Tekjuskattur og eignarskattur
Þriðjudaginn 30. janúar 1990


     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu enda er ég búinn að ljúka mínum ræðutíma samkvæmt þingsköpum. En vegna þess atriðis sem kom fram hjá hv. þm. Guðmundi Ágústssyni um að ekki væri hægt að afgreiða mál úr fjh.- og viðskn. vegna þess að hann hefði beðið einhvern þingmann Sjálfstfl. um að tala við flm. þess frv. sem liggur fyrir í nefndinni ( GuðmÁ: Hann bað um að mega tala við þig sjálfur.) þá verð ég að segja þetta, virðulegi forseti: Það er ekki venjan að þingmenn sem flytja mál séu beðnir um að benda á hvert málin eigi að fara til umsagnar. Mér finnst það ekki þingræðislegt. Það er eðlilegt að nefndirnar ákveði sjálfar hvert á að vísa málum til þess að fá hlutlaust mat þeirra sem eru umsagnaraðilar að viðkomandi málum. Hins vegar getur það auðvitað komið fyrir að þingmenn sem sitja í nefndum þar sem frv. sem þeir hafa flutt koma inn hafi áhrif á það hvert málinu er vísað til umsagnar. En ef hv. þm. vill fá það héðan úr ræðustól hvert hefði átt að vísa þessu máli, þá er það svo augljóst að það er broslegt fyrir hann sjálfan og nefndarmenn að láta stranda á því hvert hefði átt að vísa umræddu máli.
    Ef ég man rétt snýr þetta mál að lífeyrissjóðunum. Það snýr að því að lífeyrissjóðir fái heimild samkvæmt lögum til að taka þátt sem eignaraðilar í þjónustumiðstöðvum og hjúkrunarstofum í húsakynnum aldraðra, þ.e. í þessum stofnunum sem verið er að byggja upp núna. Ég talaði fyrir þessu máli fyrir tveimur til þremur mánuðum. Nú kemur það m.a. fram í dagblaðinu Tímanum í morgun að mikil vanhöld eru á því að þessar nýju byggingar sem verið er að byggja fyrir aldraða hafi þá þjónustu sem til er ætlast, þannig að það var fullkomlega tímabært þegar ég lagði þetta frv. fram í nóvember sl. að afgreiða það með skjótum hætti. Frv. gengur út á það, virðulegi forseti, svo ég skýri þetta nánar svo enginn misskilningur verði í þingsögunni um það, að lífeyrissjóðirnir verði eignaraðilar og auðveldi að þessi uppbygging geti átt sér stað enda er það rökrétt. Lífeyrissjóðirnir eru fyrir aldraða, fyrir þá sem byggja þá upp en ekki fyrir skattheimtumenn ríkisins, allra síst fyrir þann skattheimtumann sem núna fyllir sæti fjmrh., sem sér enga aðra leið til að bæta kjör fólksins í landinu en þá að láta fólkið sjálft lána sér peningana til að geta hækkað kaupið hjá því. Ég taldi miklu eðlilegra að þetta fólk sem hefur myndað þessa sjóði fengi að njóta þeirra í ellinni, bæði í gegnum tryggingar og einnig þá aðstöðu sem yrði í slíkum húsakynnum. Því finnst mér það broslegt, hv. þm. Guðmundur Ágústsson, að koma með þetta hér og nú. Og mér finnst það líka bera vott um afskaplega slæm vinnubrögð af hálfu nefndarinnar að hafa nú ekki það hugmyndaflug og koma því í framkvæmd að senda þetta frv. til umsagnar t.d. til Landssambands lífeyrissjóða og SAL, sem eru Samtök almennra lífeyrissjóða, og einnig til lífeyrissjóðs Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, svo einhverjir séu nefndir.

Þá hefði verið eðlilegt að senda það til umsagnar Samtaka aldraðra og annarra sem koma við sögu í þessum efnum. Þannig að þessi viðbára stenst ekki.
    Ég óska þess vegna eftir því, virðulegi forseti, og beini því til hv. þm. Guðmundar Ágústssonar, formanns fjh.- og viðskn., að hann sendi þetta frv. til umsagnar hið skjótasta.