á þinginu að það borgar sig ekki að segja of mikið því að hann veit ekki með hverju hann verður að greiða atkvæði að síðustu. Auðvitað þykir honum gott ef hann getur frestað því um einn eða tvo daga að lýsa afstöðu sinni til frv. um skatt á orkufyrirtæki, en hann hefði verið meira karlmenni ef hann hefði getað skýrt frá því hér hver væri hans skoðun, hvort hann væri samþykkur frv. eða vildi breytingar á því. Karlmennska er fólgin í því að þora að segja skoðun sína.
    Ég sé að formaður fjh.- og viðskn. er kominn í salinn og það var þess vegna sem ég kvaddi mér hljóðs. Ég hef vakið athygli á því að ekki er búið að kalla saman fund í fjh.- og viðskn. það sem af er þessu ári. Þar eru til meðferðar mál stjórnarandstöðunnar og ég þekki það af reynslunni, ekki síst ef fulltrúi Alþfl. er við í fjh.- og viðskn., að það getur verið torvelt fyrir stjórnarandstöðuna að koma sínum málum að og ég spyr þess vegna hvernig á því megi standa að ekki hafi verið boðaður fundur í fjh.- og viðskn. til þess að við getum unnið okkar skylduverk.