Orkuskattur og kjarasamningar
Þriðjudaginn 30. janúar 1990


     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson virðist ekki vilja skilja það sem ég sagði hér áðan. Ég var með athugasemdir við þær aðferðir í skattheimtu sem núv. hæstv. ríkisstjórn viðhefur og ég var með sérstakar athugasemdir vegna þeirrar skattlagningar sem á að leggja á orkufyrirtækin. Ef það er eitthvert gamanmál fyrir hv. þm. að það þarf að hækka raforkuverð til almenningsveitna um 46%, ef það er eitthvert gamanmál fyrir hv. þm. að það á að skattleggja með þessum hætti orkufyrirtæki um tæpa 2 milljarða, þá skil ég ekki almennilega fyrir hverju hv. þm. berst. Er hann kominn hér inn á þing til þess að berjast fyrir því að tryggja Framsfl. völd á Íslandi til að skattpína íslenskan almenning? Er hv. þm. kominn hér inn á þing til þess að óvirða, ég vil segja virðulega, heiðarlega þingmenn eins og hv. þm. Halldór Blöndal er?
    Ég kannast við það frá fortíðinni, þegar maður glaptist á það sem unglingur að lesa skrif Jónasar frá Hriflu, að þá tíðkuðust einmitt svona vinnubrögð, svona talsmáti og svona viðhorf til andstæðinganna. Hriflu-Jónas á greinlega enn þá taugar inn í Framsfl. og það virðist sem hin yngri kynslóð, sem er að koma upp í Framsfl., hafi tileinkað sér þann hugsunarhátt sem Hriflu-Jónas praktiseraði á sínum tíma þegar hann var að glíma við andstæðinga sína. Það heyrðist stundum þá að þetta kynni eða gæti verið satt en það þurfti ekki að vera satt.
    Nei, virðulegi forseti. Ég hlýt auðvitað að fá að fjalla um þetta hér og ég endurtek ósk mína um það að hæstv. fjmrh. og hæstv. iðnrh. mæti hér vegna þess að það er bara ekki nægilegt fyrir mig að segja að formenn þingflokkanna eða einstakir ráðherrar séu uppteknir við það að ganga frá samningum. Ég þarf einmitt að fá að tala við þessa herra í dag vegna þeirra atriða sem þeir eru að fjalla um, vegna þess að ef þessir flokkar sem nú ráða völdum á Íslandi ætla að halda áfram uppteknum hætti endar það með því að það verður ekkert frjálst, hvorki samningsatriði milli verkalýðsins og vinnuveitenda né önnur atriði í samskiptum manna á Íslandi. Þeir stefna að því núna, hugsanlega með samstarfsmönnum sínum sem ráða töluverðu í Alþýðusambandi Íslands og Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, að setja á lögþvingun. Þeir þurfa ekki einu sinni samþykki vinnuveitenda til þess að geta komið því í gegn á Alþingi að neyða t.d. lífeyrissjóðina til þess að lána 3--4 milljarða til að borga niður þessa smánarsamninga, þessar smánarprósentur sem fólkið á að fá í samningum núna. Þeir geta gert það með lögum eins og þið hafið gert hingað til, hv. þm. Skúli Alexandersson. Þið hafið framkvæmt hér verknað sem brýtur í bága við frjálsa samninga. ( SkA: Er ekki Vinnuveitendasambandið ...) Því miður, hv. þm. Skúli Alexandersson, því miður hefur hv. þm. tekið þátt í því að skerða samningsfrelsi á Íslandi. Ég efast ekki um að framsóknarmenn láta sig ekki muna neitt um það. Þeir hafa aldrei verið neinir sérstakir vinir

verkalýðsins eða láglaunafólksins. Þess vegna eru þeir fylgissnauðir í verkalýðshreyfingunni og munu verða um ókomna framtíð.
    Ég vildi þess vegna, virðulegi forseti, fá að ræða það hér við hæstv. ráðherra með hvaða hætti þeir ætla að niðurgreiða samninga með lánsfé frá fólkinu, úr lífeyrissjóðum fólksins. Það hefði verið nær að hv. stjórnarþm. legðu hér fram frv. um það hvernig ætti að bæta lífeyristryggingar þessa fólks en ekki hvernig ætti að þjóðnýta það fé sem er í lífeyrissjóðunum með þeim hætti sem hér um ræðir. Það er fullkomlega tímabært að íslenskir fjölmiðlar fari að átta sig á því hvað hér er að gerast. Þetta er nákvæmlega eins og að segja við starfsmann sem maður stæði í samningum við áður en maður gengi frá samningi um að hækka kaupið hans: ,,En heyrðu vinur, áttu svo ekki bankabók?`` Jú, hann á bankabók. Og segði síðan: ,,Ja, þá skaltu lána mér það sem ég ætla að hækka launin þín um.`` Þetta er nákvæmlega sami hluturinn. Og ég segi ekki annað en það, hv. þm. Skúli Alexandersson, að ég mundi skammast mín fyrir það að hafa fyllt flokk þeirra manna í gegnum tíðina, eins og Eðvarðs Sigurðssonar og fleiri, og haga sér svo með þeim hætti sem Alþb. gerir nú. Nú er allt gert fyrir völdin. Fólkið skiptir ykkur engu máli, því miður. Það var þó gott að eiga bandamenn stundum í góðum og heiðarlegum alþýðubandalagsmönnum, en þeir fyrirfinnast greinilega ekki lengur.