Landsvirkjun
Þriðjudaginn 30. janúar 1990


     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins leggja nokkur orð í belg til þess að lýsa stuðningi mínum við efni þess frv. sem liggur frammi til umræðu, enda kemur stuðningur minn fram þar sem ég er einn af meðflm. Frv. þetta er um málefni sem snertir mjög daglegt líf og kjör fólks á þeim svæðum þar sem raforkuverð er hátt, ekki síst á þeim svæðum þar sem einnig er hitað upp með rafmagni. En þetta er mál sem fólki úti á landinu verður tíðrætt um við okkur þm. þar sem við hittum það. Ég tel að jöfnun raforkukostnaðar sé mikilvægt skref í viðleitni okkar til að jafna aðstöðu fólks án tillits til búsetu. Vil ég reyndar geta þess hér um leið að eitt af meginmarkmiðum Kvennalistans er að jafna stöðu karla og kvenna. Við teljum okkur skilja einkar vel aðstöðumun fólks, hvort sem er karla eða kvenna eða með tilliti til búsetu. Vona ég að frv. verði til þess að koma af stað umræðunni um að það verði að gera eitthvað raunhæft í þessum málum til þess að jafna þennan mikla mun sem er milli svæða. Við höfum ótal dæmi um ótrúlega háar tölur hjá fólki sem kyndir hús sín með rafmagni.
    Ég vildi aðeins með þessum örfáu orðum við 1. umr. undirstrika stuðning minn við málið.