Orkuskattur og kjarasamningar
Þriðjudaginn 30. janúar 1990


     Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Vegna orða hv. 2. þm. Norðurl. e. um að ekki hafi verið kallaður saman fundur í fjh.- og viðskn. get ég upplýst það hér að í þessari viku stendur til að kalla saman fund, ekki vegna þessara orða heldur vegna þess að fyrr hefur ekki þótt ástæða til að halda fund. Að vísu eru nokkur frumvörp fyrir nefndinni en ég held að samkomulag sé um það meðal flestra nefndarmanna að afgreiða þau mál á næsta fundi nefndarinnar. Ég vildi þess vegna frekar hafa fleiri mál á dagskrá og afgreiða þá fleiri mál í einu.
    Vegna þeirra umræðna sem hér hafa orðið vítt og breitt um kjarasamningana sem nú er unnið að, vegna skattafrv. sem átti að vera hér á dagskrá og ég er nú feginn að var ekki, ég átti von á að hér yrði friðsamt í dag ( EgJ: Sem endranær.) þá flugu mér í hug orð sem einhvern tíma voru viðhöfð en hljóða eitthvað á þessa leið: Eigi skal vaskur maður semja um frið ef ófriður er í boði.
    Þessi umræða hefur ekki þjónað nokkrum tilgangi og þessar þingskapaumræður ekki heldur. Það sem hér hefur farið fram er kannski það sem við eigum von á að gerist hér á morgun þegar hv. þm. Sjálfstfl. ætla að gera lokaatlögu að ríkisstjórninni áður en henni tekst að gera þá kjarasamninga sem nú eru á lokastigi. Ég held að þessir kjarasamningar sýni það, ef þær upplýsingar eru réttar sem ég hef fengið, að hér muni skapast grundvöllur undir það að taka á þeim raunverulegu vandamálum sem við höfum verið að glíma við og þetta fari svona hryllilega í taugarnar á þessum blessuðu mönnum.