Tekjuskattur og eignarskattur
Þriðjudaginn 30. janúar 1990


     Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Það hefur aldrei staðið á mér sem formanni fjh.- og viðskn. að halda fundi. Ég held að menn hafi frekar kvartað undan því að ég haldi of marga fundi en hitt. Það kemur ekki til með að verða mikil bið á því að fundur verði haldinn í þessari hv. nefnd. Öll mál sem fyrir þá nefnd hafa komið hafa fengið mjög málefnalega og góða afgreiðslu. Ég hef ekki heyrt menn kvarta undan því að mál hafi verið tekin þar út með ofbeldi eða á annan þann hátt sem ótilhlýðilegur er.
    Ég geri ráð fyrir því, eins og ég sagði, að þetta frv. fái sína meðferð og talað verði við þá menn sem æskt verður eftir að verði kallaðir fyrir nefndina og umsagna verði leitað hjá þeim aðilum sem álit hafa á þessu máli.
    En varðandi það sem fram kom síðar í máli hv. 6. þm. Reykn. Salome Þorkelsdóttur um Sjálfstfl. og hvað hann er orðinn sterkt afl held ég að menn ættu að passa sig á því að ofmetnast ekki þrátt fyrir skoðanakannanir. Menn verða að líta til þess að skoðanakönnun er bara skoðanakönnun en það sem gildir er það sem kemur úr kjörkössunum að kosningum loknum. Ég held að sjálfstæðismenn ættu einmitt að minnast þess að fyrir síðustu kosningar var þeim spáð töluvert miklum sigri en þegar búið var að telja úr kössunum reyndist sigurinn heldur betur snúast í tap.