Tekjuskattur og eignarskattur
Þriðjudaginn 30. janúar 1990


     Flm. (Guðmundur H. Garðarsson):
    Virðulegi forseti. Þótt þessi skæru ljós sem hér eru í salnum fari oft frekar illa með augun í mér þegar þau eru viðvarandi allan daginn, þá eru þau til þess að sjónvarpið geti fylgst með málum og gefið þjóðinni kost á því að fylgjast með því hvernig störfum er háttað hér í deildinni sem og í Nd. og er það vissulega af hinu góða. Ég segi þetta að gefnu tilefni, virðulegi forseti, vegna þess að nú er við völd á Íslandi ríkisstjórn sem kennir sig við félagshyggju og jafnrétti. Hér er til umræðu frv. til laga sem felur í sér mikið jafnrétti, eins og bæði kemur fram í efni frv. sjálfs sem og grg. og kom einnig fram í ræðu hv. þm. Guðrúnar Agnarsdóttur. Viljum við flm. þakka fyrir þann stuðning og það sem kom fram í máli hennar, að kvennalistakonur vilja skoða þetta frv. vel í nefnd með tilliti til þess að það jafnrétti yrði tryggt sem frv. gerir ráð fyrir.
    Það er hins vegar sorglegt en jafnframt eftirtektarvert að aðeins tveir stjórnarþm., virðulegur forseti og hv. þm. Framsfl. sem hér er staddur, eru viðstaddir þegar verið er að fjalla um þetta jafnréttismál. Ég vil undirstrika það, virðulegi forseti, að það lýsir nokkru. Og þó áðan hafi farið fram umræða vegna athugasemda við þingsköp, um að hæstv. ráðherrar væru svo uppteknir af því, að því er sagt er, að tryggja hag láglaunafólks, tryggja jöfnuð og jafnrétti, þá láta þeir ekki svo lítið, hvorki hv. stjórnarþm. né hæstv. ráðherrar, að fjalla um mál sem þetta á hinu háa Alþingi. Það segir auðvitað sína sögu um það hvernig að málum er staðið af hæstv. ríkisstjórn.
    Ég vænti þess, virðulegi forseti, eins og hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir, að þetta mál fái afgreiðslu í fjh.- og viðskn. deildarinnar. Og ég meira en vænti þess, ég geri kröfu til þess að stjórnarþm. leggist ekki á jafnréttismál sem þetta í nefndarstörfum með þeim hætti sem því miður hefur allt of oft gerst eftir að núv. ríkisstjórn komst til valda. Það gefst tækifæri til þess síðar að ræða um hvernig þessi ríkisstjórn starfar og hver er meginstefna og tilgangur hennar, sem allir landsmenn vita að er fyrst og fremst að viðhalda valdi fyrir þá flokka sem standa að baki ríkisstjórninni og sérstaklega fyrir ákveðna hæstv. ráðherra.
    Það þarf ekki að flytja þann boðskap í ræðu úr sölum Alþingis. Íslenska þjóðin gerir sér fullkomlega grein fyrir því í hverju þetta er fólgið. Skoðanakannanir eru mjög vísandi um það hvert er álit fólks á þessum valdamönnum. En hvað sem því líður hljótum við hv. þm. að gera kröfu til þess að frv. sem þetta, sem stefnir að auknu jafnrétti, hljóti skjóta og góða afgreiðslu á hinu háa Alþingi.